Umferðarátak á Íslandi TAKK FYRIR! Ég er orðinn mjög leiður á því að koma of seint á leiðarenda vegna hegðunar annarra í umferðinni. Nú veit ég að einhver mun svara með því að segja “þú getur bara lagt af stað 10 mín fyrr” og viðurkenni ég alveg að það er sniðugt á háannartímum. En stundum þegar umferðin er róleg getur einn hálfviti verið að eyðileggja fyrir manni og þetta er alveg óþolandi, meira að segja þegar maður er ekki að flýta sér. Enda er þetta sóun á tíma samt sem áður.

Vinstri/Hægri reglan…

Þegar það eru tvær eða fleiri akreinar í sömu átt, þá á að nota vinstri akrein til þess að taka fram úr. Þegar búið er að taka fram úr á að færa sig aftur á hægri akrein. Meirihluti Íslendinga eru EKKERT að spá í þessari reglu, það er algeng sjón að sjá jafn marga eða jafnvel fleiri bíla vera að dunda sér á vinstri akrein. Maður á EKKI að hanga vinstra megin í margar mínútur af því 5 km lengra þarf maður að beygja, það á að beygja á vinstri akrein stuttu áður en maður tekur beygjuna.

Lágmarkshraði…

Það er mjög skrýtið að það sé ekki lágmarkshraði á Íslandi. Ég væri til í að sjá lágmarkshraða 20 km frá hámarkshraðanum og að það sé hiklaust sektað fyrir að fara undir, um 10-15 þúsund krónur. En þó að það sé tekið fram að þetta gildi ekki sé veður mjög slæmt, t.d. í mikilli hálku. Eða ökumaður sé að koma að gatnamótum, beygju, stöðvunar- og biðskyldu og fleira í þessum dúr. Lögreglan ætti að gera átak og byrja að sekta fólk sem keyrir of hægt, sérstaklega á vinstri akrein. Lágmarkshraði hefði einmitt gefið lögreglunni gott vopn gegn þeim sem voru með öfgamótmælin um verslunarmannahelgina.

Stefnuljós…

Lets face it (afsakið slettuna), helmingur ökumanna nota sjaldan eða aldrei stefnuljós. Þetta getur einnig seinkað öðrum ökumönnum á áfangastað og valdið slysum. Ég hef sjálfur aldrei lent í bílslysi á þessum 3 1/2 árum sem ég hef verið í umferðinni, en þau skipti sem ég hef komist nálægt því hefur það oftast verið þegar annar ökumaður gaf ekki stefnuljós. Það er ótrúlegt hversu margir eru að flakka hratt á milli akreina án þess að gefa stefnuljós. Reyndar myndi þessi hegðun minnka ef fólk væri að fara eftir hægri/vinstri reglunni, en samt sem áður engin afsökun. Þetta er einnig mjög óþægilegt t.d. hjá hringtorgum. Á hringtorgum eru ökumenn mjög mikið að fylgjast með öðrum ökutækjum, eða hvenær þeir geti komist inn í hringtorgið. Þegar bíll beygir úr því án þess að gefa stefnuljós, þá getur ökumaðurinn lent í því að komast ekki inn fyrr en næst þegar það er bil eða einhver beygir. Þetta getur einnig komið fyrir hjá gatnamótum. Ég skil betur t.d. þá hegðun að gefa ekki stefnuljós á bílastæði þar sem fáir eða engir aðrir bílar eru. En það er mjög gott að gefa stefnuljós þegar nokkrir bílar eru í einu að leita að stæði, svona til þess að láta vita að þú sért að fara að taka stæðið.

Gula ljósið…

Það er mjög pirrandi þegar fólk er að dunda sér við það að leggja af stað eftir að græna ljósið kemur. Setja í gír eftir að það er komið grænt í stað þess að vera tilbúin. Þetta getur verið mjög slæmt sérstaklega hjá beygjuljósum, því á mörgum stöðum komast bara nokkrir bílar yfir í einu. Hver sekúnda skiptir máli og nokkrir bílar geta lent í því að þurfa að lenda aftur á rauðu vegna þess að einn ökumaður var seinn að leggja af stað.

Það sem er en þá verra er ökumaður sem snarhemlar um leið og það kemur gult, oft á ágætlega miklum hraða og frekar nálægt ljósunum. Þetta er mjög slæmt enda reiknar ökumaðurinn fyrir aftan líklega með því að hann fari yfir. Þetta ekki aðeins seinkar manni á áfangastað, heldur er mjög mikil slysahætta. Ætla ekki að alhæfa, en þetta er mjög oft konur komnar yfir fertugsaldurinn eða fólk sem er nýkomið í umferðina. Ekki hika svona, það kemur ekki grænt hinum megin um leið og það kemur gult.