Jæja, nú er búið að ákveða að fara í framkvæmdir við Héðinsfjarðargöng, og munu þau kosta um 7 milljarða.

Þessi göng munu einkum nýtast Siglfirðingum, og einnig Ólafsfirðingum þar sem þessi göng tengjast beint þessum bæjum.

Tæplega 1.500 manns búa á Siglufirði, sem þýðir að kostnaður við göngin er rúmlega 4,5 milljónir króna á haus. Reiknað er með að um 200-250 bílar fari um göngin á sólarhring.

Margir hafa velt þessu fyrir sér, t.d. hefur verið bent á að önnur brýnni og hagkvæmari verkefni væri hægt að fara í, t.d. Sundabrautin. Og einnig hefur bent á að um 10 sinnum fleiri bílar fari um Hvalfjarðargöngin, sem kostuðu rúmlega 4 milljarða, og að fólk þurfi að borga fyrir að fara í gegnum þau.

Reiknað er með því að Sundabrautin kosti um 3,5 milljarða, eða helmingi minna en Héðinsfjarðargöng eigi eftir að kosta, og eigi eftir að gagnast margfalt fleirum.



Persónulega set ég ákveðið spurningamerki við þessar framkvæmdir, sem eiga eftir að gagnast aðeins litlum fjölda landsbyggðamanna, á meðan mjög áríðandi framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, þar sem stærsti hluti landsmanna býr, eru settar á bið.

Er þetta ekki bara það sem höfuðborgarbúar hafa verið að halda fram síðustu árin, að ráðamenn hugsi aðallega um hag landsbyggðarinnar, því jú þar hafa atkvæðin mest vægi, og þessir landsbyggðarþingmenn sé nokkuð sama hvað gerist á höfuðborgarsvæðinu á meðan þeir fái atkvæðin sín frá þeim stöðum sem kjósa þá í embættin.