Til Ljufa:
“Það er eins og að segja, skjóttu þig bara í hausinn það er ekkert mál!”
Og fyrirgefðu, heldurðu að einhver skjóti sig í hausinn þá? :)
Öfug sálfræði er mjög vanmetinn hlutur þegar talað er um eiturlyf og afbrot.
Veistu af hverju að áfengi er ekki jafn mikið vandamál núna og það væri ef það væri ólöglegt? Vegna þess að núna er almenn vitneskja um það hvað er of mikið, og hvað gerist þegar þú drekkur ákveðið magn undir ákveðnum kringumstæðum.
Það er þekkt að margir verða ofbeldishneigðir undir áhrifum. Ég hef oft fundið fyrir pumpuðum tilfinningum drukkinn, en þá veit ég af því vegna þess að ég hef séð fólk drukkið alla mína ævi, sem og að ég hef auðvitað upplifað vægari tilfelli þess áður. Þess vegna eru það eiginlega bara þessir þöngulhausar sem hafa skít í stað heila sem *eru* ofbeldishneigðir undir áhrifum, vegna þess að þeir eru of fjári heimskir til að taka eftir því að áfengið er að hafa veruleg áhrif á skapferli þeirra.
Hinsvegar, á meðan efnin eru ólögleg, svosem kannabis, þá er *engin* almenn þekking í gangi. Þetta þýðir það auðvitað að ef ég reyki kannabis án þess að hafa séð freðinn mann mjög oft eða án þess að hafa reykt lítið áður en ég fer að reykja mikið, þá túlka ég vímuna á allt annan hátt, og geri mér *engan veginn* grein fyrir hugsanlegum afleiðingum ef ég reyki of mikið. *Það* gerir kannabis hættulegt. Sú sorglega staðreynd að þetta tiltölulega saklausa efni er ólöglegt. Ég fer mjög seint ofan af því að áfengi er til dæmis töluverðu hættulegra, bæði hvað varðar fíkn, ofbeldishneigð og hættu út í harðari efni, heldur en kannabis nokkurn tíma, nema einmitt vegna þess að kannabis er ólöglegt.
Á meðan kannabis er ólöglegt hefurðu það að A: Fólki hættir til að misnota efnið, B: Fólki hættir til að missa traust á forvarnaraðilum og leitast því í harðari efni, C: Fólk hefur aðgang að harðari efnum strax og er því að sjálfsögðu líklegara til að leiðast út í þau, D: Kann ekki að túlka vímuna og gerir því heimskulegri hluti í vímunni sjálfri.
Ekkert af þessu hefurðu þegar efnið er löglegt. Meðalneysla hækkar, en meðalneysla skiptir líka engu máli á meðan ofneyslutilfellum fækkar. Þess má geta að það þarf stjarnfræðilegt magn af kannabis til að það kallir “ofneysla”, og þá verðurðu í mesta lagi dofinn í svona viku á eftir. En það gerist alveg… það gerist mjög sjaldan sem prósenta af heildarneyslu fólks (sem er meiri en þig grunar ef þú neytir aldrei kannabisefna), en það gerist líka fyrst og fremst vegna þess að efnið er ólöglegt.
Það hefur þegar sýnt miklar framfarir þegar yfirvaldið segir einfaldlega “Ókei, þetta er heimskulegt hjá ykkur, en þið megið gera það. Leyfið okkur bara að hjálpa ykkur, og gerið þetta á réttan hátt.”
Það segir sig sjálft að þú segir ekki við barn að það megi aldrei í lífinu fara yfir götu… vegna þess að líkurnar á því að barnið hlýði alla sína ævi eru stjarnfræðilega litlar. Ef þú fylgir því fyrstu árin yfir göturnar lærir það af þér og af reynslunni við að fara yfir götur, og er því reiðubúið til að halda því áfram. Það verður fyrst verulega líklegt til að verða fyrir bíl ef þú hefur sagt því alla þess ævi að það sé mjög hræðilegt að fara yfir götur yfirhöfuð… vegna þess að barnið *er ekki* alltaf að hlusta á foreldra sína, og það sér alveg að aðrir krakkar fara yfir götur án nokkurra vandkvæða.
Algert lögbann er því að mínu mati, óttalega barnaleg og skammsýn lausn.
Ég trúi því statt og stöðugt að fræðsla í réttu formi og á réttum tíma sé fullkomin lausn. Þessa fræðslu þarf hinsvegar að rannsaka og þróa betur, og það gerist mjög ólíklega á meðan efnin eru ólögleg. Einnig er þessi wannabe-heilaþvottur sem fer fram í grunnskólum, KOLVITLAUS AÐFERÐ og mun aldrei virka.