Ég ætla að nefna nokkra hluti sem mér þykja brjóta það sem ég tel vera mannréttindi.
Á Íslandi er löggjöf sem heimilar lögreglu að ryðjast inn á heimili fólks af erlendum uppruna og gera húsleit án þess að fá til þess heimild. Þessi löggjöf er runnin undan rifjum Björns Bjarnasonar.
Þessi sama löggjöf, betur þekkt sem útlendingalögin, halda hjónum frá því að geta búið og unnið í sama landi sé annað þeirra af erlendum uppruna og þau undir 24 ára aldri. Þetta sagði Björn Bjarnason að væri til að koma í veg fyrir nauðungarhjónabönd. Í gagnrýni sinni á lögin sagði mannréttindaskrifstofa Íslands að nauðungarhjónabönd væru ekki landlægt vandamál á Íslandi. Ríki á borð við Danmörku kljást við það en það er sökum þess að innflytjendur þar eru frá löndum þar sem slík hjónabönd eru stór hluti af menningunni, en dönsk löggjöf var fyrirmynd að íslensku löggjöfinni. Hafa mannréttindastofnanir kvartað yfir báðum löggjöfum.
Fjölmiðlalög í dag þykja mér óréttlát. Þau þykja mér brjóta á frelsi fólks til viðskipta. Þau meina til dæmis fólki að stofna á eigin spýtur dagblað með dreifingu yfir allt höfuðborgarsvæðið og eiga það sjálft 100%. Hæsti leyfilegi eignarhlutur í slíku fyrirtæki er í kringum 30%. Um þetta eru deildar meiningar en þetta er a.m.k. álit mitt.
Mér finnst líka að íslensk stjórnvöld ættu að biðjast þá sem vildu vera með mótmælaaðgerðir gagnvart kínaforseta afsökunar. Fyrir utan að það er sjálfsagt réttindamál að mega mótmæla hverju sem manni þóknast (svo lengi sem það gengur ekki á réttindi annarra) þá er það nánast siðferðisleg skylda allra að mótmæla einræðisherrum sem bera ábyrgð á fjöldamorðum, pyntingum og fleiri mannréttindabrotum.
Það segir meira en mörg orð um ríkisstjórn okkar að hún hefur enn ekki beðist afsökunar á þessu. (Fyrir utan að fréttastofa RÚV mætti afsökunar á að útvarpa karíókísöng sjálfs einræðisherrans).
Mér finnst það ekki samrýmast lýðræðislegum hugmyndum um trúfrelsi að hafa þjóðkirkju. Hvers vegna eiga skattar að renna ofan í vasa eins trúfélags fremur en annars? Hvers vegna styrkir ríkið kirkju og greiðir jafnvel fyrir það kostnaðarsamar hátíðir? Aðskilnaður ríkis og kirkju er nauðsynlegur og sjálfsagður.
Ég hef vitanlega fleiri umkvörtunarefni varðandi hvernig ríkið er rekið af stjórnvöldum og sveitarstjórnum. En ég læt þetta duga, enda eru hér upptalin það sem mér finnast vera mannréttindabrot á Íslandi.