Vika? Tvær? En hérna var að minnsta kosti betur tekið á málinu hjá lögreglu!
Eyjólfi Magnússyni, kennara í Kópavogi, var rænt á Akureyri í fyrri viku þar sem hann hugðist taka sér far með leigubíl síðla kvölds fyrir utan Kaffi Akureyri.
Eyjólfur dvaldi þá í sumarhúsi í Kjarnaskógi ásamt dóttur sinni og börnum hennar og þangað var förinni heitið: “Ég hélt að þetta væri leigubíll en svo reyndist ekki vera. Ég var ekki fyrr sestur upp í bílinn en mér varð ljóst að þar voru fyrir þrír piltar sem læstu öllum dyrum snarlega. Svo gáfu þeir í og óku á ofsahraða út úr bænum með stefnuna á Svalbarðseyri.
Mér varð ekki um sel þegar ég sá að hraðamælirinn var kominn upp í 170. Þeir voru að hræða mig áður en þeir rændu mig,” sagði Eyjólfur sem bjóst til varnar inni í bílnum á meiri ferð en hann hafði kynnst áður. Hann dró af sér beltið því það var eina varnarvopnið sen honum hugkvæmdist að beita gegn pörupiltunum sem ógnuðu honum í sífellu þar sem bíllinn rétt sleikti malbikið í sumarnóttinni.
“Á Svalbarðseyri sneru þeir við á punktinum og óku til baka á ekki minni ferð en áður og þá var látið til skarar skríða. Tveir piltanna réðust á mig meðan sá þriðji ók og höfðu af mér veski, síma og úr. Mér tókst að taka annan piltinn haustaki og ríghélt þar til bílstjórinn hægði á sér en þá vorum við í námunda við bensínstöðina rétt við flugvöllinn á Akureyri.”
Þegar bíllinn hægði á sér sá Eyjólfur sér leik á borði og henti sér út úr bílnum. Tók hann stefnuna á næstu hús og linnti ekki hlaupum fyrr en hann var kominn á lögreglustöðina á Akureyri:
“Ég var móður og másandi og í sjokki þegar ég loks komst þangað en því fegnastur að vera á lífi eftir þessa óvæntu ökuferð. Lögreglan tók mér vel og ók mér út í Kjarnaskóg, þangað sem ég ætlaði mér alltaf eftir kvöldið á Kaffi Akureyri,” sagði Eyjólfur sem kært hefur piltanna fyrir ránstilraun og þjófnað á veski, síma og úri. Rannsóknarlögreglan á Akureyri er með mál Eyjólfs til meðferðar. Þrír piltar eru í varðhaldi lögreglu, grunaðir um athæfið.
Just ask yourself: WWCD!