Sæll django
Þú segir:
,,Sú skoðun virðist algeng hjá sumum að Biblían sé “skrifuð af Guði í gegnum menn” og að hún sé heilagur sannleikur. Ég þori að veðja að þeir sem trúa þessu hafa ekki hugmynd um það hvernig Biblían varð til.´´
Íslenska Biblían frá 1981 er byggð á Hebreska frumtexta Gamla testamentisins eða Torah trúarriti Gyðinganna, eða á þeirri Biblíu sem Frumkirkjan notaði. Og á Gríska frumtextanum á guðspjöllunum og bréfum postulanna. Hún er mjög lík King James Biblíunni, sem er álitin vera ein sú besta þýðing úr frumtextanum. Ritningum, sem segja okkur í fyrstalagi: Frá sköpununni. Frá syndarfallinu. Frá áætlun Guðs um frelsun mannsins. Frá Nóaflóðinu. Frá boðorðunum tíu og vilja Guðs með manninn. Frá spádómum um komu frelsarans Jesú Krists (komu Messíasar) og þar með nákvæmum lýsingum á verki hans og krossfestingu, eins og í 53 kafla Jesajabókar og 22 Davíðssálmi. Einnig frá frelsun Gyðinganna úr Egyptalandi og handleiðslu Guðs með þá og spádómar um þá sem margir hafa ræst og eru að rætast. Páll postuli segir við kristnamenn; að Gamla testamentið og saga Gyðinganna sé ritða þeim til viðvörunar.
Í öðrulagi: Guðspjöllin, sem segja okkur frá Jesú og verkum hans. Fjallræðunni. Vali hans á postulunum. Pínu hans, krossfestingu, dauða, för til heljar, upprisu og himnaför. Og að hann muni koma aftur til þess að sækja þá trúuðu og dæma lifendur og dauða.
Og í þriðja lagi: Bréf postulanna sem staðfesta þetta tvennt. Þar sem þeir boða fagnaðarerindið um Jesú Krist og kenna mönnum að lifa samkvæmt vilja Guðs með stöðulegum tilvitnunum í Ritningarnar. T.d. segir Páll postuli við Tímóteus:
,,Til þess að þú skulir vita, ef mér seinkar, hvernig á að haga sér í Guðs húsi, sem er söfnuður lifanda Guðs, stólpi og grundvöllur sannleikans. Því sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti,´´ Síðan segir hann við Korintumenn: ,,Lærið regluna, farið ekki lengra en ritað er. ´´ Svona má endalaust telja upp hjá Páli og postulunum.
Þú talar um mismunandi Biblíur og að ein segir þetta og hin hitt. Þú talar um 7 mismunandi útgáfur. En málið er, ef rauði þráður þeirra er það sem ég er búinn að telja upp . Um fagnaðarerindið í ljósi Gamla og Nýja testamentisins. Þá bera þær líka sannleikann. Þótt ýmislegt skorti, eða öðru hafi verið bætt við. Ef það er ekki þá hrein villa. T.d. finnst mér, eftir að hafa lesið APOKRÝFAR BÆKURNAR að þær ættu að vera í Íslensku Biblíunnni. Þetta eru 11 bækur sem falla alveg inn í boðskap Biblíunnar. Því þær eru bara góð viðbót við hin svokölluðu spámannsrit. Þá yrði Biblían 77 bækur í stað 66 bóka, en það myndi samt ekki breyta boðskap hennar.
Þú talar um kirkjufeðurna og að þeir hafi ekki ákvarðað fyrr en um 400 e.Kr.hvaða rit ættu að vera í Biblíunni. Og þú segir svo:
,,Þetta er eins og að ef Jesús hefði verið uppi um 1800 yrði Biblían ekki tilbúin fyrr en um 2200!´´
En minn kæri. Þessi rit voru löngu til. Og eins og áður hefur komið fram. Þá var Gamla testamentið Biblía Frumkirkjunnar og bréf postulanna flest til um 60 e.Kr. Það er bara Opinberunarbókin, sem sögð er skrifuð um 90 e.Kr.
Og þú spyrð enn: ,,Fyrst að Biblían er “skrifuð af Guði gegnum menn”, voru þeir sem settu Biblíuna saman (þ.e. ákváðu hvaða rit ættu að vera með) ekki líka innblásnir af heilögum anda? Ef kirkjufeðurnir hefðu haft rangt fyrir sér, væri Biblían þá ekki villutrúarrit? Og fyrst kirkjufeðurnir voru innblásnir af heilögum anda, á þá ekki að lesa Biblíuna í þeirra skilningi?´´
Fyrsta vísbending þess að þessir að hinir svo kölluðu Kirkjufeður gátu ekki komið sér saman um það, hvaða rit ættu að vera í Biblíunni, fyrr en eftir dúk og disk, var að þeir voru ekki fylltir heilögum anda og það er aðal ástæðan fyrir því í dag, að menn eru með margar og misþykkar Biblíur. Enda segir sagan að eftir að postularnir og þeir sem höfðu séð og gengu með Jesú voru látnir, Þá kom fljótt mikil hnignun í Frumkirkjuna, sem endaði síðan með nafnkristni og miðaldamyrkri. Ofsóknum. Að ég tali nú ekki um, auðsöfnum kirkjunnar. Og ef maður les sögu kristninnar, þá er hún þessi.
Þú talar um túlkun kirkjufeðranna á ritningunum og segir:
,,Túlkunarviðleitni kirkjufeðrana var í stuttu máli sagt á þessa leið: Origenes frá Alexandríu leit t.d. á ritningarnar eins og manneskju, þ.e.a.s. þótt útlit hennar sé ljótt er það sem undir býr undurfagurt. Þannig getur æðri merking textans verið góð þótt bókstaleg merking hans sé ljót. Þeir álitu að ritningarnar hefðu æðri merkingar sem aðeins þeir sem réttan skilning höfðu á kristinni trú gætu komið auga á. Byrjendur og trúnemar lásu bókstaflega merkingu textans, lengra komnir litu á hina siðferðislegu merkingu og þeir sem leituðust við að ná fullkomnun leituðu að andlegri merkingu textans. Kirkjufeðurnir áttuðu sig ennfremur á því að kaflinn um sköpun heimsins (sem er í ljóðaformi) er einungis skraut yfir þann sannleika að Guð hafi grundvallað og skapað heiminn.´´
Bæði Gamla og Nýja testamentin eru uppfull af því, að það beri ekki að túlka Biblíuna með siðferðislegri og/eða andlegri merkingu, heldur að fara ekki lengra en ritað er. Móse sagði:
,, Þér skuluð engu auka við þau boðorð, sem ég legg fyrir yður, né heldur draga nokkuð frá, svo að þér varðveitið skipanir Drottins Guðs yðar, sem ég legg fyrir yður.´´ Jesús sagði:
,,Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram.´´ Og í Opinberunarbókinni segir Jesús:
,,Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók. Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók.´´ Og Pétur postuli sagði:
,,Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.´´ Og áður var ég búinn að benda á að Páll postuli hvatti menn til þess að fara ekki lengra en ritað er, því ritningin væri öll innblásin af Guði.
Þú segir að grein mín ,,Ég trúi á Guð´´ sé dæmigerð fyrir vestræna bókstafstrú. Þar segi menn: ,,Trúðu á Biblíuna´´ en taki svo ekki mark á Páli postula sem sagði: ,,Bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar.´´
Höfum við ekki verið að fara yfir það, að Páll sagði, að við ættum að heiðra bókstafinn; ,,Farið ekki lengra en ritað er.´´ Hann sagði meira en það, því hann sagði: ,,En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum.´´ Hér er hann að tala um fagnaðarerindið, og að það sé um það talað í lögmálinu og hjá spámönnunum. Þannig hlýtur þessi meining hans að bókstafurinn deyði, að hafa aðra merkingu en þá, að menn eigi að varast orð Bíblíunnar.En það sem Páll er að tala um er, að það sem þurfi að gerast með fagnaðarerindinu, að lögmálið, orðið allt, eigi að færast inn á hjartaspjöldin, af steinspjöldunum. Því þar muni heilagur andi, því það er verk hans, hjálpa okkur að skilja hið rtaða orð. Samanber orð Esekíel er hann fékk frá Drottni um verk andans: ,,Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setningar mínar og breytið eftir þeim.´´ Jesús sagði líka; að heilagur andi sannfærði um synd. Og samkvæmt Biblíunni er syndin lögmálsbrot..
Þú segir svo: ,, Menn finna ekki Guð í bók! Guð er innra með ykkur! Ef Guð myndi fela sig í bók myndi hann a.m.k. hafa Biblíuna alls staðar eins, ekki mismunandi útgáfur eftir því hvar maður er í heiminum.´´
En bíddu nú við. Hvers vegna var fagnaðarerindið um Jesú opinberað okkur? Var það ekki vegna þess að það var opinberað okkur úr Biblíunnni? Sem dæmi sagði Jesús, að menn fengju ekki þekkt hann nema af ritningunum. Hann sagði:
,,Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað. Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?´´ Hann áminnti líka lærisveinana fyrir það að vera tregir til að trúa ritningunum og sagði:
,,Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað! Á ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína? Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.´´ Og seinna sagði hann :
,,Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum. Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar. Og hann sagði við þá:
,,Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi, og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem.´´
Hvað er Jesús að segja hér, annað en það, að opinberun um Guð, Jesú og fagnaðarerindið, sé að finna í bókum Gamla testamentisins eða Torah. Biblíu Frumkirkjunnar. Og eftir því eigi að boða fagnaðarerindið.
Þú heldur áfram og fullyrðir:
,,Þeir sem halda að það, hvernig Guð skapaði heiminn, komi kristinni trú eitthvað við hafa einfaldlega engan skilning á kristinni trú. Hvað kemur það annars kristi við hvort Guð skapaði manninn á augabragði úr leir jarðar eða hvort hann þróaði hann á löngum tíma? Ef við viðurkennum þróunarkenninguna, þurfum við þá að afneita kristi? Sjálfur sagði Kristur ekkert um sköpun heimsins.´´
Í fyrstalagi. Þá höfum við verið að fara yfir það að Jesús var aftur og aftur, að staðfesta MÓSEBÆKURNAR OG SPÁMENNINA. Því er fullyrðing þín um það, að Jesú hafi ekkert sagt um sköpunarsöguna, ekki á rökum reist. Því hann sagði líka: ,,Hafið þér eigi lesið (sköpunarsöguna), að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu (ekki þróun) og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður´´
Og rétt í lokin. Þú segir að menn hafi skáldað upp helvíti, og að þeir sem það hafi gjört séu búnir að týna trúnni á Jesú Krist sem boðaði: ,,Guð er kærleikur.´´ En Jesús boðaði líka helvíti og talaði nokkru sinnum um það. Meðal annars sagði hann: ,,Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.´´
En nú er mál að linni. Þó ég gæti haldið endalaust áfram. Enda verðum við sennilega aldrei sammála. Því set ég punktinn hér.
Í vinsemd
kveðja,
hafeng.
Jesús lifir í ritningunum!