Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er EKKI að hvetja fólk til þess að byrja að reykja, eða að tala um reykingar sem jákvæðan hlut. Aðeins fjalla um hversu ósanngjörn stefna núverandi stjórnvalda er.

Nú hefur það í gegnum tíðina verið stefna stjórnvalda að vernda fólk gegn ýmsum hlutum með neyslustýringu, og er þá mest áberandi skattlagning á sígarettur og áfengi. Og hefur það verið notað sem rök að það sé fólki fyrir bestu að nota vörurnar hóflega (eða ekki neitt) og að það eigi að nota peningana til þess að bæta upp það tjón sem vörurnar valda á samfélaginu, t.d. á heilbrigðiskerfinu. Ég er almennt á móti því að stjórnvöld séu að skipta sér af neyslu fólks, hvað þá að hækka verð á vörum til þess að minnka neyslu þeirra. Þetta er ósanngjarnt kerfi sérstaklega þar sem það er verið að refsa persónu A) fyrir “óholla neyslu” að mati stjórnvalda á meðan persóna B) sleppur, þó að neysla hennar geti verið jafn skaðleg eða jafnvel skaðlegri. Ég get ekki séð þetta á neinn annan hátt en misrétti.

Ríkiskassinn.is: “Sumir skattar eru lagðir á í þeim tilgangi að hafa áhrif á það hversu mikið er notað af tiltekinni vöru. Umfangsmesta skattlagning af þessu tagi í íslensku samfélagi er skattlagning á áfengi og tóbak. Skattur á áfengi er 58-71 kr á hvern cl. af hreinum vínanda, mismunandi eftir því hvers konar vöru er um að ræða en það þýðir að áfengisskattur á hverja ½ lítra bjórdós er um 66 krónur. Gjaldið á tóbak er 228 krónur á hvern sígarettupakka.”

Landlaeknir.is: “Offita er, ásamt tóbaksreykingum, sennilega eitt alvarlegusta heilbrigðisvandamál sem við blasir.”

Mbl.is: “Sjúkdómar sem raktir eru til ofþyngdar auka sífellt kostnað við heilbrigðiskerfi vestrænna ríkja, að því er fram kemur í frétt danska blaðsins Politiken. Þar segir að sjúkdómar sem orsakast af ofþyngd reynist heilbrigðiskerfum ríkjanna jafndýrir og samanlagður kostnaður vegna sjúkdómar sem hljótast af ofneyslu áfengis, reykingum og elli.”


Nú veit ég ekki betur en að það sé hægt að fara á skyndibitastaði/sjoppur og aðra staði sem bjóða upp á mjög óhollt fæði og borðað þar eins og manni sýnist án þess að það sé verið að rukka aukaskatt fyrir. Síðan kostar líka morðfjár að fara í líkamsrækt hér á landi, á meðan fleiri og fleiri hraka í heilsu vegna óholls fæðis og minnkandi hreyfingu. Af hverju er ekki “sektað” fitubollurnar alveg eins og þá sem kjósa að reykja ? Þær eru ekkert síður að valda álagi á heilbrigðiskerfinu. Og hvað ef það verður gert ? Margir hafa spáð því að þetta verði næsta skrefið í “forvarnarstarfi” stjórnvalda. Frelsi einstaklingsins fer minnkandi og rökin eru að það er okkur fyrir bestu að fara eftir því sem stjórnvöld telja að hverju sinni vera hollt.

Ímyndum okkur í smá stund hvernig hin ýmsu verð myndu hækka ef það yrði tekið 40% skatt af óhollu fæði eins og gert er við sígaretturnar…

Stór pizza hjá Dominos: 2.150 Kr. - Eftir forvarnarhækkun: 3.010 Kr.

Ostborgari með frönskum og Coke á American Style: 895 Kr. - Eftir forvarnarhækkun: 1.253 Kr.

Fjölskyldupakki fyrir 6 hjá KFC: 3.699 Kr. - Eftir forvarnarhækkun: 5.179 Kr


Nú þekki ég marga sem hafa reykt sígarettur í mörg ár, alveg frá því pakkinn var helmingi ódýrari en hann er í dag. Og eru flest þeirra að reykja pakka á dag alveg eins og fyrir mörgum árum síðan, hækkandi verð hefur ekki minnkað reykingar þeirra. En þetta dýra verð vegur mikið þegar kemur að fjármálunum, sérstaklega fyrir þá sem að eru á lágum launum. Sá sem reykir pakka á dag er að eyða ca. 16.000 krónum á mánuði, ef við myndum taka burt “forvarnarskattinn” þá yrði það ca. 9600 Kr. á mánuði. Það munar mjög miklu fyrir þá sem eru á lágmarkslaunum að hafa rúmar 6000 Kr. meira á milli handanna í hverjum mánuði. Ég tel ekki vera sanngjarnt að taka meiri skatt af “óhöllum” vörum sem stjórnvöld velja af því að það er ekki í samræmi við þá hugmynd að hafa persónulegt frelsi, og velja og hafna sjálfur eftir því sem maður telur vera best fyrir sjálfan sig. Og eins og ég sagði áður, það er ekki sanngjarnt að refsa persónu A) á meðan B) sleppur með sína óhollustu. Viljum við búa í frjálsu samfélagi eða viljum við búa í samfélagi þar sem stjórnvöld eru með fingurna í öllu sem við gerum í okkar einkalífi ?

Ég er samt alls ekki að segja að ég styð það að fólk séu að borða, drekka eða reykja sig til dauða. Ég tel forvarnarfræðslu vera af hinu góða og tel það vera gott mál ef að fólk nær að forðast óheilsusamlega hluti sem mest. En enginn annar en við sjálf ber ábyrgð á okkar eigin heilsu. Ef einhver kýs að lifa óheilbrigðu lífi þá getur sá kennt sjálfum sér um ef það bitnar á honum seinna. Hvenær varð það hlutverk stjórnvalda að vernda fólk frá óhollustu ? Og hver ákvað að það væri rétt ? Það er eins og það hafi smátt og smátt orðið normið að samþykkja lög sem að hafa “góð” áhrif, þó að þau skeri frelsi fólks. Í nafni þess að það sé þeim hollt. Við erum á hættumörkum ef þetta á að vera hugsunarháttur þjóðarinnar og alþingismanna, og getur það alvarlega skaðað persónufrelsið í framíðinni ef við stöðvum ekki núverandi þróun (meira en nú þegar). Þetta er í anda “Big brother” samfélags þar sem stjórnvöld fylgjast með þegnunum og stjórna þeim í þágu þess að fá “betra” samfélag. Það væri alveg hægt að minnka glæpi ef að stjórnvöld væru með myndavélar á öllum heimilum, almenningsstöðum og farartækjum. Einnig yrði sett tölvukubba í bíla til þess að koma í veg fyrir hraðakstur og önnur umferðarbrot. En er það þess virði að skera frelsið gróflega fyrir “betra samfélag” ? Kannski dálítið öfgadæmi en ég vona samt að þið fattið hvert ég er að fara.

Hvenær ætli það verði annars sett í lög að óhollt fæði eins og skyndibitamatur eða nammi megi ekki vera sýnilegt í verslunum ? Enginn hefði trúað því að þetta yrði svona með tóbak fyrir ekki svo mörgum árum síðan, svo verður auðvitað sett merkimiða á vörurnar með texta eins og “Offita drepur”. Þetta verður að veruleika fyrr en okkur grunar ef við sættum okkur við núverandi þróun. Sendum tölvupóst til alþingismanna og hvetjum þá til þess að hafa frelsi einstaklingsins í huga þegar kemur að því að samþykkja lög.

Með draum um sanngjarnara og frjálsara samfélag… Skuggi85.