Ég varð fyrir því að klessa bílinn minn fyrir rúmum mánuði síðan. Ég var að beygja til vinstri af stop merki yfir tveggja akreina götu og sendibíll á vinstri akreininni (Sem ég sá ekki fyrir jeppa sem var að beygja inn í götuna sem ég kem úr) lendir á bílnum mínum og gerir hann óökuhæfann. Bíllinn minn varð fyrst ökuhæfur í gær, en það er önnur saga. (Ég mæli amk ekki með varalhutaþjónustu Heklu). Vegna þess að hvorki ég né ökumaður sendibílsins vorum með tjónaskýrslu ákváðum við að kalla til lögreglu, sem ég veit í dag að voru mistök. Lögreglan kom, tók skýrslu og kallaði til kranabíl.
Bíllinn minn fór svo sína leið og bíður þess nú að lokið verði við að gera við hann. Hinsvegar fékk ég sektarboð fyrir 3 vikum síðan. Það kom reyndar áður en bíllinn fór út úr portinu hjá Króki. Þar var ég sektaður um 8 þúsund krónur fyrir að virða ekki stövðunarskyldu. Ég fékk þær upplýsingar að þessi sekt væri byggð á hæpnum forsendum og ákvað því að leita réttar míns.
Lögreglan er með spes mann til að taka við mótmælum út af sektum. Hann heitir Sævar, er með 2 GSM síma og mottóið hans virðist vera “Því miður, ég get ekki gert neitt” Ég verð að segja að ég öfunda hann ekki af starfinu sínu. Það fyrsta sem hann bauð mér að gera var að hafna sektarboðinu og senda málið fyrir héraðsdóm. Mig langaði ekkert sérstaklega að standa í dómsmáli þannig að ég vildi vita um aðrar leiðir. Sævar sagði þá að hann geti ekkert gert út af sektinni því hann væri ekki sá sem ákveður þær, það væri gert af lögfræðingum. Þegar ég bað um að fá að tala við lögfræðinginn var mér sagt að hann ynni heima hjá sér, enda væri hann að jafna sig eftir mikla aðgerð. Þá bað ég um að fá að tala við annan lögfræðing og fékk þá þau svör að þeir væru svo margir, og hann vissi ekki hvort þeir væru hrifnir af því að hann væri að vísa fólki á þá.
Eftir nokkuð þóf tókst mér að fá að vita að hægt væri að senda skrifleg mótmæli og gerði ég það.
Í síðustu viku fékk ég tilkynningu um að mótmælin mín hafi ekki verið tekin til greina, en ég fékk enga skýringu á því hvers vegna. Kostirnir sem ég hef í stöðunni eru að beygja mig og borga eða senda málið fyrir héraðsdóm.
Hvað er það svo sem ég hef lært af þessu?
* Ef ég lendi aftur í árekstri kalla ég ekki á lögregluna, frekar geri ég skýrsluna sjálfur og haltra upp á slysó.
* Ef ég fæ sekt að kvarta undantekningalaust. Sævar þarf að fá að vinna fyrir kaupinu sínu.
* Hafa nóg af tjónstilkynningum í bílnum. Sú sem ég hafði ekki kostaði 8 þúsund krónur.
* Draumatækið mitt verður svokallaður “Lögregluvari” sem gerir mér kleift að vita hvar lögreglumenn eru og forðast þá í hvívetna.
* Lögreglan og bílastæðasjóður eru með mjög svipað þjónustustig, þeirra mottó er borgaðu rottan þín!