Ég vil hefja þessa grein með því að óska öllum Írökum til hamingju með að hafa tekið fyrsta skrefið í að gera Írak að lýðræðislegu landi. Ég tel að þessi þjóð hafi sýnt mikið hugrekki með því að ná um 60% kosningaþátttöku þó það hafi verið hótað líflátum og það tekist í nokkrum tilfellum. Ég held að það sýni hversu mikið þessi þjóð hefur þráð lýðræði. Dæmi er um að fólk hafi gengið marga kílómetra til þess að fá að kjósa, og sást meðal annars til manns sem að dró gamla konu í hjólastól langa leið svo hún gæti kosið. En Írakar eru ekki aðeins sigurvegarar í þessum kosningum. Geroge W. Bush Bandaríkjaforseti var einnig mikill sigurvegari, enda væri þessi þjóð ekki að kjósa ef hann hefði ekki tekið þá umdeildu ákvörðun að frelsa þjóðina. Einnig var mjög gaman að heyra að Jacques Chirac Frakklandsforseti hafi hringt í Bush og óskað honum til hamingju með árangurinn í Írak, en hann vildi ekki taka þátt í frelsun Íraks á sínum tíma eins og flestir vita.
Svartsýnisspár þeirra sem voru á móti innrásinni hafa annað hvort ekki verið jafn alvarlegar og búist var við, eða bara alls ekki ræst. Það hefur ekki ræst að Íraska þjóðin myndi styðja einræðisherrann og gera uppreisn gegn Bandaríkjamönnum. Aðeins lítill hópur Íraka tók þátt í að gera uppreisn, og eru þeir flestir Súnní múslimar sem studdu einræði Saddams. Það hefur heldur ekki ræst að hundruðir þúsunda myndu falla í götubardögum í Baghdad, og eru skráð dauðsföll en þá undir 20 þúsund. Þessi fræga 100 þúsund manna tala dreifðist um allan heim eftir að hún kom í einni blaðagrein, þó það hafi ekki verið nein skrá eða heimild með sem að sannaði þessa tölu. Það hefur heldur ekki ræst að Írakar myndu ekki viðurkenna kosningarnar og sniðganga þær, en kjörsókn í kosningunum var um 60%. Það hefur heldur ekki komið borgarastyrjöld í landinu, enda eru núverandi stjórnvöld og flestir stjórnmálaflokkar í Írak sammála því að það eigi ekki að hefja þannig stríð þrátt fyrir árásir uppreisnarmanna. Einnig hefur ekki ræst að uppreisnarmenn myndu vinna stríðið gegn lýðræðinu, en þeim tókst aðeins að gera nokkrar árásir á kosningardeginum þó það hafi verið planað í marga mánuði hvernig ætti að eyðileggja kosningarnar. Írakar sjálfir geta líka verið ánægðir með að hafa unnið stríðið gegn uppreisnarmönnunum með lýðræði, en eins og ég hef áður tekið fram þá tók meirihluti þjóðarinnar þátt í kosningunum þó það hafi verið viss hætta í því að fara á kjörstaði. Það hefur heldur ekki ræst að Bandaríkin myndu velja leppastjórn og jafnvel bara nýjan einræðisherra, en kosningarnar hafa að mínu mati sannað það að Bandaríkin ætli í raun að gefa Írökum frelsi til þess að stjórna eigin landi og framtíð þjóðarinnar. Jafnvel leiðtogar Evrópuríkja og Sameinuðu Þjóðanna eru sammála því að kosningarnar hafi heppnast vel, og að ekkert bendi til þess að þær hafi verið falsaðar. En flokkur Iyads Allawis, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, fékk aðeins 14% atkvæða. Og er því tæpt að tala um í dag að það sé að myndast eitthvað lepparíki Bandaríkjanna. Sú samsæriskenning að Bandaríkjamenn hafi farið þangað til þess að “stela olíu” er líka ekki alveg að ganga upp, en Írakar munu sem frjáls þjóð hafa yfirráð yfir auðlindum sínum. Þar á meðal olíulindir landsins, og munu stjórna því sem lýðræðisleg þjóð hvaða þjóðir fái að stunda viðskipti við sig á þessum markaði. Já auðvitað er líklegt að Bandaríkjamenn verði í þeim hópi, en ekki má gleyma því að Bandaríkin voru aðalviðskiptaland Íraks þegar kom að olíu fyrir frelsun Íraks.
Geroge W. Bush hefur einnig staðfest að hann muni kalla herliðið til baka um leið og nýja ríkisstjórnin óski eftir því. Írakar sjálfir eru líka bjartsýnir um framtíðina, samkvæmt Gallup könnun í fyrra töldu 63% Íraka að ástandið yrði betra 5 árum eftir innrás en á valdatíma Saddams Hussein. Þessi tala var á því tímabili þegar Írakar voru ekki einu sinni vissir um hvort það yrðu í raun kosningar, svo ég get ekki trúað öðru en að það sé meiri bjartsýni meðal þeirra í dag eða allavega jafn mikil.Leiðinlegt að þetta jákvæða viðhorf Íraka sé ekki búið að smitast yfir til Íslendinga, en ég trúi því að það séu ýmsar ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi hefur fréttaflutningur verið mjög einhæfur hér á landi, og tel ég alls ekki að hann hafi hallast að viðhorfum Bandaríkjamanna. Ætli það séu ekki 80% frétta hérna á Íslandi um Írak sem að tengjast tölu dauðsfalla og átök á bardagasvæðum, hvar eru fréttirnar um ferð Íraka til betra lífs ? Hvar eru fréttirnar um það að mikill meirihluti Íraka búi á friðsamlegum svæðum í landinu ? Svo hefur umfjöllunin um kosningarnar sjálfar verið SKAMMARLEGA LÍTIL! Ef ég man rétt þá voru fréttirnar á bæði Rúv og Stöð 2 ekki mikið lengur en 2 mínútur á sjálfum kosningardeginum, það hafa alveg örugglega verið lengri fréttir en þetta um stakar árásir. Við erum að tala um fyrstu frjálsu kosningar landsins í marga áratugi, og það er lítil sem engin umfjöllun um það. Eru fréttastofurnar kannski að sýna Íslendingum aðallega það sem þeir vilja sjá ? Þar sem stór meirihluti þjóðarinnar var á móti stríðinu, er vit í að fjalla aðallega um eitthvað sem hægt er að skjóta á Bandaríkin fyrir. Ég persónulega tel að aðalástæðan fyrir því að Íslendingar séu flestir á móti stríðinu, sé einfaldlega sú að Bandaríkjamenn voru í því.
Einnig þá er skammarleg hvernig stjórnmálamenn hafa komið fram í umræðum sem tengjast Írak. Þetta er svo TÝPÍSKT að ég hefði getað skrifað skáldsögu um þetta ferli mjög svipað árið 2002. Eða að meirihluti þeirra sem að hallast til vinstri voru á móti innrásinni, og meirihluti þeirra sem að hallast til hægri með henni. Ég held að stjórnmálamennirnir séu langt frá því að vera að hugsa út í það hvort þessi innrás hafi verið Írökum sjálfum í hag eða ekki, þeir eru að spá í eigin ímynd og jafnvel bara hvaða þjóðir eru “vinaþjóðir”. Er fólk nú til dags hætt að hafa sjálfstæðar skoðanir ? Eru stjórnmálamenn hérna að fylgja stefnum flokkanna í blindni ? Svo er eins og það sé alltaf talað um það nákvæmlega sama í þessum milljón viðtölum og umræðum sem að hafa orðið eftir stríðið. Mér finnst eins og það sé ekki EINN þingmaður þarna úti sem er með framtíð Íraks í huga fyrst og fremst þegar kemur að þessum umræðum. En áður en farið er lengra, þá vil ég taka það fram að ég persónulega var á móti stuðningi Íslendinga við stríðið eins og það fór fram. Ég tel það vera lágmark að þingið kjósi um það, og að þjóðin fái helst að gera það. Hegðun stjórnarflokkanna hefur verið án efa til skammar. Svo þó að ég persónulega sem einstaklingur var með frelsun Íraks, þá er ég algjörlega á móti því hvernig þetta ferli fór fram hér á landi. En stjórnarandstaðan hefur líka verið til skammar þegar kemur að Írak, hræsnin hjá þeim hefur oft verið alveg í hámarki. Töluðu um hvað þetta stríð væri hræðilegt, en tala svo um hversu frábært það er að Írakar séu að fá lýðræði. Og vilja endilega aðstoða við það. Nota sem afsökun að þau séu ekki á móti frelsun Íraks, og það hefði bara mátt fara aðrar leiðir. Samt hef ég aldrei heyrt neinar góðar hugmyndir frá þeim hvaða aðrar leiðir hefði mátt fara til þess að koma í veg fyrir mannfall!
Ég tel að við eigum að dæma þetta stríð eftir því hvort það hafi jákvæð eða neikvæð áhrif á Írak í framtíðinni. Mér finnst það vera sorglegt að vera á móti frelsun Íraka eingöngu af því að Bandaríkjamenn gætu grætt á því t.d. með olíuviðskiptum, olíuviðskiptum sem að myndu bæta lífsgæði í Írak GÍFURLEGA. Er það rangt bara af því að Bandaríkjamenn myndu LÍKA græða á því ? Er það ekki bara fínt mál að fella einræðisherrann, og leyfa svo frjáls viðskipti ? Viðskipti sem að munu breyta ástandi landsins til góðs í náinni framtíð. Það getur vel verið að Bandaríkjamenn séu þarna að hluta til vegna olíu, en það er eitthvað sem Írakar sjálfir græða einnig á. Þeir eru ekki að fara að “stela” olíunni frá Írökum, þeir munu kaupa hana frá þeim eins og aðrar þjóðir sem Írakar munu gera samninga við. Ekki gleyma því að það er mikilvægt að hafa stöðuleika í landinu til þess að það verði mögulegt að selja þaðan olíu, því er það ekki alveg að ganga upp dæmið um að Bandaríkjamenn ætli bara að “taka olíuna” og skilja allt eftir í rústi. Einnig þá eru þjóðir heimsins annað hvort að fella niður, minnka eða fresta skuldum Íraka sem voru um 6.000 milljarðar króna. Og mun það auðvelda Írökum að byggja upp landið, en ég tel að þetta hefði aldrei orðið að raunveruleika með Saddam Hussein við völd. Þökk sé innrás bandamanna, þá er stór hluti heimsbyggðarinnar að aðstoða Íraka í leið sinni til betra lífs.
En ég geri mér samt grein fyrir því að það var gerð stór fórn fyrir þetta nýja tækifæri, skráð dauðsföll almennra borgara eru að nálgast 20 þúsund og er það auðvitað mörg líf. En aftur þá verður maður að lýta á heildarmyndina. Það er mjög auðvelt að skoða myndir á netinu af fórnarlömbum úr árásinni, og falla inn í tilfinningalega gryfju og vera á móti stríðinu. En þegar maður lýtur á heildarmyndina, þá getur maður komist að annarri niðurstöðu. Í fyrsta lagi þá er ekki hægt að kenna Bandaríkjamönnum um ÖLL dauðsföll sem að hafa orðið í landinu frá því innrásin hófst, þar sem Írak var eins og tímasprengja sem að Bandaríkjamenn flýttu fyrir með innrás sinni. Ef það hefði verið farið aðrar leiðir til þess að fella Saddam, þá hefði það samt ekki komið í veg fyrir uppreisnir og dauðsföll. Hversu mörg ár í viðbót átti að láta þessa þjóð þjást vegna einræðis Saddams ? Var ekki nóg að hann hafi farið í stríð og drepið meira en milljón manns ? Þarf hann endilega að verða jafn slæmur og Hitler svo það sé leyfilegt að fella hann með hernaðaraðgerðum ? Einnig má ekki lýta á þetta það einföldum augum að hvort að manneskja sé á lífi eða ekki sé það mikilvægasta, LÍFSGÆÐI segja margt líka. En hverskonar líf er það að búa í stöðugum ótta við einræðisherrann ? Hverskonar líf er það að hafa ekki frelsi til að hafa eigin skoðanir og að hafa áhrif á þróun eigin þjóðar ? Hverskonar líf er það að horfa upp á ættingja og vini deyja fyrir það að hafa skoðun eða tilheyra vissum hópi ? Írakar eru 25 MILLJÓNA MANNA ÞJÓÐ, sem að þýðir að tala látinna eftir innrásina eru í MESTA LAGI 0,4% þjóðarinnar. Er það ekki þess virði ef það bætir lífsgæði þessara rúmlega 25 milljóna manna ? Í gegnum mannkynssöguna hefur oft verið komið á betra lífi með fórnum mannslífa, og ættu Evrópubúar sjálfir að kannast við það. Ef það hefðu verið til aðrar betri leiðir til þess að frelsa Íraka, leiðir sem að hefðu ekki valdið dauðsföllum. Þá hefði ég glaður frekar viljað það en innrás Bandaríkjamanna. En ég tel því miður að það hefði aldrei verið mögulegt að breyta ástandinu í Írak án mikilla fórna og dauðsfalla.
Margir koma líka með þau rök að það séu fleiri einræðisherrar í heiminum, og tala um það eins og ástæðu fyrir því af hverju Bandaríkjamenn hefðu ekki átt að fella Saddam. Þetta er eins og að segja að það eigi ekki að handtaka einn þjóf af því að annar gengur laus úti. Bandaríkjamenn hafa einnig talað nýlega um að þeir vilji hjálpa fleiri þjóðum í að öðlast lýðræði, meðal þeirra eru Kúba, Íran, Norður-Kórea, Zimbabwe, Búrma og Hvíta-Rússland. Nú segja margir að þeir hefðu frekar átt að fara til N-Kóreu þar sem ástandið er verra þar. En maður verður náttúrulega að gera grein fyrir því að Bandaríkjamenn hafa áður farið til Íraks og lofað Írökum frelsi, auðvitað er mesta vit í því að byrja á því að klára dæmið í Írak áður en farið er eitthvað annað. Ég skal veðja að ef að Bandaríkjamenn hefðu farið beint til N-Kóreu, að þá væri sama fólk og er að gagnrýna stríðið í dag að gagnrýna þá fyrir að hafa aldrei klárað dæmið í Írak. Einnig er staðsetning Íraks alveg frábær, en lýðræði í þessu landi getur breytt öllu andrúmsloftinu í miðausturlöndum. Meðal annars í Íran og Sýrlandi sem að hafa bæði landamæri að Írak. Írakar gætu sjálfir í framtíðinni sem rík og lýðræðisleg þjóð aðstoðað önnur lönd í þessum hluta heimsins að fara sömu leið til betra lífs.
Til hamingju Írakar. Til hamingju með að vera svona hugrökk þjóð á leið ykkar til betra lífs.