Ég heilsa ykkur.

Þjóðhöfðingi Sádi-Arabíu, Fahd konungur, lést í gær, 84 ára að aldri. Þar með lýkur 23 ára valdatíð hans, og við völdum tekur hálfbróðir hans, krónprins Abdullah, sem hefur í reynd stjórnað ríkinu síðastliðin tíu ár vegna veikinda Fahds konungs. Þrátt fyrir þessi langvarandi veikindi hlýtur dauði konungsins að koma einhverjum þegnum hans í opna skjöldu, því í síðustu viku var bata konungsins fagnað með því að sleppa föngum lausum.

Fahd konungur var ekki beinlínis þekktur fyrir að vera konungur alþýðunnar. Síðustu ár hefur ríki hans átt við vaxandi efnahagsvandamál að stríða, en það truflaði ekki hirðina frá því að safna auðæfum á kostnað almennings. Eignir Fahds sjálfs voru metnar á 18 milljarða Bandaríkjadala, og stundum var sagt í gríni að nýjum bílum væri fargað um leið og öskubakkinn væri orðinn fullur.

Helstu áhyggjur Fahds konungs voru, eins og áhyggjur annarra einræðisseggja, að honum yrði steypt af stóli. Þegar Bandaríkjaher réðst inn í Írak í fyrra skiptið, árið 1991, hafði hann áhyggjur af Saddam Hussein, og bauð því Bandaríkjamönnum að hafa þar hundruð þúsunda hermanna í herstöðvum. Dvöl hersins átti raunar aðeins að vera tímabundin, en líkt og í öðrum löndum er herliðið ekki enn farið. Rúmum áratug áður, árið 1980, hafði konungurinn þó stutt Saddam Hussein til innrásar í Íran, af ótta við að íslamska byltingin í Íran gæti breiðst út til heimalands hans (Til að hafa varann á styrkti konungurinn samtímis tengsl sín við íslamska arfleið sína með því að taka upp titilinn „Verndari hinna tveggja heilögu moskva").

Fahd konungur studdi sumsé Írak í stríði gegn Íran, og síðar Bandaríkin í stríði gegn Írak, allt eftir hentisemi. Hann var kannski ekki beinlínis friðelskandi konungur, en hann hélt þó völdum. Og það hlýtur að vera fyrir öllu. Enda eru það þegnarnir sem þjóna konungnum, en ekki öfugt.

Ólíklegt er að mikil breyting verði á þessum stjórnarháttum í Sádi-Arabíu við fráfall konungsins. Abdullah krónprins er sannarlega ekkert unglamb, 81 árs að aldri. Og þótt margir voni að nýjum konungi fylgi umbætur verður það að teljast ólíklegt í ljósi þess að hann hefur sinnt starfinu í áratug nú þegar án mikilla sýnilegra breytinga.

Bandaríkjastjórn, sem segist heyja stríð til varnar lýðræði og umbótum, hefur þrátt fyrir allt ekki séð ástæðu til að tjá sig um ástandið í Sádi-Arabíu. Ekki skyldi það þó vera vegna þess að Bandaríkin hafa ríkra hagsmuna að gæta í því að skyldmenni Fahds konungs haldi völdum? Gæti hugsanlega verið að aðgerðir Bandaríkjahers í Írak og Afghanistan hafi ekkert með lýðræði og umbætur að gera, heldur séu þær ósköp hversdagsleg hagsmunagæsla?

Ég kveð í bili.
Evklíð.