Góðan dag. Ég vil byrja á að óska konum til hamingju með daginn í dag (19/6). Það er mikilvægt að jafnrétti kynjanna verði algjört. En, ég hef ýmsar spurningar í sambandi við jafnréttisbaráttu kvenna, sem mér finnst hafa tekið á sig heimskulega mynd.
Í fyrsta lagi, þá virðist jafnréttisbaráttan einkennast af því að konur fái sömu laun og karlar, sem er að mínu mati sjálfsagður hlutur, því að þeir sem sinna sömu vinnu jafn lengi og hafa jafn mikla menntun eiga að sjálfsögðu að hafa sömu laun. En framsetning auglýsinga og baráttuslagorða lætur það hins vegar líta út að peningar séu allt sem skiptir máli.
Í öðru lagi, þá virðist það vera svo að konur sem tala um jafnrétti hér og þar, séu alltaf að tala um að það séu svo og svo fáar konur í stjórnunarstöðum og því þurfi að breyta. Það er rétt, en, ég segi á móti, afhverju eiga konur allt í einu að fara að stjórna stórum fyrirtækjum án þess að hafa nokkurntíma unnið hjá því á annan hátt? T.d var kvartað yfir því þegar byrjað vara að vinna við gerð Kárahnjúkavirkjunnar hve fáar konur væru við stjórn hjá Impregilo og undirverktökum þeirra. Enginn minntist hins vegar á hve fáar konur væru hangandi á stillans í skítakulda með hjálm á haus og brothamar í hönd eða naglhreinsandi mótatimbur fram á rauða nótt. Er það eina jafnréttið að konur fái stjórnunarstörf? Er það ekki jafnrétti að konur fari í skítagalla og klöngrist með okkur verkamönnunum upp á steypumótum með dælustút? Er það ekki jafnrétti að konur fari með trésmiðum upp á þak að járna? Er hið eina hugsanlega jafnrétti að konur fái að stjórna en þurfi ekki að taka þátt í meðalmennskunni? Hve margar konur hafa verið að vinna við járnabindingar? Þetta er orðið asnalegt. Þetta er ekki jafnrétti. Hugsið út fyrir “boxið”. Það geta ekki allir stjórnað, einhverjum verður að vera stjórnað…..
Góðar stundir…