Ég er forvarnarmaður (jafnaðarmaður) og vil deila með ykkur skoðunum mínum um hvernig íslenskt samfélag eigi að vera. Við erum komin góða leið í forvarnarsamfélag, en alltaf má gera betur. Við verðum að nýta vald stjórnvalda betur til þess að forða fólki frá óæskilegri hegðun.
Einkabílar:
Einkabílar eru ekki lífsnauðsynlegir. Einkabílar eru sóun á orku og peningum, mikið hagstæðara væri að hafa betri almenningsgöngur og láta alla nota þær. Minni mengun, minni eyðsla á orku og bjargar tugum mannslífa á hverju ári. Tvöfalda skal skatt á einkabíla og bensín fyrir almenning og nota þennan pening til þess að styrkja almenningssamgöngur. Smátt og smátt er hægt að herða þetta meira næstu árin og á endanum banna einkabíla.
Sælgæti og skyndibitamatur:
Margir verða háðir sælgæti, gosi og skyndibitamat. Mikilvægt er að ríkið taki að sér þessa sölu alveg eins og með áfengi og tóbak. Stofna skal “Gosdrykkja- og sælgætisverslun ríkisins” og “Skyndibitastaður ríkisins”. Forvarnaskattur skal vera á milli 40-60% eftir sykur- og fitumagni í vörunum, svo bætist virðisaukaskattur ofan á það. Allar vörur skulu vera merktar áberandi textum á umbúðunum þar sem möguleiki á skaðsemi er tekinn fram. T.d. “Neysla sælgætis getur skemmt tennur”, “Neysla skyndibitamats eykur líkur á offitu” og “Sælgæti er ávanabindandi: Hringdu í síma 800-xxxx til þess að fá hjálp við að hætta að borða nammi”.
Læknadóp:
Aukist hefur gífurlega hlutfall þeirra sem að verða háðir löglegum lyfjum, stórt hlutfall þeirra sem fara á Vog eru háðir t.d. verkja- og/eða svefnlyfjum. Kostir þessara lyfja vega ekki meira en skaðsemin. Þó það sé óþægilegt þá lifir maður alveg af að geta ekki sofið eða fundið fyrir verkjum, en margir verða háðir þessum lyfjum og eyðileggja líf sitt með þeim. Því skal banna öll sterk verkjar- og svefnlyf, sem að mörg eru meira ávanabindandi en ólögleg fíkniefni.
Reykingar á almenningsstöðum:
Rétt er það að allir hafa frelsi til þess að velja hvert er farið og hvort farið sé á stað sem að leyfir reykingar eða ekki. En það er mikið þægilegra fyrir reyklausa að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því, skera skal frelsi reykingarmannsins fyrir þægindi hinna. Óþægilegt er að þurfa að biðja vini og ættingja sem reykja um að fara á reyklausan stað/svæði, auðveldum þetta fyrir okkur með því að reka reykingarfólkið út með valdi. Einnig ætti það að vera í lögum að ekki má reykja á eigin heimili nema að fá samþykki allra sem þar búa. Gestir sem koma eiga rétt á reyklausu umhverfi alveg eins og á kaffihúsum, ef gesturinn gefur ekki leyfi þá skal gestgjafinn fara út að reykja eða bíða eftir að gesturinn fari. Sekta skal þá sem brjóta reykingarlögin um 30 þúsund krónur, 5 þúsund krónur bætast svo ofan á það í hvert skipti. Þannig að sá sem brýtur reykingarlögin t.d. í 10 skipti skal borga 75 þúsund krónur í sekt. Ef einstaklingurinn getur ekki eða vill ekki borga sektina skal hann fá 1 mánaðar fangelsisdóm í staðinn.
Jafnrétti kynjanna:
Einfaldasta leiðin til þess að jafna launamun er í gegnum skatt. Karlmenn skulu borga aukaskatt sem rennur beint til kvenna sem bónus, mikilvægt er að endurskoða þetta reglulega þar sem launamunur breytist reglulega. T.d. ef launamunur er 14% þá skulu karlmenn borga 7% í aukaskatt. Einnig verður að tryggja að kynin séu í svipuðum hlutföllum á öllum vinnustöðum. Góð aðferð er að setja í lög að kynjahlutfall eigi að vera 49-51% af hvoru kyninu á hverjum vinnustað, sama hvort við séum að tala um Alþingi, byggingarvinnu eða skrifstofustarf. Engar undantekningar leyfðar enda gefur það smugu á kynjamisrétti.
Ég vona að þið séuð sammála mér með það að beita valdi til þess að koma á jafnrétti og forða einstaklingum frá skaðsemi. Frelsi er ofmetið, við verðum að beita valdi til þess að koma í veg fyrir að þjóðfélagið fari til helvítis. Einstaklingurinn er einfaldlega of heimskur til þess að bera ábyrgð á eigin lífi og líkama. Við verðum að herða valdbeitingu stjórnvalda áður en samfélagið okkar fer í ræsið!