Bandaríkin, Kína og framtíðin á Íslandi
UPPVAXTARÁR KÍNA

Síðustu ár hefur Kína vaxið mjög hratt og mikið sem iðnríki, og nú er Kína að verða stærsta iðnríki heims, ef það er ekki orðið það nú þegar. Þetta veldur mönnum áhyggjum, þó svo að menn gleðjist yfir betri lífsgæðum kínverja þá eru margir sem benda á að þetta gæti reynst hættulegt, fyrir allan heiminn.

Kína er að vaxa sem ríki í öllum skilningi, hermálum, efnahagsmálum og heimsmálum. Kína hefur látið lítið fara fyrir sér í alþjóðamálum, yfirleitt látið aðra um áhyggjur heimsins, og yfirleitt verið á móti allskyns stríðsbrölti vesturveldanna.

En hvað meina ég þegar ég tala um “Bandaríkin og Kína”? Nú hafa Bandaríkin verið eina “stórveldið” í heiminum í mörg ár, áratugi, en nú er svo komið að nýtt heimsveldi er í fæðingu. Menn vita mjög lítið um Kína, og því hafa menn vissar áhyggjur af því hverskonar átök gætu verið í uppsiglingu milli BNA og Kína. En ljóst er að einhver átök á milli þessara ríkja, hvort sem um ræðir efnahagsleg eða hernaðarleg, gætu haft gríðarlegar afleiðingar fyrir heimsbyggðina.


BNA OG ALMENNINGSÁLITIÐ

Stríðsbrölt BNA í Írak og Afganistan hefur ekki hjálpað, nú er svo komið að flestir evrópubúar hafa betra álit á Kína heldur en BNA. En svokallaðir “Allies” í Evrópu, Bretland, Frakkar, Þjóðverjar, Ítalir, Spánverjar hafa mjög vont álit á BNA um þessar mundir og horfa frekar til Kína, samkvæmt grein CNN.com (http://edition.cnn.com/2005/US/06/23/poll.america.ap/index.html)

Þá er nokkuð ljóst að lendi BNA í vandræðum með Kína þá er ekkert víst að bandamenn vilji eða geti komið til hjálpar, ef þess þyrfti. Lítum bara til Tævans, hvað gerist ef sú eyja lýsir yfir sjálfstæði? Kína hefur sagt að það muni gera innrás, og BNA hafa sagst ætla að verja landið.

Stjórnvöld í BNA hafa miklar áhyggjur af hervæðingu kínverja og þeirri nútímavæðingu sem á sér stað innan kínverska hersins. Nú er svo komið að menn vita ekki hvort BNA geti í raun haldið aftur kínverjum ákveði þeir að hertaka Tævan. Sérstaklega ekki þegar bandaríski herinn er úrvinda eftir íraksstríðið.


SAMKEPPNIN UM OLÍUNA

En nú vaknar upp ein spurning, varðandi olíuna. Þeir sem hafa ekki tekið eftir því þá hefur myndast gríðarleg samkeppni um olíu, og í kjölfarið hefur verð á olíu hækkað gríðarlega. Iðnbyltingin í Kína er byrjuð að soga til sín mikið af olíunni, og eftirspurn eftir olíu í Kína eykst með hverjum degi. Því hefur myndast nokkurskonar togstreita um olíuna, lífsblóð iðnríkjanna. Bandaríkjamenn hafa nú tryggt sér, nokkurnveginn, aðgang að risastórum olíulindum í Írak. Mætti segja að þessi áratugur muni einkennast af kapphlaupi um aðgengi að olíunni, þar sem Kína og BNA keppast, og Evrópubúar einhversstaðar þarna á milli.
Eitt er víst, ef kínverjar hyggjast eignast bifreiðar í sama hlutfalli og mörg vestræn ríki þá munu olíubirgðir heims duga skammt. Þótt margir bendi á að það sé til nóg af olíu, þá verður eftirspurnin svo mikil að það verður ekki hægt að sinna henni, því það þarf að dæla olíunni upp og hreinsa hana. Þar er flöskuhálsinn. Því er tímaspursmál hvenær olían verður orðin efnahagslegur dragbítur á mörg ríki heimsins og ekki raunhæfur kostur sem orka.


YFIRVOFANDI EFNAHAGSHRUN

Hvað þarf að gera til að vera á undan flóðinu? Nú er ljóst að flestöll iðnaðarstörf í heiminum eru að flytjast til Kína, eða annarra ríkja þar sem laun eru lág. Atvinnuleysi hefur aukist mikið undanfarin ár, og ekki líður sá mánuður að stór fyrirtæki ákveði að flytja framleiðslu sína til Kína. Störfin tapast og atvinnuleysi eykst. Þarna er stór og hættuleg efnahagssprengja byrjuð að tikka. Eftir því sem fleiri störf tapast á vesturlöndum vegna iðnbyltingarinnar í Kína, því færri hafa efni á að kaupa vörur sem framleiddar eru í Kína, því mun á einhverjum tímapunkti neysla vesturlandsbúa á innfluttum vörum frá Kína taka stóra dýfu.
En það verða ekki einungis vesturlandabúar sem munu finna fyrir atvinnuleysi, heldur einnig kínverjar. Þegar eftirspurnin mun taka dýfu, þá byrjar fólk að missa vinnuna einnig í Kína og svo mun taka mikil efnahagslægð. Það mun hafa bein áhrif aftur á BNA, samkv. tilvitnun frá Vísir.is; “Það er skrítin hringrás sem er í gangi. Kínverjar selja varning til Bandaríkjanna og fá borgað í dollurum sem eru síðan notaðir til að fjármagna bandaríska viðskiptahallann með stórfelldum skuldabréfakaupum.” (http://www.visir.is/?PageID=539&NewsID=42235)
Þegar kínverjar hætta að kaupa skuldabréf þá munu BNA lenda í hremmingum, ásamt Kína. Því er ljóst að í uppsiglingu er atburðarrás sem mun leiða af sér eina mestu kreppu sem heimurinn hefur lent í.


LÝÐRÆÐIÐ OG SÍÐARI HLUTI IÐNBYLTINGAR

Svo er annar óvissuþáttur í dæminu, lýðræðið. Hvað gerist þegar kínverjar munu umbylta kerfinu hjá sér og taka upp lýðræði. Margir segja að lýðræðið komi með tímanum, og að kommúnismanum verði skipt út fyrir lýðræði smátt og smátt. Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá munu kröfur einstaklinganna aukast, sérstaklega í tengslum við iðnbyltingu. Það hefur gerst í öllum iðnríkjunum. Verkalýðsfélög eru stofnuð og kröfur og betri aðbúnað og kjör verða háværari.
Þau alþjóðafyrirtæki sem hafa flutt framleiðslu sína til Kína munu lenda illa í því. Það mun verða sífellt dýrara að framleiða vörur og það mun koma að því að það gæti verið hagstætt að flytja framleiðsluna aftur heim, þar sem hún var upprunalega. Auðvitað mun þetta ferli taka mörg ár, áratugi.

Það sem ég velti fyrir mér er að þekkingin til að framleiða mun hverfa í þessum fyrrverandi iðnríkjum, eða vilji fólksins til að vinna við iðnaðarframleiðslu.

Ég verð hissa á því að sjá forseta Íslands lýsa yfir ánægju með að geta fengið láglaunafólk í Kína til að vinna í íslenskum verksmiðjum. Hann sagði að það væri best að taka þátt í þessari umbyltingu.



FRAMTÍÐ ÍSLANDS

Stundum finnst mér sem þjóðfélagsumræðan á Íslandi sé barnaháttur, við hugsum of mikið um núið, smámál sem skipta litlu máli, en ekki framtíðina.
Íslendingar eru nú á þeim tímamótum að geta valið sér framtíð, við erum vel stæð og vel menntuð þjóð sem hefur alla burði til að gera stórar breytingar í sínum högum. En hvað geta íslendingar gert til að tryggja stöðu sína þegar stormurinn skellur á?

- Auka menntun. Setja það markmið að allir íslendingar fái háskólamenntun, einfalda skólakerfið t.d. með því að stytta grunnmenntun (grunnskóla, framhaldsskóla) og lengja háskóla- og framhaldsmenntun, s.s útskrift úr framhaldsskóla um 18 ára, og útskrift úr háskóla um 21 árs, og bjóða svo upp á frekara nám eins og meistaranám. Ljóst er að við getum ekki keppt um láglaunastörf, því þarf fólk að vera vel menntað svo það getur komist í “hátæknistörf” eða “hámenntunarstörf” einsog ég vil frekar kalla það.

- Losa sig við olíuna. Íslendingar búa yfir gríðarlegri orku, og ég nánast græt á hverjum degi að hugsa til þess að við flytjum inn orku til að keyra bílana okkar og drífa skipin áfram, í stað þess að nýta náttúrulegar orkulindir okkar fyrir brot af þeirri upphæð sem olían kostar og MUN kosta. Þetta væri eins og að við myndum flytja inn allt okkar vatn, á meðan gríðarlegar vatnslindir liggja í jörðinni og við bara “nennum” ekki að nýta það.
Íslendingar þurfa að setja sér það markmið að á næstu 15-20 árum verði innan við fjórðungur bílaflotans bensínknúinn, við þurfum byltingu líkt og þegar ákveðið var að leggja rafmagn í hús, og heitt vatn. Ekki nóg að dásama orkuna okkar, við þurfum að nýta hana, tæknin er nú þegar til staðar.

- Náttúruvernd, náttúruvernd, náttúruvernd. Nú er svo komið að stór hluti af jarðskorpunni er þakinn verklagi mannsins, og fólk kemst hvergi nema að sjá mannvirki og fleiri mannvirki. Að geta boðið upp á hreina ósnerta náttúru þá getum við fjölgað ferðamönnum MARGFALT. En við þurfum að fara varlega í að fórna landinu fyrir virkjanir sem knýja þessi blessuðu álver. Það þarf að búa til einhverskonar friðarsáttmála við þjóðina, hvað má virkja og hvað má ekki virkja.

- Skipulag. Íslendingar eru einir mestu skipulagshlussar heimsins. Það þarf að stöðva úthverfaþenslu höfuðborgarsvæðinsins, þétta byggð, og annaðhvort sameina sveitarfélögin eða a.m.k. sameina skipulagsmál sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu undir eina stjórn.


Vonandi vekur þetta upp ýmsar spurningar, takk fyrir lesturinn.