Ég er löngu hættur að fara á útihátíðir. Stundaði þær á sínum tíma og skemmti mér konunglega. Man þó að á síðustu hátíðinni ofbauð mér fylleríið og var alltaf var við hve hættuleg “stemmingin” var. Því datt mér í hug að setja hérna nokkra punkta fyrir “ungu kynslóðina” svona til að reynsla forfeðranna glatist ekki.
Svo ég byrji á ULTRA skynseminni: Ef þú hefur ekki aldur skaltu alfarið sleppa því að fara. Eins er sniðugt að spara peninginn og fara frekar borgarferð í haust til London. En ég geri ekki ráð fyrir að neinn taki mark af þessu þannig að:
Útihátíðir eru EKKI rétti staðurinn til að drekka í fyrsta, annað eða þriðja skiptið. Fyrstu fylliríin hjá flestum enda í ælu og áfengisdauða. Þú villt ekki gera tilraunir á útihátíð. Reynslulítið eða reynslulaust drykkjafólk á að vera edrú.
Skammtaðu þér. Ef þú ert með kassa af bjór fyrir hvert kvöld láttu hann þá nægja. ekki stelast til að byrja á næsta.
Haltu þig við eina tegund áfengis allt kvöldið. Blandaðu þunnt og helst í eitthvað vatnsbaserað eins og djús. Ég blandaði oftast 1dl. vodka út í Trópí í líters plastflösku. Þetta ráð mun forða þér frá verstu þýskunni.
Eins er gott að drekka óáfengt inn á milli. Ekki gos þar sem það virðist auka þynku. Djús eða vatn.
MÆLDU þegar þú blandar. Þessvegna er betra að blanda í stórar einingar frekar en glas. Annars mun vínið ekki endast og þú farin að drekka 50/50 í restina.
EKKI kaupa vín á staðnum. Hvorki smygl né landa.
ALDREI ALDREI ALDREI þiggja sopa frá neinum sem þú þekkir ekki. Viltu virkilega taka sjensinn á að vakna með engar minningar en auman rass?
Vertu með vinunum. Ef einn fer að vera ofurölva komið honum í tjaldið eða labbið með hann þar til rennur aðeins af honum. Eins ef þið sjáið eitthvað óeðlilegt t.d. hugsanlega nauðgun, miklar barsmiðar og þess háttar þá er um að gera að skipta sér af. Amk. hafa upp á gæslumanni.
BORÐAÐU. Ekki bara jógúrt og rækjusamlokur. Áður en þú ferð er óvitlaust að vera búin að elda mat sem má hafa með og borða kaldann eða hita á staðnum. Við erum ekki að tala um 3 retta lúxusfæði. Pastasalat, kallt kjöt eða eitthvað sem fyllir magan. Borðið síðan um klst. áður en byrja á drykkju. Aldrei drekka á fastandi maga.
Gamalt ráð sem þingmenn fara víst eftir. Fá sér lýsi um klukkutíma fyrir drykkju. Lýsið myndar n.k. húð sem dregur aðeins úr hraða áfengisins í blóðið. Ekki hafa áhyggjur! Það skilar sér allt í blóðið en bara á temmilegri hraða.
Strákar - ekki gleyma að alla ævi þurfið þið að vakna og horfa í spegilinn við rakstur. Viljið þið virkilega þurfa ævilangt að sjá andlit manns sem þurfti að þröngva sig upp á einhvern til að fá úr honum? Nei er nei!
Og þegar já verður já NOTIÐ SMOKK! Þetta á hvorki að vera helgin sem að þíð fáið nýtt afbrigði af klamedíu né eru þið að skuldbinda ykkur í 18 ára graðgreiðslur (meðlag).
Notið skynsemina. 99% þeirra sem eru á svæðinu eru þarna á sömu forsendum og þú. Þetta 1%eru þeir sem hvetja til slagsmála, skemma, atast í löggunni og svo framvegis. Haltu þér frá slíkum aðstæðum. Mundu að löggan þarf lítið að afsaka eða réttæta til að taka þig úr umferð í 24 klst. Nóg að þú sért fullur. Því er um að gera að leyfa þeim að sinna sínu starfi og láta þá í friði. Það er fúlt að ætla að skemmta sér vel og enda svo í klefa.
Ég er ekki að mæla með fylleríi né útisamkomum. Þvert á móti: haldið ykkur bara heima. En ef þið ætlið endilega að rasa út þá eru þessi ráð að ofan byggð á talsverðri reynslu.