Nýlega rann upp fyrir mér ljós (reyndar fleiri en eitt, en hitt er önnur saga): Nú á dögum neyslumenningar og óbeislaðs kapitalisma hefur meirihluti almennings varla tekið eftir því að sönn gæði hafa stöðugt minnkað. Þá er ég ekki að meina andleg, óefnisleg gæði (ónei) heldur hreinlega gæðin á vörunum sem við erum að kaupa.
Í viðleitni sinni til að lækka framleiðslukostnað eins og hægt er til þess að græða eins mikið og hægt er, og að fá sem flesta til að kaupa sem mest sem oftast, eru framleiðendur vísvitandi að markaðssetja vörur af minni gæðum en menn eiga sannarlega skilið. Fólk gerir sér ekki endilega grein fyrir þessu. Sumir myndu reyndar segja að þetta sé bara í góðu lagi; að þeir sem hafa vit á því hafi fullt frelsi til að beina viðskiptum sínum þangað sem háum kröfum þeirra er fullnægt. Það er svo sem gott og blessað út af fyrir sig og auðvitað hafa flestir val, a.m.k. að einhverju leyti.
Það sorglega er hins vegar það, eða allavega skynja ég það þannig, að fólk í dag hefur lélegt skynbragð á gæði og verðmæti. Við kaupum bíla, raftæki, tískufatnað, íþróttaskó og GSM-síma án mikillar umhugsunar og skiptum síðan hlutunum út fyrir nýja (hendum þeim oftar en ekki!) þegar við erum orðin leið á þeim eða þeir eru ekki lengur það heitasta í bænum. Þessi rað-fjölda-neysla hefur gert það að verkum að þeir sem þykjast vera á hærra andlegu plani lítilsvirða alla efnishyggju sem andlega gjaldþrota og óæðra lífsviðhorf.
Og þó getur þessi hræðilega efnishyggja (sem þarf ekki að vera allsráðandi og getur vel deilt huga manns með annars konar “hyggjum”) verið gott og fallegt fyrirbæri ef maður hugsar málið svona: Hver hlutur sem er gerður af list og/eða hugviti, vandvirkni og umhyggju fyrir viðfangsefninu representerar eitt það besta í mannlegri náttúru–sköpunargleði. Sönn sköpun er ekki óæðri þótt aðalhlutverk hennar sé ekki að vekja andleg viðbrögð eða hvetja okkur til umhugsunar, sem eru markmið flestallrar listsköpunar. Allir hlutir sem menn hafa hannað og búið til af alúð eru afsprengi æðri hugsunar á efnislegu plani.
Við erum gerð til að lifa þessu lífi í efnislegum heimi, og það er skylda okkar að upplifa þennan ytri heim til fulls–til jafns við þann innri.
Takk fyrir. Ég tek það fram að þessi orð eru ekki mín heldur var þetta hinn forni heimspekingur Ævripedes að tjá sig í gegnum mig.*
:)
Kári
* Það eru reyndar skiptar skoðanir um það hvort hann var eitthvað merkilegur, en hvað átti ég að segja–“nei, þú mátt ekki tala í gegnum mig!”? Það hefði verið dónaskapur!