Er baráttu samkynhneigðra lokið? Í þeim mörgu umræðum sem ég hef tekið þátt í um baráttu og/eða réttindi samkynhneigðra hefur þeirri fullyrðingu oft verið kastað í mig að það sé ekki lengur neitt fyrir samkynhneigða til að berjast fyrir. Samfélagið sé búið að sætta sig við samkynhneigð og flestir samkynhneigðir geti lifað sínum lífstíl án vandræða. Satt er það að staða samkynhneigðra á Íslandi er með þeim bestu sem þekkist í heiminum, en ég mun seint vera sammála því að baráttunni sé lokið. Þó ég sé ekki stuðningsmaður Framsóknarflokksins þá fagna ég þeirri ákvörðun þeirra að berjast fyrir fullum réttindum samkynhneigðra, sem forsætis- og félagsmálaráðherra hafa tjáð sig um. Allir stjórnmálaflokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn hafa lýst yfir vilja til að auka réttindi samkynhneigðra til fulls, því er ljóst að Ísland stefnir í lokasprettinn þegar kemur að lagalegum réttindum samkynhneigðra. Við ásamt Svíum munum verða á toppnum þegar kemur að stöðu samkynhneigðra.
En jafnvel eftir að samkynhneigðir eru komnir með full réttindi þýðir það ekki að baráttunni sé lokið. En þá eru einstaklingar á Íslandi sem að bera fordóma og hatur gagnvart þeim sem ekki eru gagnkynhneigðir. Dæmi um það sést í blaðagrein úr Blaðinu 11.ágúst sem var skrifuð af Jóhanni L. Helgasyni, sem er hér feitletruð neðst í greininni. Ég vil annars taka það fram að ég trúi á málfrelsi og tel ekkert óeðlilegt við að Jóhann fái að tjá skoðanir sínar, þó ég augljóslega sé ekki sammála þeim. Gay Pride og barátta samkynhneigðra almennt er alþjóðlegt fyrirbæri, þessu megum við ekki gleyma í góðri stöðu samkynhneigðra hér á klakanum. Nú árið 2005 eru en þá til samfélög sem mismuna, refsa og drepa fólk fyrir samkynhneigð. Fann lista á netinu yfir þau lönd sem banna samkynhneigð, reyndar er hann nokkra ára gamall en ég held að tölurnar séu mjög svipaðar í dag. Samkvæmt honum eru 76 lönd sem banna samkynhneigð, birti listann hér fyrir neðan ásamt blaðagreininni.
Ég fagna því annars að búa hér á Íslandi og er mjög ánægður með það hversu fljótt þessi þjóð hefur áttað sig á því óréttlæti að mismuna samkynhneigðum eða tvíkynhneigðum einstaklingum. Því miður er áhættumesti hópurinn þegar kemur að sjálfsmorðum á Íslandi en þá ungir hommar. Ástæðurnar geta verið ýmsar, t.d. að einstaklingurinn sjálfur var trúaður og trúði því að kynhneigð sín væri synd. Eða einstaklingur sem jafnaði sig aldrei á einelti sem hann lenti í vegna kynhneigðar sinnar. Höldum áfram þessari jákvæðu þróun, en gleymum því samt aldrei að baráttunni er ekki en þá lokið. Það er en þá verið að brjóta mannréttindi samkynhneigðra í ýmsum samfélögum og það eru en þá einstaklingar hér á Íslandi sem vilja ýta samkynhneigðum aftur inn í skápinn. Nú vona ég bara að viðhorf almennings haldi áfram að batna og að Alþingi samþykki full réttindi samkynhneigðra.
______________________________________________________
Á listanum sést að það er ólöglegt í 76 löndum að vera samkynhneigður…
Dæmi:
Land……………. Hommar —– Lesbíur —– Hámarksrefsing
Nígería…………. Ólöglegt —– Löglegt —– Dauðadómur
Marshall eyjar… Ólöglegt —– Löglegt —– 10 ára fangelsi
Indland…………. Ólöglegt —– Ólöglegt —– Lífstíðarfangelsi
Ástralía…………. Löglegt —— Löglegt
Íran……………… Ólöglegt —– Ólöglegt —– Dauðadómur
http://encyclopedia.laborlawtalk.com/List_of_countries_which_permit_or_outlaw_homosexual_behavior
Blaðagrein úr Blaðinu 11.ágúst…
Jóhann L. Helgason
“Ætla skal að miðað við áhorfendafjöldann á hinsegin dögum nú í ágúst sé homma og lesbíu faraldurinn stöðugt að breiða úr sér á Íslandi. Með dyggum stuðningi stjórnvalda við útbreiðslu sóttarinnar stefnir hratt í að Ísland verði eitt mesta homma og lesbíu bæli jarðarinnar að San Fransisco meðtalinni. Munum við Íslendingar þá eignast enn eitt heimsmetið og eru þau ærin fyrir og gerast sífellt heimskari. Árni Magnússon félagsmálaráðherra steig í púltið í miðjum fíflalátum hinsegin daga og boðaði fagnaðarerindið líkt og sjálfur frelsarinn væri endurborinn. Lofaði hann samkynhneigðum þar meðal annars vígðri sambúð, ættleiðingum barna og tæknifrjóvgun, amen. Vil ég aðeins segja við homma og lesbíur að trúa ekki um of á bullið í ráðherranum því slíku sem þessu getur lofað framhjá þingi og kirkju og veit ég að allflest okkar hinum eðlilegu finnst það fáránlegt að leyfa slíkt nokkurn tíma.
Sannleikurinn er sá að ráðherrann er í örvæntingafullum atkvæðaveiðum fyrir Framsóknarflokkinn sem er flokkur opinn í báða enda og við það að gefa upp öndina. Ættleiðing barna inn í samfélag samkynhneigðra er þó alvarlegasta krafan. Ættleitt barn sem elst upp við daður og ástarleiki tveggja karla eða kvenna fær svo ekki sé meira sagt mjög óeðlilegt uppeldi sem auðvitað mun skemma barnið sem síðar kemur sjálft til með að breiða út óeðlið. Stjórnvöld hafa boðið kynlífsfræðingum í grunnskólana til að segja við börnin að það skipti ekki máli hvort farið sé heim með Siggu eða Sigga í ástarkeiki, það sé jafn eðlilegt. Eru ekki skólayfirvöld sem boða börnunum slíkan boðskap stórhættuleg landi og þjóð.
Aldrei hafa fleiri ungmenni en nú skráð sig inn í samtökin. Er það vegna þess að hommum og lesbíum fjölgi ört? Nei, það er ekki ástæðan heldur er það fyrst og fremst forvitni unglinganna sem einmitt vaknar við fíflalegar uppákomur á götum úti. Er það ekki meiningin með öllu saman? Allt sem er öðruvísi er vissulega forvitnilegt þó að það sé ekki að sama skaði eðlilegt né skynsamlegt. Við homma og lesbíur vil ég segja þetta að lokum: Hættið að rugla börnin okkar í ríminu jafn lymskulega og raun ber vitni. Hættið líka að segja við heiminn að þið séuð eitthvað annað en óeðlileg. Farið aftur inn í skápinn og lifið ykkar kynlífi í friði og fjarlægð frá okkur hinum og lokið vel á eftir ykkur. Fordómana hafið þið sjálf skapað.”