Þó nokkur umfjöllun hefur verið um háskólaumhverfið hér á íslandi, sérstaklega hvað varðar Háskólann í Reykjavík, en fjölmiðlar hafa verið duglegir að fjalla um framtíð hans, og hugsanlega framtíðarstaðsetningu, eftir samruna við Tækniháskóla Íslands.
Hefur þeim skóla nú verið boðið land í Vatnsmýrinni og einnig í Garðabæ. Eitt er víst, það vilja allir fá þennan öfluga Háskóla til sín.
Persónulega myndi ég vilja sjá Háskólann í Reykjavík í Vatnsmýrinni, það er frábær staðsetning. En eins og allt annað, hefur sú staðsetning marga kosti, en líka marga galla. En ég vil nú ekki fara að telja upp kostina og gallana hér, það væri hægt að diskútera í annari grein.
En ég hef verið að velta þessari staðsetningu fyrir mér, Vatnsmýrin, í samhengi við flugvöllinn og nærliggjandi stofnanir, s.s. Háskóla Íslands. Að vissu leyti er æðislegt að byggja upp “háskólaþorp/rannsóknarþorp/þekkingarþorp” í Vatnsmýrinni, en þá vaknar upp þessar spurningar; Hvað með Háskóla Íslands? Hvað með flugvöllinn?
Einhvernveginn hefur maður mikla drauma varðandi uppbyggingu á þessu “þorpi” í Vatnsmýrinni, en það eru alltaf þessir tveir hlutir sem skyggja á. Erfitt er að gera “þorp” þegar flugvöllurinn slítur allt í sundur, og þegar HÍ er fjársveltur, illa tækjum og húsum búinn, þá get ég ekki séð fyrir mér hvernig það eigi að takast að búa til þetta “þorp” sem alla stjórnmálamenn, og almenningur, dreymir um.
Það eru eins og allir “vilji” gera stóra og mikla hluti í Vatnsmýrinni, en það er enginn viljugur til að taka “stóru” ákvarðanirnar, varðandi flugvöllinn og Háskóla Íslands.
Hvaða sýn hef ég á þessu? Ég myndi vilja sjá flugvöllinn burt, og endurnýja húsnæði HÍ í Vatnsmýrinni. Háskólinn í Reykjavík getur auðvitað verið þarna, ásamt HÍ, og haft sína sérstöðu. Hægt væri að byggja íbúðarhúsnæði sem tæki tillit til þess fjölda nemenda sem myndu vera á þessu svæði, þá meina ég að hverfin yrðu hönnuð þannig að mikið væri af einstaklingsíbúðum, herbergjum og öðrum húsnæði sem væri hentugt fyrir háskólanema sem vilja vera hvað nálægast skólunum.
En hvað ef flugvöllurinn fer ekki, einsog nú virðist stefna í? Getur myndast þar háskólaþorp þar sem HR stendur nánast einn og sér við Nauthólsvíkina?
Svo er auðvitað spurning með gatnakerfið þarna í kring, HR myndi standa nokkuð úr alfaraleið svona langt inni í Vatnsmýrinni.
Þetta eru allt meiriháttar spurningar um skipulagsmál, og framtíðarsýn. Svo virðist sem vera að stjórnmálamenn vilja halda í núverandi skipulag á þessu svæði, en líka koma upp þessu þorpi, og líka hverfum. Nefnt hefur verið að þetta sé “millivegurinn”, en tilfinningin sem ég fæ er að verið sé að klúðra gríðarlega stóru tækifæri. Ég hefði viljað byggja heilsteypt hverfi þarna, sem væri í samræmi við allt annað í umhverfi sínu, en ekki skjóta inn litlum hverfabútum hér og þar í kringum flugvöllinn, og svo loks þegar flugvöllurinn fer löngu síðar, þá kemur eitthvað allt öðruvísi hverfi sem væri algjörlega úr samhengi við allt annað.
Eitt er víst, það vilja allir gera eitthvað stórkostlegt í Vatnsmýrinni, byggja nýtísku sjúkrahús, koma upp háskóla- og þekkingarþorpi, byggja upp öfluga viðbót við miðbæjarhverfið, stórbæta allt gatnakerfið þarna í kring, og annað. Ekki skortir af tækifærum, sem myndu vera til staðar ef flugvöllurinn færi.
Hvernig væri að stjórnmálamenn hætti þessum hálfkæringum og TAKI ÁKVÖRÐUN í þessu máli. Hvort sem það væri til þess að flugvöllurinn færi, eða ekki. Ef tekin yrði ákvörðun um að yrði þarna áfram, þá væri hægt að einblína á eitthvert annað svæði til að byggja upp, þó að Vatnsmýrin yrði alltaf besti staðurinn fyrir þessa framtíðarsýn.
Ábyrgðin og ákvörðunin er hjá stjórnmálamönnum, en almenningur getur þrýst á svo að þessi draumur verði að veruleika.