Í gærkvöldi settist ég fyrir framan viðtækið og ætlaði að reyna að finna mér eitthvað vert til að horfa á en um leið og ég kveiki á RÚV sé ég: “Bein útsending” og myndavélinni er beint upp til himins.
“Bobby Fischer er að fara að lenda.” heyrðist í fréttamanni.
-Ég hata sjónvarp, sagði ég og skipti yfir á stöð 2.
Bein útsending, myndavélinni beint upp í loft og þulur að segja að þetta sé mikil ljósadýrð á flugvélinni.
-Ég virkilega hata sjónvarp.
Þökk sé því að Skjár1 næst ekki hjá mér og ég horfi ekki það mikið á sjónvarp að ég nenni að hafa 25 rásir þá var ég fastur við þetta.
-Hversu slæmt getur þetta orðið ? hugsaði ég með mér og bjóst við slæmu, sem var ekki raunin. Þetta var verra.
Skal lýsa þessu í nokkrum atriðum:
RÚV og Stöð 2 voru í keppni með að koma sem flest gagnslaus einnar-línu komment til að lýsa því hvað væri að gerast. Ég stundaði því smá power-flakk og skipti í sífellu milli stöðva og hélt tók saman score um hvor stöðin kæmi með fleirri heimskuleg comment.
Ég hélt að RÚV myndi vinna með línum eins og:
“Það má segja að þessi lending hafi verið svokölluð skák og mát” eða
“Þetta er sannkölluð ljósadýrð” og fór að lýsa ljósunum sem eru á flugvél.
En þá svaraði Stöð 2 fyrir sig með
“HEYRÐU! ERTU HÆGRA MEGINN Í VÉLINNI? NENNIRU AÐ VINKA OKKUR?!” bjóst þessvegna við að fréttamaðurinn sem var staddur inni í vélinni myndi koma með skilti sem á stæði “HÆ MAMMA!”
Staðan var 23-20 fyrir RÚV þegar ég skipti yfir á Stöð2 í síðasta sinn og sá þar að reyna var að hafa staðreyndarblöðru neðst á skjánnum, sem átti að koma með staðreyndir af þessari flugferð.
“FARANGURINN ERU 10 PAPPAKASSAR”
Fyrir þetta gaf ég stöð2 30 stig.
Til hamingju með sigurinn Stöð2. Áttuð þennan sigur svo innilega skilið þrátt fyrir að RÚV hafi gefið ykkur mikla baráttu.
Vona að það verði ekki háð önnur svona keppni.
Svo ætlaði allt um koll að keyra þegar Stöð2 fréttamaðurinn gerðu aðsúg að Bobby í von um að fá einhver orð frá þessum manni og ég verð að viðurkenna að ég var hálf vonsvikinn að fá ekki að heyra fræg orð Helga Helgasonar við Ringo Starr: “HOW DO YOU LIKE ICELAND?” þegar hann var ekki einusinni búinn að labba hálfan metra á íslenskri grundu. En eins og við var að búast var hann þreyttur enda búinn að fljúga stanslaust í rétt rúman sólahring.
-Fréttamenn, gátuði ekki beðið með að áreita hann? SKAMMIST YKKAR! Þið gerðuð bæði lítið úr ykkur og íslensku þjóðinni með þessum asnalegheitum. Hann var örþrettur, búinn að segja að hann gæti ekki gefið viðtal og þið farið SAMT að áreita hann með heimskulegum spurningum! SKAMM!
Það sem mér fannst sárt við þetta var að ekki bara ein, heldur 2 sjónvarpsstöðvar tóku sér tíma til að koma með beina útsendingu frá þessu.
Mér fannst fáranlegt að bein útsending væri þegar hinn fiskurinn lenti í Vestmannaeyjum en það var um miðjan dag á virkum degi þegar allir voru í skólanum eða vinnunni og engin dagskrá í gangi.
Það hefði verið nægilegt að heyra bara : “Bobby lenti klukkan 11 í gærkvöldi” í morgunútvarpinu daginn eftir, lesa kannski um þetta á mbl.is samdægurs eða í morgunblaðinu / fréttablaðinu eftir viku þessvegna. Ég hefði frekar viljað fá gott og ítarlegt viðtal við hann á blaðsíðu 14-15 í Morgunblaðinu þar sem hann væri úthvíldur og búinn að gera upp hug sinn um framtíð sína hérna á Íslandi að rabba við einhvern blaðamann á Gráa kettinum.
Veit ekki afhverju ég er að taka þetta nærri mér. Kannski því að ég vill ekki að íslenskt sjónvarp sökkvi niður á það plan sem Amerískt sjónvarp er staðlað við. Margir hugsa ábyggilega núna afhverju ég hafi ekki bara staðið upp og slökkt á sjónvarpinu ef mér hafi fundist þetta asnalegt. Þetta er eins og að segja “Hættu að hugsa um Tsunami flóðbylgjuna ef þér finnst hún sorgleg, meina hún tengist þér ekkert.” Maður gerir ekki alltaf bara það sem manni finnst skemmtilegt, stundum verður maður að horfa á lélegan fréttfluttning og gagnrýna hann í von um að hann eigi sér einhverja viðreisnar von því að ég vona innilega að ekki sé hægt að sökkva dýpra en þetta.
Fréttamenn á Stöð2 aðallega, RÚV líka. Biðjið Bobby Fischer og íslensku þjóðina afsökunar. Þið fóruð illa að ráði ykkar og þið eigið skilið eina góða gagnrýni fyrir þetta. Ég hef aldrei skammast mín jafn mikið fyrir íslenskan fréttaflutning.
Bobby; velkominn til Íslands.