Trúir þú á guð?
95% af jarðarbúum trúir á einhvern æðri mátt. Fyrir hluta af þessum hópi er trúin þó lítið annað en almenn siðvenja, sem segir okkur hvað er rétt og hvað rangt, en fyrir aðra er trúin mikilvægasti þáttur lífsins. Allir sem tilheyra þessum hópi eiga það þó sameiginlegt að trúin veitir þeim útskýringar á því sem við skiljum ekki.<br><br>Í dag er kristin trú sú útbreiddasta í heimi, en heilir 2 milljarðar fylgja henni. Rétt á eftir koma múslímar, en 1.2 milljarðar manna fylgja íslam eða múhameðstrú. 800 milljónir fylgja hindúatrú, 360 milljónir búddatrú, 18 milljónir gyðingatrú og á eftir koma fleiri tugir þúsunda trúarbragða, m.a. ýmis kínversk trúarbrögð, Sikhismi, Jainismi, Vúdútrú og margar fleiri. (reyndar flokkast Búddatrúin og Jainismi undir trúlausa trú, því þær afneita tilveru guða).<br><br>Trúarbrögð hafa fylgt mannkyninu um alla tíð, enda benda fornleifagreftir til þess að Neanderdalsmaðurinn hafi fylgt ákveðnum helgisið við jarðsetningu þeirra látnu. Sálfræðingar hafa bent á að það sé eðli mannsins að trúa og hafa greint ákveðna heilastöð í hægra gagnaugablaðinu sem er sérstaklega virk hjá fólki sem trúir. Loks ber að benda á að trú manna er algjörlega einstakt fyrirbæri í dýraríkinu hér á jörðinni, en engin merki hafa fundist um trú á æðri mátt hjá öðrum lífverum en mönnum (ekki einu sinni hjá öðrum prímötum), en það má sennilega rekja til þróaðs miðtaugakerfis í mönnum.<br><br>Ef ég geri ráð fyrir því að Guð sé uppskáldaður, þá verður maður næst að spyrja: Hvaða mótíf eða ástæðu hafa menn fyrir því að skálda hann upp? Í stuttu máli: Ná völdum, veita svör og láta fólki liða vel, og er það ansi öflugt mótíf.<br><br>Ef við tökum kristna trú sem dæmi, hefur nú margt gerst á 2000 árum. Í dag vitum við til dæmis alveg að Guð skapaði ekki jörðina í orðsins fyllstu merkingu, heldur hnoðuðust saman efnisagnir sem gengu umhverfis sólina (sem var þá líka að myndast) fyrir 4600 milljónum árum síðan. Einnig vitum við að guð skapaði ekkert manninn, heldur hafa lífverur þróast á jörðinni við m.a. stökkbreytingu í erfðamengi í 3800 milljón ár, og hefur náttúran valið út hæfustu afbrigðin kynslóð fyrir kynslóð (þetta er þó alls ekki endanleg útskýring). En þetta var ómögulegt fyrir menn að vita fyrir 2000 árum síðan, þannig að þeir skálduðu upp Guð, sem veitti þeim m.a. útskýringar á því sem þeir skildu ekki. Hin ýmsu trúarbrögð hafa einnig veitt útskýringar á t.d. þrumum og eldingum, gang himintungla, eldgosum og frjósemi við landbúnað, en í dag nær þekking manna til flestra þessa þátta, en þó ekki allra. Í dag verðum við nefnilega að passa okkur að falla ekki í sömu gildru og forfeður okkar. Við verðum að sætta okkur við að ennþá getum við ekki útskýrt allt, en allt bendir til þess að innan tíðar munum við geta það.<br><i>(hér þarf þó að athuga að ekki er hægt að sanna kenningar, s.s. þróunarkenningu Darwins, jarðflekakenninguna, afstæðiskenninguna o.s.frv., heldur er aðeins hægt að <u>styðja þær</u> með vísindalegum rannsóknum, eða afsanna. Vandinn við að afsanna kenningar trúarbragða er að slíkar kenningar þarf að túlka, en hér verður ekki farið nánar í það, en hins vegar bent á t.d. bölsvandann).</i><br><br>Þrátt fyrir að vísindalegar rannsóknir virðast afsanna t.d. sköpunarsögu Biblíunnar (fer eftir því hvernig hún er túlkuð) á meðan engar rannsóknir styðja hana trúa ennþá lang flestir menn á einhvern æðri mátt. Hvað er það sem fær allt þetta fólk til að halda svona sterkt í þessa uppskálduðu guði sína? Óneitanlega veitir trúin fjölmörgum hamingju og vellíðan, hún hefur komið mörgum á rétta braut í lífinu, hún er notuð sem fallegur og jákvæður boðskapur við uppeldi barna (á kannski ekki við um öll trúarbrögð, en allavega þau útbreiddustu), hún veitir sumum von um betri tíma, hún hughreystir fólk sem hafa misst ástvini og hún fær okkur til að trúa að við séum ekki ein (að það sé einhver annar að passa upp á okkur). Þessi upptalning er alls ekki endanleg og hafa eflaust margir sínar eigin persónulegu ástæður fyrir því að trúa.<br><br>Í mínum huga er bara einn maður sem getur veitt mér hamingju og komið mér áfram í lífinu og sá maður heitir Atli Bjarnason. Í staðinn fyrir að trúa á einhvern uppskáldaðan æðri mátt sem á að gefa mér daglegt brauð, fyrirgefa mínar skuldir, halda mér frá freistni og frelsa frá illu ætla ég trúa á sjálfan mig, vinna fyrir mínum eigin mat, biðjast sjálfur fyrirgefningar, átta mig á afleiðingum gjörða minna og halda mér frá því sem mér líkar ekki.