Svar til Ingólfs Harra:
Er betra að seðlabankanum sé fjarstýrt frá Brussel?
Öll lönd í hinum vestræna heimi hafa sjálfstæðan Seðlabanka, óháðan stjórnvöldum. Það gildir einnig um Evrópusambandið, þannig að ekki kæmi til þess að stjórnmálamenn í Brussel færu
með stjórn peningamála hér.
Þetta fyrirkomulag þykir henta betur í efnahagsstjórn -enda væru ekki ríki
að setja þetta fyrirkomulag upp ef það hentaði ekki. Stjórnmálamenn íslenskir
vilja ekki missa af bitlingunum sem falla til í Seðlabankanum og vilja hafa
fingurna í öllu sem þeir komast í. Þess vegna hafa þeir ekki sleppt höndunum
af stjórn Seðlabankans. Meirasegja menn sem alltaf hafa verið á móti Seðlabankanum, eins og Hannes Hólmsteinn eru komnir í Seðlabankaráð. Við upptöku evrunnar myndu áhrif stjórnmálamanna á peningastefnu minnka eða hverfa alveg. Því minni afskipti stjórnmálamanna af peningastefnu því betra. Svo að svarið hlýtur að vera já.
## Við getum fest gjaldmiðilinn okkar við fjölmarga gjaldmiðla. Þar hentar
Evran ekki best. Efnahagssveiflur meginlands Evrópu er ekki eins og okkar.
Við getum þessvegna tekið upp Dollarann ef við viljum það.
Ráðandi gjaldmiðlar í alþjóðaviðskiptum verða 3; evra, yen og dollar. Tenging við aðra gjaldmiðla kæmi aldrei til greina. En samkvæmt helstu hagfræðingum íslands er einhliða tenging krónunnar óraunhæf. Már Guðmundsson aðalhagfræðingur Seðlabankans segir t.a.m. að einhliða tenging krónunnar við evru myndi engu breyta, hún yrði strax rofin á gjaldeyrismörkuðum. Hann segir einnig að Suðaustur Asíulönd hafi tekið upp einhliða tengingu gagnvart bandaríkjadal á sínum tíma og að það hafi verið einn af þeim þáttum sem hafi stuðlað að fjármálakreppunni í þeim heimshluta fyrir nokkrum árum.
Þórður Friðjónsson forstjóri Þjóðhagsstofnunnar tekur í sama streng og segir að sé horft til margra ára sýnist honum að margt bendi til þess að það kunni að vera erfitt að halda íslensku krónunni sem sjálfstæðum gjaldmiðli.
Árangur að myntsamstarfi yrði þessi:
1. Stöðugra gengi
2. Auðveldari verðsamanburður
3. Minni viðskiptakostnaður
4. Virkari samkeppni
5. Minna flökt á vísitölu neysluverðs
6. Betri samkeppnisstaða fyrirtækja
Fyrir utan minni útlánsvexti og fleiri tugi milljarða sem við myndum spara. Eru þetta hlutir sem við getum horft framhjá vegna þess að við viljum halda í ónýtan gjaldmiðil sem hefur rýrnað um fleiri hundruð prósent á síðustu 20 árum?
Tekið upp dollar? Nei, ég held ekki. Án þáttöku Bretlands í myntsamstarfinu er vöruútflutningur okkar til evrusvæðisins 34% en til Norður-Ameríku 13%. Ef þú ert hræddur við efnahagssveiflur Evrópusvæðisins og að þær séu ekki líkar efnahagssveiflum okkar, hvað þá með BNA? Argentína, sem tók upp einhliða tengingu við dollar fyrir ekki margt löngu, er að gefast upp á þeirri tengingu, vegna hás gengis dollarans og nú nýlega varpaði fjármálaráðherra þeirra því fram að skynsamlegra væri að tengjast evrunni en dollaranum. Argentína skiptir mun meira við Evrópu en BNA.
Það mælir s.s. allt með því að tengjast evrunni, en fá rök eða engin með því að tengjast dollar eða fara út í einhliða tengingar við einhverja af hinum “fjölmörgu” gjaldmiðlum eins og þú kýst að kalla þá.
##Við getum hætt í EES öfugt við ESB.
Allar “góðu” reglugerðirnar sem eru komnar í gegnum EES hefðum við getað
sett sjálf!
En það er einmitt málið. Við gátum sett þessar reglur, en við gerðum það ekki. Það eitt sýnir í raun mátt, eða öllu heldur máttleysi íslenskra stjórnmálamanna.
Meðal þess sem EES hefur fært okkur eru reglugerðir sem hafa fært okkur í átt til alþjóðavæðingar og nútímans. Nokkur dæmi um svið sem EES samningurinn hefur haft áhrif á:
-samkeppnislöggjöf
-fjármálaviðskipti
-fjarskipta- og upplýsingastefnu
-neytenda og umhverfistefnu
-neytendakaupum
-vinnurétti
-vísindasamstarfi
Baldur Þórhallsson kemst líklega betur að orði en ég í þessu efni:
“Það eru ekki nema tíu ár síðan allir stjórnmálaflokkar að Alþýðuflokknum undanskildum, höfðu verulegar efasemdir um hið svokallað fjórfrelsi þ.e. frjálst flæði vöru, þjónustu, fjármagns og fólks. Stefna stjórnvalda varðandi innflutning til landsins hefur einnig alla tíð byggst á höftum. Þau hafa komið í veg fyrir innflutning á vörum og þjónustu nema í skiptum fyrir útflutning á sjávarafurðum. Aðild Íslands að EFTA og EES var samþykkt með þessum formerkjum.
Aðildin að EES þrýsti á stjónvöld að nútímavæða Ísland. Landsmönnum var í einni svipan kippt inn í nýtt alþjóðlegt umhverfi frjálsra viðskipta og aukinna samskipta. EES-samningurinn stuðlaði þannig að hraðari og skilvirkari alþjóðavæðingu landsins en ella hefði orðið. Eins og fram kemur í Evrópuskýrslu utanríkisráðuneytisins frá vordögum 2000 gátu íslensk stjórnvöld aukið frelsi í viðskiptum við fjarlægari þjóðir í síðustu GATT-viðræðunum vegna þeirra kerfisbreytinga sem EES-samningurinn stuðlaði að hér á landi.”
Það er hollt að skoða þá málaflokka sem EES hefur ekki haft áhrif á til að sjá hver árangur stjórnmálamanna hefur verið án EES samningsins, en þau eru helst:
- Landbúnaðarmál. Haftastefna ríkir hér enn og er ekki líklegur til að hverfa í bráð. 9-11 milljarðar fara í styrki til bænda á hverju ári, en það virðist ekki duga til, því bændur telja sig sjálfa sem eina af fátækustu stéttum landsins.
- Sjávarútvegsmál. LÍÚ ræður hér öllu og valtar yfir sjómenn og aðra landsmenn sem eru flestir á öndverðu meiði við samtökin. Fjárfestingar útlendinga eru bannaðar í sjávarútvegi upp að 25%, þannig að greifarnir sitja einir að kjötkötlunum í skjóli eins flokks.
- Byggðarstefna. Er eða hefur verið einhver byggðastefna í gangi? Hún hefur farið framhjá öllum held ég og lögin um kvótasetningu á trillusjómenn eru gott dæmi um hvað stjórnvöldum er annt um byggðir landsins. Vilji LíÚ fékk að ráða enn einu sinni.
##Það er engin tröllasaga að ESB ætlaði að koma í veg fyrir að varðskipið
yrði bara boðið út hér á landi. Sem betur fer komumst við með klækjum fram
hjá því.
Já, og er það sumsé betra að geta boðið út varðskipið í fákeppninni hér heima en á EES svæðinu?
Það er einmitt íhaldssamur hugsunarháttur eins og þessi sem kemur í veg fyrir að alþjóðleg viðskipti fái að blómstra. Hvað var betra við að smíða skipið hér heima? Við hefðum líklega sparað umtalsverðar fjárhæðir hefði skipið verið boðið út á EES svæðinu. Fjárhæðir sem ég og þú borgum í ríkissjóð -nánar tiltekið skattpeningar. Ég skil ekki af hverju fólk vill eyða meiri peningum þegar það getur eytt minna.
Starfsmenn ESB eru t.a.m. færri en starfsmenn Breska
umhverfismálaráðuneytisins (og ekki eru tjallar þekktir fyrir að vera í
fararbroddi í umhverfismálum) og tilgangur bandalagsins er ekki að undiroka
lítil eyríki eins og okkur, heldur að stuðla að frelsi í viðskiptum og
atvinnulífi(fjórfrelsið).
## Bretar eru hinsvegar þekktir fyrir skrifræði.
Þetta er afar ódýrt svar og bendir til rökþrota. Bretar eru ekki þekktir fyrir meira skrifræði en aðrar þjóðir. Eiginlega þvert á móti. Breska umhverfismálaráðuneytið er s.s. ekki fjölskipað í hlutfalli við fjölda íbúa.
Getur einhver bent á dæmi þess að ESB hafi gert eitthvað á hlut meðlims
sem var á móti ákvörðuninni? Varla. Ef slíkt dæmi kæmi upp myndi téð ríki
ganga út úr bandalaginu. Það er hægt líka.
## Nei það er ekki hægt. Þetta kom fram þegar Danir vildu ekki staðfesta
eitthvað. Þá var bara sagt. Sorrý en það er ekkert hægt að hætta.
“Þegar Danir vildu ekki staðfesta eitthvað” ??! Eitthvað hvað? Komdu með nákvæm dæmi ef þú ætlar að nota frændur okkar Dani sem dæmi. Svarið “eitthvað” dugar ekki hér, því miður.
Ég lít s.s. ekki á bandalagið sem miðstýrt ríki heldur bandalag
sjálfstæðra ríkja.
## Það byrjaði þannig en er á leiðinni í miðstýringu Sovétríkjanna.
Erum við að tala um einsflokks kerfi með aðalritara eins og var í Sovétríkjunum?
Hvað hefur nákvæmlega breyst síðan bandalagið byrjaði sem gerir miðstýringuna bandalagsins líka miðstýringu Sovétríkjanna sálugu? Hvenær gerðist það?
Ég hef ekki tekið eftir þessari breytingu, heldur þvert á móti. Nú nýlega voru t.a.m. völd Evrópuþingsins í Strassbourg aukin, og áhersla hefur verið á það undanfarin ár að auka valddreifingu innan bandalagsins.
## Hvað ef einhver með viti kemst í til valda hérna og byggir upp efnahagslífið þannig að krónan styrkist umfram Evruna.
Það er vel hægt ef spilað er rétt úr spilunum.
Það að halda því fram að krónan geti styrkst umfram evruna ber vott um lítið skynbragð
á þjóðhagfræði. Hvernig á gjaldmiðill með 280.000 íbúa á bak við sig að ná jafn miklum styrk og gjaldmiðill með 300.000.000 íbúa á bak við sig? Það er einfaldlega ekki hægt, hvort sem að einhver með viti kemst til valda hér eður ei. Ég bendi þér á að lesa grein Þorsteins Þorgeirssonar hagfræðings Samtaka Iðnaðarins “Af hverju evra í stað krónu” til að byrja með á www.si.is.
Eitt er víst að með veikan gjaldmiðil eins og krónan er, þá verður alltaf vaxtamunur á milli okkar og þeirra landa sem eru með evruna (og dollar). Vaxtamunurinn endurspeglar m.a. þann kostnað að halda úti gjaldmiðli fyrir svo fámenna þjóð. Því hefur verið haldið fram að hvert stig í vaxtamun kosti fyrirtæki og heimili 11 milljarða króna og ef við reiknum út útlánsvexti hér á landi 18% og vexti í evrulöndum 8%, þá fáum við út 110 milljarða. Þetta aðeins hluti af því gjaldi sem við þurfum að borga fyrir að halda úti krónunni. Þetta eru peningar sem kastað er á glæ.
Ég hugsa að íslenskt þjóðfélag geti alveg notað þessa milljarða í eitthvað skynsamlegra en að halda úti verðlausum gjaldmiðli sem á sér miður skemmtilega sögu, sem best verður lýst með stöðugum gengisfellingum og skammtímalausnum. Og eins og fyrr sagði, þá er einhliða tenging krónunnar óraunhæf og jafnvel hættuleg.