Undanfarið hef ég orðið vör við umræður um það hvort trúboð eigi sér stað í grunnskólum landsins. Ég er orðin 22ja ára í dag og man nú reyndar takmarkað eftir því hvernig kristinfræðinni var háttað í grunnskólanum mínum en ég man ekki eftir því sérstaklega að kennarinn hafi verið með trúboð. Við lásum bara bók og svöruðum verkefnum. Hins vegar var farið í kirkju á jólunum og á Lúsíuhátíð. Ég hef hins vegar tekið eftir því með yngri systkini mín að verkefnin sem þau hafa komið með heim úr skólanum lýsa hreinlega trúboði. Það er ekki gert ráð fyrir að möguleiki sé á því að barnið sé ekki kristið. Ég man líka eftir því að ég fékk enga kennslu um önnur trúarbrögð en kristin fyrr en í 10. bekk! Og það voru fjórar kennslustundir… Ég las 3-5 bls á hvert trúarbragð, Gyðingdóm, Íslam, Búddisma og Hindúisma. Kennarinn tilkynnti það síðan að honum fyndist þetta svo leiðinlegt námsefni og sagðist ekki nenna að kenna það meira og spurði hvort okkur væri ekki sama. Hver er ekki til í að sleppa við hluta af námsefninu í skóla? Í dag hef ég kynnt mér önnur trúarbrögð, hef skráð mig úr Þjóðkirkjunni og tileinkað mér aðra trú. Hefði ég lært eitthvað um önnur trúarbrög fyrir fermingu efa ég að ég hefði nokkurn tímann fermst, fyrir utan það að ég tel að maður sé alls ekki tilbúinn til að fermast aðeins 13 ára gamall. Mér finnst líka heldur loðið að skólar gefa frí til þess að krakkar komist í fermingarfræðslu svo það bitnar á öðrum námsgreinum. Þetta hefur alltaf viðgengist og hjá öllum fermingarbörnum sem ég hef rætt við. Hvaða skilaboð gefur það börnunum? Ég þekki ýmsa sem viðurkenndu fyrir mér að þeir hefðu hreinlega ekki þorað að skera sig úr hópnum og sleppa því að fermast eða fermast borgaralega.

Þar sem menntamálaráðuneytið virtist ekki vilja kannast við að trúboð færi fram í skólum landsins eða að það væri a.m.k. ekki takmarkið fór ég á stúfana og tók niður þá hluta námskrár sem snéru að trúarbragðafræðslu.


Þrepamarkmið 1. bekkjar
Nemandi
*kynnist kristinni sköpunartrú og skoði sjálfan *sig, umhverfi sitt og samskipti við aðra í ljósi hennar
*kynnist frásögunum af fæðingu Jesú, læri einfalda jólasálma og kynnist íslenskum jólasiðum
*kynnist sögunum af bernsku Jesú og heyri um daglegt líf og aðstæður á hans dögum
*kynnist afstöðu Jesú til barna, m.a. með frásögunni Jesús blessar börnin
*fái tækifæri til leikrænnar tjáningar á atburðum úr biblíusögunum
*heimsæki kirkju og skoði helstu kirkjumuni
þekki tilefni páskanna

*geri sér ljóst hvað bæn er og læri að þekkja Faðir vor, kvöld- og morgunbænir og borðbænir
*fáist við siðræn viðfangsefni sem tengjast vináttu og merkingu orðanna rétt og rangt, mitt og þitt og fyrirgefning
*geri sér ljóst að engir tveir eru eins, t.d. með frásögn af börnum með ólíkan bakgrunn

Ef þetta er ekki trúboð þá veit ég ekki hvað! Læra bænir og sálma og fari í kirkju auk þess að vera með það sem mér sýnist vera einhverjir helgileikir!

Þrepamarkmið 2. bekkjar
Nemandi
*kynnist völdum frásögum úr Gamla testamentinu í einfaldaðri mynd, t.d. frásögunni af Adam og Evu í aldingarðinum Eden, Kain og Abel og Nóa
*viti hvað aðventa merkir og hafi kynnst siðum og tónlist sem tengist henni
*kynnist frásögum úr lífi Jesú, t.d. af góða hirðinum, týnda sauðnum, Sakkeusi, Bartímeusi blinda og fiskidrættinum mikla
*kynnist frásögum af dauða og upprisu Jesú
skoði og ræði listaverk sem túlka efni Biblíunnar og fái tækifæri til eigin listsköpunar
*temji sér umburðarlyndi í samskiptum við aðra, t.d. með því að fást við efni um góðvild, miskunnsemi, sannsögli og hjálpsemi og vandamál tengd einelti og bakmælgi
*fái fyrstu kynni af íslam með frásögnum af jafnöldrum

Eitthvað skánar það þó hér.


Þrepamarkmið 3. bekkjar
Nemandi
*kynnist frásögunum af ættfeðrunum Abraham, Ísak og Jakobi og frásögunni af Jósef
auki við þekkingu sína á atburðum tengdum jólum, t.d. með sögunum af vitringunum frá Austurlöndum og flóttanum til Egyptalands
*kynnist kjörum landflótta barna og starfi þeim til hjálpar
*þekki valdar frásögur úr Nýja testamentinu, t.d. frásögurnar af köllun fyrstu lærisveinanna, mettun þúsundanna, lækningunni við Betesdalaug, dóttur Jaírusar, eyri ekkjunnar og týndu drökmunni
*þekki atburði pálmasunnudags, skírdags, föstudagsins langa og páskadags
*kynnist frásögum af atburðum sem áttu sér stað eftir upprisu Jesú, t.d. förinni til Emmaus og frásögunni af himnaför Jesú
*kynnist íslenskum sálmum, myndlist og tónlist sem tengist jólum og páskum
*viti hvað kristniboð er og kynnist starfi íslenskra kristniboða erlendis
*fái þjálfun í að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum með því að fást við efni sem tengjast jafnrétti og jafnstöðu og kjarki til að fylgja sannfæringu sinni
*kynnist búddadómi eða hindúasið með frásögnum af jafnöldrum


Mér finnst allavegna trúboðslykt af þessu…


Þrepamarkmið 4. bekkjar
Nemandi
*kynnist frásögunum af Móse, dvöl Ísraelsmanna í Egyptalandi og brottförinni þaðan og öðlist skilning á merkingu páskahátíðar Ísraelsþjóðarinnar
*þekki aðdragandann að fæðingu Jesú, svo sem frásögurnar af fæðingu Jóhannesar skírara, boðun Maríu og jólaguðspjall Lúkasar
*þekki sögu aðventukransins og jólatrésins, táknræna merkingu og siði tengda þeim
*kynnist enn frekar frásögum úr Nýja testamentinu, m.a. frásögunum af skírn Jesú, brúðkaupinu í Kana, ekkjunni í Nain, lækningum Jesú á hvíldardegi, faríseanum og tollheimtumanninum, miskunnsama Samverjanum, ríka unglingnum og vakningu Lasarusar frá dauðum
*auki þekkingu sína á dauða og upprisu Jesú, t.d. með kynnum af frásögum af yfirheyrslunum yfir Jesú og dauðadómnum, sögunni af ferð kvennanna að gröfinni á páskadagsmorgni og þekki frásöguna af því þegar Jesús birtist lærisveinum sínum við Tíberíasarvatnið eftir upprisuna
*þekki frásöguna af atburðum hvítasunnudags og geri sér grein fyrir merkingu hans fyrir kristna kirkju
*kunni skil á kirkjuárinu, helstu hátíðum og merkingu ólíkra lita í helgihaldinu
*heimsæki kirkju og þekki nokkur trúarleg tákn og merkingu þeirra, kunni skil á guðsþjónustunni og helstu kirkjulegum athöfnum svo sem skírn, fermingu, hjónavígslu og útför
*kynnist enn frekar íslenskri sálmahefð og trúarlegri tónlist og myndlist
*þroski með sér tillitssemi og nærgætni í samskiptum við aðra
*læri að meta það sem vel er gert og öðlist hæfni til að hrósa og uppörva aðra
*kynnist gyðingdómi, m.a. með frásögum úr lífi jafnaldra


Er það bara ég eða finnst engum öðrum áhugavert hversu mikil áhersla er lögð á íslenska sálmahefð og kirkjuathafnir? Er þetta ekki hlutverk kirkjunnar að kenna megnið af þessu? Eiga börn að fara í gegnum nær alla biblíuna í barnaskóla eða hvað? Ekki sé ég neinsstaðar verið að heimsækja aðrar trúarstofnanir… Mér finnst reyndar fyndið að þau ætli að kynna sögu jólatrésins þar sem það er HEIÐIÐ að uppruna, þó mig gruni engu að síður að sú saga verði ekki sögð. Að auki finnst mér ofboðslega mikil áhersla lögð á þannig sé smáatrið sem eiga bara heima innan kirkjunnar, eins og í sunnudagaskólanum.


Áfangamarkmið við lok 4. Bekkjar
Nemandi á að
*kunna skil á Biblíunni sem trúarbók kristinna manna og þekkja vel nokkrar mikilvægar frásagnir af Jesú Kristi og kenningu hans, svo og öðrum persónum í Biblíunni, bæði í Gamla og Nýja testamentinu
*hafa haft kynni af kristnu helgihaldi og umgjörð þess og tamið sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt
*þekkja helstu hátíðir kristninnar og siði og tákn sem tengjast þeim
*þekkja kirkjuhúsið, helstu tákn, kirkjulegar athafnir og starf kirkjunnar í heimabyggð
*hafa kynnst listrænni tjáningu trúar og fengið tækifæri til listrænnar tjáningar eigin hugmynda
*þekkja grundvallargildi kristilegs siðgæðis og hafa fengist við efni sem stuðlar að ábyrgðartilfinningu, sáttfýsi og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum
*hafa kynnst öðrum trúarbrögðum, lífsviðhorfum og menningu, m.a. með frásögnum af jafnöldrum


Finnst fleirum ofaukið að láta börnin taka þátt í kristnu helgihaldi og þekkja starf kirkjunnar í heimabyggð eða í sínu hverfi? Til hvers? Ekki læra þau um eða taka þátt í helgihaldi múslima á Íslandi svo dæmi séu nefnd. Miðað við hversu lítil áhersla er lögð á önnur trúarbrögð finnst mér fremur augljóst að það sé miðað að því að þau séu aldrei trú einhvers nemanda í bekknum.


Þrepamarkmið 5. bekkjar
Nemandi
*þekki valda þætti úr sögu Ísraels frá brottförinni frá Egyptalandi til landnáms í Kanaanslandi, m.a. atburðina við Sínaí, sáttmálann (boðorðin) og Jósúa og hlutverk hans
*kanni merkingu aðventutímans í kristnu helgihaldi, uppruna jólahalds kristinna manna og söguna af heilögum Nikulási
*fræðist um hugmyndir gyðinga um Messías og hvernig Jesús heimfærði þær á sjálfan sig, m.a. söguna af Jesú 12 ára í musterinu, prédikun hans í Nasaret, _ég er" orð hans, játningu Símonar Péturs og frásöguna af því þegar Jesús lægði storminn
*kynnist völdum sögum af lækningakraftaverkum Jesú, m.a. sögunni af lama manninum, krepptu konunni og holdsveiku mönnunum tíu
*læri um aðdragandann að handtöku Jesú og ástæður hennar og kunni skil á atburðum skírdags og föstudagsins langa
*kynnist Passíusálmum Hallgríms Péturssonar og ævi hans
*kynnist því hvernig listamenn hafa túlkað píslir og dauða Jesú í myndlist, tónlist og bókmenntum og fái tækifæri til eigin listsköpunar
*öðlist skilning á ástæðunum fyrir kristniboðs- og hjálparstarfi kristinnar kirkju og þekki til einstaklinga sem unnið hafa að því
*kunni skil á aðdragandanum að því að Íslendingar tóku kristni og sjálfri kristnitökunni á Alþingi
*fái vitneskju um hugtakið heilagur og mismunandi merkingar þess og temji sér virðingu fyrir því sem öðrum er heilagt
*fáist við efni tengt sáttfýsi og fyrirgefningu og gildi þessa, bæði trúarlega og í samskiptum manna á milli
*kynnist völdum þáttum íslams, svo sem mosku, táknum, hátíðum og siðum


Sé ekkert að starfinu hér. Loksins! Tjahh… nema fyrir utan óþarflega ítarlega kennslu í biblíunni og sögum hennar.


Þrepamarkmið 6. bekkjar
Nemandi
*þekki grundvöll kristinnar sköpunartrúar og geri sér ljósa ábyrgð mannsins á sköpunarverkinu, sjálfum sér og náunga sínum
*fái tækifæri til að ræða mismun á trú og vísindum í tengslum við sköpunartexta Biblíunnar
*kynnist dómara- og konungatímabilinu í sögu Ísraelsþjóðarinnar þar til ríkið klofnar, speki Salómons og sálmum Davíðs
*komist í kynni við jólaguðspjall Jóhannesar og merkingu táknanna ljós og orð, skilji hvers vegna Jesús var kallaður sonur Davíðs með tilvísun í Messíasarspádóma Gamla testamentisins
*kynnist og geti dregið lærdóm af nokkrum af dæmisögum Jesú, m.a. um synina tvo, kvöldmáltíðina miklu, sáðmanninn, mustarðskornið og súrdeigið
*þekki atburði páskadags, hina kristnu upprisutrú og viðbrögð lærisveina Jesú við dauða hans og upprisu
*geri sér grein fyrir því hvaða þýðingu krossdauði Jesú og upprisutrúin hefur fyrir kristna einstaklinga andspænis dauðanum og þá von sem henni tengist
*öðlist þekkingu á atburðum hins fyrsta hvítasunnudags og kynnist frumsöfnuðinum, m.a. með frásögum af gjöf heilags anda, Stefáni píslarvotti og köllun Sáls frá Tarsus og skilji tengsl tilbeiðslu og guðsþjónustu frumsafnaðarins við kristið helgihald nú á dögum
*verði handgenginn völdum frásögnum af hlut kvenna í starfi frumsafnaðarins
*ekki postullegu trúarjátninguna og geri sér grein fyrir því að hún felur í sér grundvallaratriði kristinnar trúar og er sameiginlegur arfur nær allra kristinna kirkjudeilda
*kynnist íslenskum sálmakveðskap á 20. öld
fáist við siðferðileg efni tengd minnihlutahópum og fötluðum og samskiptum nemenda, svo sem einelti og hópþrýstingi
*öðlist skilning á mikilvægi umhverfis- og náttúruverndar og temji sér ábyrga afstöðu í þeim efnum
*kynnist völdum þáttum úr hindúasið, m.a. helgistöðum, musterum, táknum, hátíðum og siðum

Mér finnst þetta ennþá of ítarlegt og þetta með trúarjátninguna á heldur gráu svæði, sérstaklega þar sem þau læra engar trúarjátningar annarra trúarbragða og hafa lítið sem ekkert fengið að kynnast viðhorfum trúlausra.


Þrepamarkmið 7. bekkjar
Nemandi
*kynnist þáttum úr sögu Ísraelsþjóðarinnar frá því að ríkið klofnaði og til heimkomunnar úr útlegðinni í Babýlon
*þekki dæmi um nokkra spámenn og skilji félagslegt og trúarlegt hlutverk þeirra, m.a. Elía, Amos, Jesaja og Jeremía
*fái vitneskju um aðstæður gyðinga síðustu aldirnar fyrir Krist og átök og yfirráð stórvelda við Miðjarðarhaf
*læri um frásagnir Matteusar guðspjallamanns af aðdragandanum að fæðingu Jesú og atburðum sem tengjast komu vitringanna frá Austurlöndum
*verði kunnugur meginefni Matteusarguðspjalls og hafi lesið það í samhengi með sérstakri áherslu á fjallræðuna
*skilji merkingu bænarinnar Faðir vor
*kynnist kristniboðsstarfi Páls postula, hvernig kristin trú breiddist út um Rómaveldi og hvernig kirkjan þróaðist undir forystu biskupsins í Róm, páfans
*kanni sögu miðaldakirkjunnar á Íslandi með sérstakri áherslu á klaustur og biskupsstóla
*kynnist trúarlegri tjáningu í íslenskri ljóðlist
*kunni skil á siðbót Marteins Lúters og tildrögum hennar, hvernig siðbótin barst til Íslands og festist í sessi, m.a. með útgáfustarfi Guðbrands Þorlákssonar
*kynnist tjáningu trúar í listsköpun miðalda
geri sér grein fyrir siðferðilegum gildum og siðferðilegum álitamálum er lúta að jafnrétti, mannréttindum, kjörum flóttamanna og misskiptingu lífsgæða í heiminum og þjálfist í að ræða þau
*þjálfist í að nýta sér upplýsingatækni til að leita svara við spurningum um trúarleg og siðferðileg efni og meta þau
*kynnist völdum þáttum búddadóms, m.a. musterum, klaustrum, táknum, hátíðum og siðum

Loksins farið út í eitthvað sagnfræðilegt sem mér finnst nú að ætti að vera aðaláherslan. Hvað er þetta með faðirvorið? Er það hlutverk grunnskólanna að kenna það?


Áfangamarkmið við lok 7. Bekkjar
Nemandi á að
*þekkja nokkra helstu biblíutexta sem kristin trú og játning byggist á og geta dregið lærdóm af þeim *PJÚRA TRÚBOÐ!*
*þekkja algengustu tákn kristninnar og merkingu þeirra
*hafa kynnst völdum þáttum úr almennri og íslenskri kirkjusögu, einkum í fornöld og á miðöldum
*kunna skil á hvernig kristni barst til Íslands og á atburðum tengdum kristnitökunni árið 1000
hafa kynnst áhrifum Biblíunnar og kristinnar trúar á íslenska og erlenda listsköpun í bókmenntum, myndlist og tónlist og þekkja dæmi um þau
*hafa kynnst nokkrum mikilvægum frásögnum og persónum úr íslenskri kristni sem hafa haft mótandi áhrif á íslenska menningu og samfélag
*hafa öðlast góða innsýn í kristilegt siðgæði og tileinkað sér samskiptareglur sem byggjast á kærleika, mannhelgi, félagslegu réttlæti og umhyggju fyrir öðrum mönnum, öllu lífi og umhverfi
*þekkja valda þætti nokkurra helstu trúarbragða heimsins, einkum guðshús, tákn, hátíðir og siði, og hafa tamið sér virðingu fyrir þeim
*hafa fengið þjálfun í að nýta sér upplýsingatækni til að leita svara við spurningum um trúarleg og siðferðileg efni

Þarf að segja meira?


Þrepamarkmið 8. bekkjar
Nemandi
*kunni skil á ritunarsögu Biblíunnar, geri sér grein fyrir ólíkum flokkum rita hennar og eðli þeirra og öðlist nokkra færni í notkun hennar og túlkun valinna biblíutexta
*geri sér grein fyrir mikilvægi Biblíunnar í lífi kirkjunnar og kristinna einstaklinga
*kynnist biblíuútgáfu og þýðingum Guðbrands Þorlákssonar og Odds Gottskálkssonar og mikilvægi þeirra fyrir íslenska tungu og bókmenntir
*geti greint áhrif Biblíunnar á listsköpun
kynnist helgiritum annarra trúarbragða og völdum textum úr þeim
*kunni skil á helstu kristnu trúfélögunum sem starfa hér á landi, hvað greinir þau hvert frá öðru og hvað þau eiga sameiginlegt og þekki til einingarviðleitni kristinna manna í samtímanum
*fáist við siðferðileg viðfangsefni sem tengjast fjölskyldulífi, svo sem samskiptum á heimili, jafnrétti kynjanna, kærleika, gagnkvæmu trausti og virðingu, sáttfýsi og fyrirgefningu
*tileinki sér ábyrg samskipti í jafnaldrahópnum með því að fást við viðfangsefni sem tengjast samskiptum kynjanna, vináttu, heiðarleika, trúnaði og orðheldni
*temji sér sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum með því að fást við viðfangsefni sem tengjast hópþrýstingi, einurð til að standa við eigin sannfæringu og virðingu fyrir sannfæringu annarra

Er það hlutverk skólanna að kenna börnum landsins að túlka kristin trúarrit? Og enn og aftur… Fá börnin ekkert að vita um önnur starfandi trúfélög en kristin hér á landi? Skiptir það ekki svolitlu máli þar sem þau eiga flest að fermast um vorið? Eða á að passa að þau kynnist sem minnst öðrum trúarbrögðum áður en þau eru send í fermingarfræðsluna?


Þrepamarkmið 9. bekkjar
Nemandi
*geri sér grein fyrir eðli og fjölbreytileika trúarbragða og trúariðkunar og áhrifum þeirra á siði og menningu
*þekki helstu hugtök og fyrirbæri svo sem andahyggju, galdur, dulmegin (mana), guðsmynd, bæn, hugleiðslu, fórnir og hvað í þeim felst
*geti greint helstu trúarleg embætti og hvaða hlutverki þau gegna svo sem embætti presta, spámanna, töframanna og höfðingja
*geti sagt deili á megineinkennum, inntaki og helgisiðum helstu trúarbragða heims, auk kristni, svo sem gyðingdóms, íslams, hindúasiðar og búddadóms, og útbreiðslu þeirra
*öðlist nokkra þekkingu á síkhatrú, baháítrú, taóisma, Konfúsíusarhyggju og ættbálkatrú
*nái nokkru valdi á að bera saman meginatriði ólíkra trúarbragða svo sem sögu, guðshugmyndir, tilveruskilning, mannskilning, frelsunarleiðir, hugmyndir um dauðann, helgirit, helgisiði og siðgæði
*kynnist listsköpun sem ólík trúarbrögð hafa fætt af sér, m.a. byggingarlist helgidóma

Vá! Loksins kemur eitthvað fútt í þetta og þau fá að læra af einhverri alvöru um önnur trúarbrögð! En finnst fleirum en mér eitthvað gruggugt við það að það gerist ekki fyrr en eftir fermingu? Og ef þau eru ekki talin hafa þroska til að læra um þessa hluti fyrr en á þessum aldri ættu þau þá frekar að hafa einhvern þroska til að fermast?


Þrepamarkmið 10. bekkjar
Nemandi
*geti sagt deili á nokkrum siðfræðilegum hugtökum, m.a. veraldleg, andleg og siðferðileg gæði, siðfræði, siðferði, lagaregla, siðaregla, siðvenja, dyggð, löstur og kristilegt siðgæði
*geri sér grein fyrir ábyrgð, réttindum og skyldum einstaklings í lýðræðisþjóðfélagi
*temji sér virðingu fyrir gildi vinnunnar og siðferðilegri ábyrgð sem tengist henni og geri sér grein fyrir vanda atvinnuleysis
*geri sér grein fyrir gildi jákvæðra lífsviðhorfa og gildismats sem mikilvægs þáttar í heilbrigðri sjálfsvitund
*fáist við viðfangsefni sem tengjast mannskilningi, mannhelgi og verndun lífs og rækti með sér virðingu fyrir lífinu
*glími við siðferðileg viðfangsefni sem tengjast lífi og dauða, sjúkdómum og sorg, mótlæti og vonbrigðum
*fáist við efni er tengist frelsi og réttlæti, lögum og refsingu og læri að meta gildi laga og löghlýðni
*þjálfist í að ræða álitamál sem upp koma þegar lög stríða gegn siðgæðisvitund einstaklinga
*geri sér grein fyrir því að hann er hluti af stærri heild í samfélagi þjóðanna og öðlist skilning á misskiptingu lífsgæðanna og ólíkum kjörum einstaklinga og þjóða
*temji sér umburðarlyndi og virðingu fyrir ólíkum einstaklingum, kynþáttum og þjóðum í ljósi jafngildis og jafnréttis allra manna
*glími við vandamál tengd stríði og læri að meta gildi friðsamlegra lausna á ágreiningsmálum
*ræði álitamál um umhverfisvernd og nýtingu auðlinda annars vegar og efnahagslegar og tæknilegar framfarir hins vegar
*þjálfist í að greina siðferðileg álitamál og umræðu í nútímanum, svo sem í fjölmiðlum, bókmenntum, kvikmyndum og dægurtónlist
l*æri að nýta sér fjölmiðla og upplýsingatækni til að afla efnis í umræður um siðferðileg álitamál og þjálfist í að meta efni þessara miðla á gagnrýninn hátt

Sé ekkert að þessu. Flott kennsluefni. Vildi bara að ég hefði átt kost á þessu í grunnskóla.


Áfangamarkmið við lok 10. Bekkjar
Nemandi á að
*þekkja sögu Biblíunnar sem ritsafns, hafa öðlast færni í notkun hennar, kunna skil á ólíkum ritum og skilja gildi hennar í helgihaldi og trúarlífi
*hafa öðlast þekkingu á starfi kirkjunnar, einkum hjálpar- og kristniboðsstarfi bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi
*hafa kynnst helstu kirkjudeildum og kristnum trúfélögum, hvað þau eiga sameiginlegt og hvað greinir þau að
*hafa kynnst völdum þáttum úr almennri og íslenskri kirkjusögu, einkum frá siðbótartímanum til okkar daga
*hafa kynnst áhrifum ólíkra trúarbragða á menningu og listir
*hafa öðlast færni í að fást við siðferðileg álitamál í ljósi mismunandi gildismats, trúarbragða og lífsviðhorfa, t.d. tengd samskiptum kynjanna, fjölskyldulífi, atvinnulífi, heiðarleika, sannleika og trúnaði, stríði og friði
*þekkja inntaksþætti og útbreiðslu helstu trúarbragða heims og ólíkra lífsviðhorfa og geta borið þau saman

Lokamarkmið
Nemandi
*efli trúarlegan, siðferðilegan og félagslegan þroska sinn
*öðlist þekkingu á kristinni trú á Guð, föður, son og heilagan anda, einkum Jesú Kristi og kenningu hans, og skilji áhrif fagnaðarerindisins á einstaklinga og samfélög
*kynnist sögu kristinnar kirkju hér og erlendis og beri skynbragð á vestrænan og þar með íslenskan trúar- og menningararf
*tileinki sér grundvallargildi íslensks samfélags, svo sem virðingu einstaklingsins fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum og helgi mannlegs lífs
*þroski með sér gagnrýna hugsun, siðferðilega dómgreind og sjálfræði og þjálfist í að fást við siðferðileg álitamál og taka afstöðu á grundvelli þekkingar og skilnings
*geri sér grein fyrir réttindum sínum, skyldum og ábyrgð í samskiptum við aðra og samfélagið í heild
*temji sér virðingu fyrir náttúrunni og ábyrgð gagnvart öllu lífi og umhverfi
*öðlist þekkingu á öðrum trúarbrögðum sem grundvelli gilda og lífsviðhorfa og temji sér umburðarlyndi og virðingu fyrir rétti manna til mismunandi trúar- og lífsskoðana
*fáist við og skilji viðfangsefni sem snerta trú, lífsskoðun og siðferði og tengjast spurningum um merkingu og tilgang lífsins
*geti greint og borið saman ólík trúar- og lífsviðhorf og gert sér grein fyrir hvað er sameiginlegt og hvað sérstætt
*verði betur fær um að skilja og njóta trúarlegrar *tjáningar í tónlist, myndlist og bókmenntum


Ég hef svosum ekki meira um þetta að segja í bili. Er aðallega forvitin um hvað öðrum finnst um þetta mál. Mér finnst frekar fáránlegt hversu ítarlega kristin trú er kennd í grunnskólum og mér finnst helmingurinn af þessu eiga heima innan kirkjunnar. Vissulega er hefur kristin trú haft mikil áhrif á sögu og menningu íslensku þjóðarinnar og því eðlilegt í ljósi þess að hún sé stærri hluti trúarbragðafræðslu, en það ætti þá að hafa menningarlegar og sagnfræðilegar áherslur. Helst langar mig auðvitað að gagnrýna kirkjuna fyrir að hafa fermingaraldurinn svona ungan, þar sem það gefur börnunum ekki mikið færi á að taka meðvitaða ákvörðun og minnkar sveigjanleika innan skólans. Svo finnst mér auðvitað fáránlegt að skólar séu að gefa frí í tímum svo börnin komist í fermingarfræðslu. Mér finnst það vera hópþrýstingur og smölun og gera þeim börnum sem ekki hafa hugsað sér að fermast mjög erfitt fyrir.

Takk fyrir mig.

Kveðja,
Divaa


P.S. Hér má nálgast aðalnámskrá grunnskólanna.