Undanfarið hefur það komið bersýnilega í ljós að Íslendingar eru allt of linir í hinum ýmsu málefnum. Nýjustu dæmin:
Stórglæpamenn sleppa með smá rasskell, og það hreinlega virðist borga sig hér á landi að leiðast út í glæpi. Ég furða mig á því að glæpatíðnin hér á landi skuli ekki vera rokin upp úr öllu valdi mottóið virðist ríkja hjá dómstólum: “Ef við náum þér, þá veistu vart af því! Eftir stutta stund verður þú aftur kominn á götur borgarinnar og tilbúinn í fleiri stórglæpi!”
Annað dæmi, og það sem er búið að vera í brennidepli undanfarna daga: Hátt settir menn komast upp með hvað sem er. “Ef þú spilar þig nógu merkilegan ertu heilagur og ósnertanlegur með öllu!”
Allt þetta mál með Árna Johnsen er algjör hneisa. Ef hann væri ekki Íslendingur og hefði framið þvílíka glæpi gegn þjóð sinni væri svo löngu búið að sparka honum að það er næstum hlægilegt að maðurinn skuli enn mega kalla sig alþingismann. Hann er oftar en einu sinni búinn að segja opinberlega að hann muni EKKI segja af sér sem alþingismaður! Hey, það er búið að gefa manninum sjens, nú er nóg komið. Rekið hann með skömm bæði af alþingi og úr sjálfstæðisflokknum og það strax!
Það er sorlegt að jafn lítilli þjóð sem þó stendur sig svo vel að mörgu leiti, takist ekki að halda uppi aga í þjóðfélaginu. Ég tel að róttækra breytinga sé þörf.
Magnús Sveinn Jónsson