Áfall kom yfir fjölskyldu í Brasilíu, bresku lögregluna svo og restina af heimsbyggðinni þegar í ljós kom að breska lögreglan hafði skotið saklausan mann átta sinnum og orðið honum að bana. Maðurinn, Jean Charles de Menezes, hafði búið í London í þrjú ár á námsmannavegabréfsáritun sem nýlega hefur komið í ljós að var útrunnin. Þegar lögreglan fann hann svo í Stockwell-lestarstöðinni í London og bað hann um að stoppa tók hann á rás. Líklegt er talið að útrunna áritunin hafi verið valdur flóttans en lögreglumennirnir misskildu þessi viðbrögð augljóslega og endaði með því að þeir eltu hann niður í lest þar sem hann var skotinn 8x, m.a. í hausinn.
Fjölskylda Menezes, þá sérstaklega frændi hans, er æf yfir málinu og hótar að fara í mál við bresk yfirvöld. Mikill þrýstingur hefur legið á Tony Blair, Ian Blair yfirlögreglustjóra og Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands síðan atvikið gerðist síðastliðinn föstudag. Þeir hafa lýst yfir ótrúlegum harmi vegna málsins en hafa þó staðið þétt við bakið á lögregluliði sínu. Að þeirra sögn er atvikið vissulega sorglegt en þó afsakanlegt í ljósi hryðjuverkaógnarinnar sem að Bretlandi steðjar. Ný stefna hefur verið tekin upp í Bretland, hin svokallaða “shoot to kill” eða “skjóta til að drepa” stefnan. Tilefni hennar er að eina leiðin til að stöðva sjálfsmorðsárásir hryðjuverkamanna er að drepa þá samstundis með því að skjóta í hausinn á þeim. Ekki dugar að skjóta í fótinn, brjóstið e.þ.h. því ef ske kynni að hryðjuverkamaðurinn hefði sprengju innan á sér gæti hann framið verknaðinn þrátt fyrir skotsár.
Tilefni þessarar greinar er að velta fyrir sér hvort að hin nýja stefna bresku lögreglunnar sé réttlætanleg. Er hægt á einhvern hátt að réttlæta morð á saklausum borgara í nafni æðri málstaðar? Hefur breska lögreglan sokkið niður á plan hryðjuverkamannanna sjálfra eða eru viðbrögðin nauðsynleg?
Rök með “shoot to kill”:
Vissulega getur þessi stefna reynst gagnleg ef um raunverulega ógn er að ræða. Hins vegar getur verið mjög erfitt fyrir lögreglumenn að ákvarða á sekúndubroti hvort ástæða sé til að ætla að um hryðjuverkamann sé að ræða. Þá er betra að eyða ógninni til að bjarga lífi tuga jafnvel hundruða. Ef lögreglumenn telja hættuna vera raunverulega er betra að vera viss og drepa meinta hryðjuverkamanninn samstundis til að koma í veg fyrir dráp breskra ríkisborgara og öngþveiti sem af því mundi skapast. Nokkrar ástæður voru fyrir því að lögreglumenn gátu ætað að Menezes væri hryðjuverkamaður:
- Hann var í þykkri úlpu á heitum sumardegi sem þótti grunsamlegt. Ef til vill leyndi hann á sprengju innanundir.
- Hann flúði undan lögreglu.
- Hann hljóp beint niður í lest.
Rök gegn “shoot to kill”:
Það er aldrei réttlætanlegt að taka líf saklauss borgara, sama hver ástæðan gæti verið. Þótt að um hryðjuverkamann gæti verið að ræða getur ekkert afl leyft sér að spila svona með líf manna. Svo er spurning hvers þetta gæti leitt til, því með þessu hefur breska lögreglan e.t.v. tekið skref frá ríkislögreglu yfir í einhvers konar “vigilante” hóp sem fylgir sínum eigin reglum. Ekki má gleyma að þessi stefna hefur ekki verið borin undir þingið.
En nú er spurningin, kæru hugarar, hvað finnst ykkur í öllum þessum málum? Ætlun þessarar greinar var ekki að taka neina afstöðu, heldur að koma með málið fram á sjónarsviðið á huga og kynna hliðar þess.