Ég hef enn ekki rekist á nein einustu góð rök gegn vændi. Ég veit ekki um neinn stað í heiminum þar sem þetta er vandamál.
Á meðan þetta er ólöglegt, aftur á móti, er oft ruglast á þessu sem afleiðingu og orsök ofbeldis, fíkniefnaneyslu og annarra glæpa.
Að banna vændi sé ég heldur ekki hvernig í ósköpunum á að leysa einhver vandamál. Íslendingar virðast haldnir þeir fyrru að Íslendingar almennt haldi sig í takt við lögin, sem er þvert á við raunveruleikann, einmitt vegna þess að lögin gera ráð fyrir svo stöðluðu líferni að það liggur við að það sé ólöglegt að freta á almannafæri.
Jú, vissulega eru konur neyddar til vændis. Vissulega fara margar konur í í vændið til að sjá fyrir fíkniefnaneyslu sinni. En bíddu… með því að banna þetta, heldurðu að þú losnir við vændið? Hvarflar það virkilega að þér? En kannski enn fremur; Heldurðu virkilega að þú losnir við fíkniefnavandamál viðkomandi? Ég held það hljóti að teljast jafn skýrt sem dagurinn að ólögmæti vændis er ekki að stoppa neinn sem þarf að stunda vændi til þess að eiga fyrir mat eða fíkniefnum. Reyndar ætti lögleiðing þess frekar að leiða til þess að viðkomandi finni sér starfsgrein sem viðkomandi getur þénað mannsæmandi pening á, og er viðkomandi þar af leiðandi í betri stöðu til að losa sig við hvaða þau vandamál sem leiddu viðkomandi út í vændi til að byrja með.
Sannleikurinn er sá að fullt af stelpum fara út í vændi vegna þess að þær sjá ekkert að því að gera eitthvað hollt og skemmtilegt gegn gjaldi.
Aftur á móti er tilfellið að á meðan þetta er ólöglegt, flokkast þetta sjaldan sem “hollt og gaman” vegna þess að þetta þarf að vera ólöglegt, og þá ertu að fá til þín menn sem vilja t.d. ekki nota smokka, menn sem kannski berja þig í hakk í leiðinni, menn sem neyða þig til að gera hluti sem þú vilt ekki. En þú *þarft* að gera þá, fyrir matinn, eða fyrir dópið. Í lögmætum vændisbransa eru þessi vandamál ekki fyrir hendi í næstum því jafn gríðarlegum mæli, eins og lönd sem Þýskaland og Holland. Ég veit ekki hvernig það er í Danmörku.
En ég meina… fólk fer að vinna hjá 10/11 vegna þess að það þarf að borða og það þarf stundum fíkniefni. Eigum við þá að takast á við alvöru vandamál, eða eigum við bara að banna fólki að vinna í 10/11?
Það að fólk sé neytt út í vændi er og á auðvitað að vera stórglæpur, hvort sem um er að ræða dansmeyjar, börn eða fullorðið fólk. *Það* er vandamálið, ekki vændið sjálft. Með því að hafa vændið löglegt getur fólk einmitt stundað þessa iðju án þess að þurfa að búast við því að ganga kaupum og sölu á milli melludólga, og því að kúnnarnir séu nánast undantekningalaust smokklausir, sem er auðvitað algerlega óviðsættanlegt undir kringumstæðum nútímans.
Einu sönnu rökin gegn vændi eru enn þann dag í dag; Siðferði. Og það sem menn og konur virðast ekki alveg skilja er að þetta er ákvörðun hvers og eins. Það að neyða fólk til þess að lúta þeirri kenningu að vændi sé endilega niðurlægjandi og yfirhöfuð slæmt, finnst mér nákvæmlega það sama og að neyða fólk til að lúta Kristinni trú.
Það kemur mér meira og meira á óvart hvað Íslendingar reynast þröngsýnir og hrópgjarnir.