Nú eru starfrækt um 13 ráðuneyti á Íslandi og öll misstór. En nú 17. júní kynnti forsætisráðherrann hugmyndir um að fækka ráðuneytum allverulega, og hafa heyrst hugmyndir að fækka þeim alveg niður í 5-6 talsins. Enda nokkuð fáránlegt fyrir svo smáa þjóða hafa svona mörg ráðuneyti.
Ég hef lengi gagnrýnt allt rekstrarbálknið í kring um hið opinbera. Alltof mörg ráðuneyti, hvert einasta í sinni eigin byggingu, og allnokkur fjarlægð alltaf á milli ráðuneyta, svo hefur hvert ráðuneyti sinn grunnstarfshóp, skrifstofufólk, akstur á milli ráðuneyta, tölvufólk o.s.frv.
Því hef ég spurt sjálfan mig; Af hverju er ekki hægt að reka íslenska ríkið eins og um fyrirtæki sé að ræða? Það hljóta allir að sjá hvað er mikil óhagræðing að halda þessu í núverandi fyrirkomulagi. Ekkert fyrirtæki myndi skipta deildum sínum niður í mismunandi byggingar út um allt höfuðborgarsvæði, og hver deild væri með sína eigin tölvudeild.
Íslenska ríkið er fyrir almenning, það á ekkert að vera meira en það þarf að vera, og með tilkomu betra vinnulags og upplýsingatækninnar er hægt að ná fram gríðarlegri hagræðingu í rekstri, og þar með spara almenningi gríðarlegar upphæðir á hverju ári.
Ég hef þá hugmynd að sameina öll ráðuneytin (þau 5-6 talsins sem verða eftir) á eitt svæði á höfuðborgarsvæðinu, þar sem hægt verður að sækja alla þá þjónustu sem íslenska ríkið býður upp á. Hví má ekki byggja eina byggingu fyrir öll ráðuneytin, þar sem hægt væri að sameina verklag, tölvukerfi, mötuneyti og hvaðeina sem nútíma fyrirtæki myndi vilja gera.
Reyndar myndu margir benda á að ein bygging væri nokkuð slæm hugmynd þar sem ef eldur myndir kveikna þá myndi allt ríkið brenna. Hægt væri að leysa það með einfaldri hugmyndasamkeppni um að byggja nokkrar aðskildar byggingar í sama stíl sem væru samtengdar.
Ég er nokkuð viss um að allar byggingar undir ráðuneytin í dag yrðu seldar, þá væri vel hægt að framkvæma þessa hugmynd fyrir HAGNAÐ!