Gullgrafarageðveikin á húsnæðismarkaðnum Ég er bara agndofa yfir ástandinu á húsnæðimarkaðnum, þetta er komið algjörlega út úr öllum raunveruleika.


ALLIR ÓÐIR

Maður þekkir fólk sem er núna að flýta sér að selja húsnæði sitt á tvöföldu verði, og flytja í eitthvað ódýrt. Góð viðskipti þar og gott hjá þeim. Örugglega margir að gera hið sama, en maður veltir fyrir sér hverjir það eru sem kaupa eignir á tvöföldu verði, miðað við það sem eignin kostaði 4-5 árum fyrr.

Ágangur húsnæðissölumanna er svo mikill að foreldrar mínir fá hringingar í nánast hverri viku, og fullt af auglýsingapósti frá húsnæðissölum sem óska eftir að fá að selja eignina þeirra, því jú það bráðvantar húsnæði!
Þau ætla nú ekki að selja, því þau eru komin í það húsnæði sem þau vilja vera í, enda komin yfir miðjan aldur og hafa komið sér vel fyrir.


HVERJIR VERÐA EFTIR?

En verðið á íbúðum í dag er orðið svívirðilega hátt, maður veltir því virkilega fyrir sér hvort það yfirleitt borgi sig að fara út í það ævintýri. Hvort maður vilji virkilega eyða 25-30-40 árum ævi sinnar í að borga mánaðarlega upphæð sem nær í 100 þús kallinn?

A.m.k. er þjóðfélagið okkar orðið ansi skrýtið þegar venjulegur einstaklingur, í venjulegri vinnu, getur ekki keypt sér litla íbúð því mánaðarlegar afborganir eru nærri það sama og útborguð laun! Það er nú bara til nóg af því fólk, og það er ekki í miklum minnihluta.
Það eru einfaldlega ekki allir með maka og bæði í hálaunuðum störfum.

Í fyrstu var ég mjög ánægður með að bankarnir skulu hafa komið inn á þennan markað, og ýtt niður vöxtunum og gefið íbúðalánasjóði ástæðu til að bæta kjör sín og þjónustu.
En nú sé ég hver afleiðingin er, villta vestrið! Allir græða sem eiga eitthvað fyrir, en þeir sem eiga ekki neitt þurfa að puða-puða-puða lengur og meira til að eignast eitthvað.

Einhvern veginn hélt ég að það væri óskrifuð lög um það að allir íslendingar ættu að geta eignast þak yfir höfuðið. Reyndar er mjög auðvelt að nálgast lánsfé til íbúðakaupa, en hvort fólk er í raun reiðubúið að leggja það á sig að borga alla þá peninga til baka er kannski allt annað en auðvelt mál.

Það eru alltaf einhverjir sem verða eftir þegar kapphlaupin harðna, lífsgæðakapphlaupið, íbúðakapphlaupið.
- Einstæðar mæður/feður.
- Einstaklingar
- Öryrkjar
- Láglaunafólk
- Atvinnulausir
- og aðrir

Og hverjir eru það sem virkilega hafa efni á að kaupa sér góða fasteign í dag?
- Þeir sem hafa a.m.k. 100 þús á milli handanna um hver mánaðarmót, og allavegana eitthvað til að lifa af út mánuðinn.



HVAÐ SVO?

Ég velti því fyrir mér hver staðan á þessum markaði verður eftir 2 ár, þegar þetta er allt saman yfirstaðið. Maður hefur séð svona bólur koma og fara áður, og vanalega verður algjört hrun í þeim geirum (sbr. upplýsingatækni, dot com).

Fjöldi fyrirtækja í fasteignaviðskiptum hefur margfaldast miðað við það sem var fyrir nokkrum árum síðan. 100 fasteignasölur eru skráðar á mbl.is, og ekki eru allar skráðar þar sem til eru. Munum við sjá fram á mikið af gjaldþrotum í þessum geira? Fyrirtæki kannski sem munu nota fé annarra til að bjarga sér frá gjaldþroti?
Það eiga margir eftir að lenda illa.

Hvernig verður þetta fyrir bankana þegar ljóst er að flugið á verðinu hefur ofrisið? Mun verðið hrapa? Hvað gerist þegar fólk mun svo ekki geta staðið sig í þessum afborgunum, og á eftir að borga af láni sem er e.t.v. 50% yfir raunverulegu verði eignar? Hver vill kaupa eign sem er á yfirsprengdu verði?

Ég sé fram á að í framtíðinni verður fólk fast í eign útaf of háu láni. Getur ekki selt hana og eignast eitthvað minna, því enginn vill kaupa. Fólk á eftir að verða gjaldþrota, fólk á eftir að lenda í fátækt, fólk á eftir að vanrækja eignir sínar, það verður mikill baggi á þjóðfélagið sem þarf að koma og hjálpa. Því jú, á endanum er það alltaf almenningur sem borgar brúsann.




Nú ætla ég að bíða í 2-3 ár með að kaupa íbúð, þar til 2000-3000 íbúðir standa auðar því engin eftirspurn er eftir þeim, lánin hjá bönkunum eða íbúðalánasjóði standa enn til boða, og verðið á eignum á eftir að hrapa niður og fólk þarf nauðsynlega að losna við þær hvað sem það kostar.

Verði ykkur á góðu kæru fasteignakaupendur :)