———————————
“Það hafa verið unnin skemmdarverk á húsinu okkar í Rituhólum og þar verður að vera vörður,” sagði Halldóra Filippusdóttir, eiginkona Árna Johnsens alþingismanns, þar sem hún var stödd í Vestmannaeyjum í gær. Halldóra sagði að þau Árni hefðu einfaldlega þurft að flýja út til Eyja vegna ágangs óviðkomandi fólks við heimili þeirra í Breiðholti.
“Það hafa bæði verið rifnar upp plöntur og kantsteinar í garðinum hjá okkur og alls konar svívirðingar settar inn um lúguna. Það er allra handa fólk að sniglast í kringum húsið og það verður að vera einhver heima til að bægja lýð í burtu. Sonur okkur hefur tekið það að sér og það hefur gengið ágætlega hjá honum því hann er stór og stæðilegur piltur. Hann verður að vera stöðugt þarna heima og tók sér frí í vinnunni til að það yrði ekkert skemmt á meðan við erum að heiman,” segir Halldóra Hvað sendingar inn um bréfalúguna varðar segir Halldóra að þær hafi síðast þegar hún frétti til fram til þessa einskorðast við svívirðingar en ekki innihaldið beinar hótanir. “En hvað veit maður hvað gerist?” spurði eiginkona Árna Johnsens frá heimili þeirra hjóna í Vestmannaeyjum í gær.
———————————
Er nú fokið í flest skjól. Heldur fólk að brot eins réttlæti brot annars? Heldur fólk virkilega að réttlætið nái fram að ganga ef það fer og “hefnir sín”?
Þetta er sennilega það barnalegasta sem hægt var að gera í aðstöðunni. Hvað með það þótt hann hafi ekki fengið þessa steina upprunalega með lögmætum hætti? Hann er búinn að borga fyrir þá núna og mun svara til saka fyrir verk sín. Og að rífa upp plöntur sem koma þessu máli bara ekkert við er bara fáránlegt. Þeir sem gerðu þetta ættu að skammast sín því þeir eru ekkert betri en Árni sjálfur. Skamm, skamm!
Við verðum að átta okkur á því að ranglæti réttlætir ekki ranglæti, leyfum rannsókn að fara fram, leyfum rannsóknaraðilum að finna hann sekan, leyfum honum að taka út refsingu.
Gerum hann ekki að píslarvotti með svona aðgerðum!
Skoðanir Octavo eru hans eigin og gætu því stangast á við skoðanir annarra á Huga. Þér er velkomið að: