Douglas Adams, höfundur hinnar geysivinsælu bókar The Hitchhiker's Guide to the Galaxy og syrpu annarra sagna, sem almennt ganga undir þessu sama samheiti, lést af völdum hjartaáfalls á heimili sínu í Kaliforníu á föstudag, aðeins 49 ára að aldri. Tugþúsundir aðdáenda verka hans senda honum nú kveðjur sínar og þakklæti á Netinu, og þau skipta þúsundum, handklæðin sem send hafa verið á eftir honum - bæði raunveruleg og ímynduð.
Fjörtíuogtveir
42. Eins og menn ættu að vita, þá er þetta svarið við spurningu allra spurninga, spurningunni um lífið, alheiminn og allt. Verst hvað spurningin var illa orðuð og ónákvæm, menn voru engu nær þegar ofurtölvan loksins lauk útreikningum sínum og spýtti út svarinu eftir hundraða ára vinnslutíma. En þá var bara að byggja nýja tölvu, enn öflugri, mata hana á svarinu, og bíða svo nokkur hundruð ár í viðbót í þeirri sælu trú, að sú nýja mundi að lokum finna spurninguna við svarinu. 42.
Skilur eftir sig spor
Douglas Adams hefur skilið eftir sig óútmáanleg spor. Ekki bara í heimi vísindaskáldsagnanna, ekki bara í heimi bókmenntanna, heldur í þeirri veröld sem við lifum og hrærumst í almennt, ekki síst hér á Netinu, þessum nýjasta samskiptamiðli heimsins, sem tengir fólk frá öllum heimshornum á tiltölulega auðveldan, auðrataðan og ódýran hátt. Adams elskaði Netið, fyrir honum var það nýr heimur, sem rúmaði allt sem mannlegt var, allt frá hæstu hæðum hins geistlega niður í lágkúrulegustu lágkúru, og hann fílaði það allt saman í botn, enda í samræmi við lífsskoðanir hans sjálfs að allir ættu að fá tækifæri til að tjá sig, allir ættu að geta sótt sér þann fróðleik sem þá þyrsti eftir, kannað áður óþekkt lönd, sálir, heima og hugarheima, án þess að nokkur væri að skipta sér af eða skipuleggja hlutina fyrir þá. Netið er Kaos, og Kaos er eins og lífið sjálft.
Netið elskaði líka Adams, einsog auðvelt er að sjá með því að fara inn á þýðingarvef Alta Vista netleitarinnar sem nefnd er eftir Babelfisknum, sem stundum er nefndur Babblefiskur, úr bókum Adams, en það er - fyrir þá sem ekki vita það - lítill, gulur fiskur, sem settur er í eyru þeirra sem flengjast milli sólkerfa, og gerir öllum kleyft að skilja alla aðra.
Og nú syrgja íbúar Netheima þennan Nestor sinn á spjallþráðum hér og þar og alls staðar á Netinu, óska honum góðrar ferðar, senda honum handklæði - því það þarf maður jú að passa uppá þegar maður leggur upp í langferð um óravíddir geimsins, að hafa hreint handklæði - og vona að hann sé ekki alveg dauður, heldur bara fangi Vogonanna, sem eru þarna úti á gulu geimýtunum sínum að byggja hraðbraut milli sólkerfa.
Frjór hugsuður, mann- og dýravinur
Douglas Adams fæddist árið 1952 í Cambridge á Englandi. Að eigin sögn fékk hann hugmyndina að bók sinni, The Hitchhikers Guide to the Galaxy, þar sem hann lá úti á engi, létt kenndur, og nagaði strá og góndi upp í heiðbláan himininn einhvers staðar í Evrópu, þar sem hann var á puttaferðalagi með bókina A Hitchhiker's Guide to Europe í farteskinu. Átta árum seinna, árið 1978, varð þessi hugmynd að framhaldsleikriti í BBC, og 1979 kom bókin út. Síðan þá hefur hún selst í meira en 14 milljónum eintaka um heim allan, og fjórar sögur í fullri lengd bæst við syrpuna, sem almennt gengur undir heiti þeirrar fyrstu. Þær eru The Restaurant at the End of the Universe, Life, the Universe and Everything, So Long, and Thanks for All the Fish, og Mostly Harmless. Allar greina þessar sögur frá hinum ýmsu ævintýrum hins unga Breta Arthur Dent eftir að jörðinni er rutt úr vegi fyrir mistök, þar sem hún er í veginum fyrir nýrri geimhraðbraut. Hann kemst naumlega undan ásamt vini sínum Ford Prefect, geimveru sem hafði dvalið meðal okkar jarðarbúa um fimmtán ára skeið, og átti oft eftir að reynast honum betri en enginn á ævintýralegu ferðalagi hans um alheiminn.
Dent kemst fljótlega að því, að til þess að komast sæmilega af í geimnum verður hann að hafa nokkra hluti meðferðis - ekki of marga, því það verður aðeins til trafala, en ekki of fáa heldur - því sumt verður einfaldlega að vera með í för: Tannbursti, handklæði, Babelsfiskur, smá heppni og - handbók puttalingsins, bókin, sem segir þér allt sem þú þarft að vita um alla hluti, The Hitchhikers Guide to the Galaxy, en það var einmitt erindi Fords Prefects á Jörðinni (eða átylla fyrir langri dvöl hans þar), að bæta einhverjum upplýsingum um þetta afskekkta og frumstæða krummaskuð heimsins í handbókina góðu. Í þessari bók er hafsjór af fróðleik, eins og gefur að skilja, og af lýsingunum að dæma líkist hún helst öflugri lófatölvu. Það mikilvægasta sem hún segir þér er hins vegar skrifað framan á hana, stórum, leiftrandi stöfum: Don't Panic.
Sögurnar fimm eru þó miklu meira en grín og glens og ævintýr og þær eru löngu orðnar að nokkurs konar biblíu hjá hundruðum þúsunda manna um víða veröld, enda má í þeim finna hafsjó fróðleiks, speki og vangaveltna um lífið og tilveruna, tilgang lífsins og tilgangsleysi og það, hvað það þýðir að vera manneskja.
Heimssýn Douglas, einsog hún birtist í sögunum af Arthur Dent, er enda ekki sú versta, sem menn geta tekið sér til fyrirmyndar, reynt að hafa að leiðarljósi í tilverunni, þótt hann hafi ekki mælt með því að menn tækju þær of hátíðlega og væri lítið fyrir þann stall, sem sumir vildu setja hann á. Það sem gildir, er að vera með og vera meðvitaður, taka þátt. Ekki vera vondur. Ekki gleyma gleðinni, ekki missa niður hæfileikann til að hlæja. Ekki líta á hina illræmdu og illa innrættu Vogona sem óvini, heldur aðeins leiðindalið í heimsniðurrifs- og vegagerðarbransanum, sem er betra að víkja sér undan sé þess nokkur kostur. Og menn þurfa að vera leitandi, alltaf að vera leitandi. Leitandi að tilganginum með þessu öllu saman, að svarinu við öllum spurningum heimsins, að svarinu við spurningu allra spurninga - og vera færir um að lifa þá leit af og brosa, jafnvel þótt svarið við spurningu allra spurninga, þegar maður loksins finnur það, sé bara tala, sem segir manni nákvæmlega ekki neitt: 42.
,,Ég held ég hafi valdið mörgum vonbrigðum með þessu [svarinu]. Þau hafa ábyggilega átt von á einhverju stórkostlegu, einhverri upphafinni og djúpri snilld, en ég plataði þau,“ sagði Adams einhverju sinni um þetta, en hann tók sögur sínar og eigin speki hvergi nærri jafn hátíðlega og hans dyggustu aðdáendur, í hverra augum hann var nánast meira en bara hálfguð.
Það er einnig gegnumgangandi í verkum hans, að þegar ekkert vit er í nokkrum sköpuðum hlut og tilgangsleysi lífsins virðist algjört, þá ætti maður að minnsta kosti að reyna að hafa gaman af því. Það eru vissulega til vitlausari lífsreglur en þessar sem hér hafa verið taldar í henni veröld.
Yfirmaður gamanmála hjá BBC, Geoffrey Perkins, lýsti Adams sem einum frjóasta snillingi, sem nokkru sinni hefði unnið í útvarpi. ,,Hann skrifaði einhverja bestu skemmtiþáttasyrpu allra tíma, og örugglega þá hugmyndaríkustu og frumlegustu,” sagði hann um þennan fyrrverandi undirmann sinn.
Breska sjónvarpsstöðin Channel 4 setti The Hitchhikers Guide to the Galaxy í 24. sæti yfir bestu bækur aldarinnar um nýliðin aldamót, og í desember árið 1982 var Adams fyrsti rithöfundurinn síðan Ian Fleming, höfundur bókanna um James Bond, til að eiga þrjár bækur samtímis á listum New York Times og Publisher's Weekly yfir söluhæstu bækur.
Arthur Dent fær far hjá Slartibartfast
Adams var einstaklega frjór og afkastamikill maður. Hann var afkastamikill rithöfundur (hans frægasta syrpa er aðeins lítill hluti þeirra bóka sem eftir hann liggja), útvarpsmaður, sjónvarpsmaður, blaðamaður, mannvinur, dýravinur, hugsuður, handritshöfundur og framleiðandi jafnt fyrir sjónvarp sem útvarp, og síðustu árin einbeitti hann sér að Netinu, sem fyrr segir. Sjálfur segist hann hafa haft mest gaman af starfi sínu til verndar dýrum í útrýmingarhættu, en hann skrifaði meðal annars bókina Síðust sinnar tegundar ásamt dýrafræðingnum Mark Carwardine.
Bækurnar um Arthur Dent og félaga voru byggðar á útvarpshandritum Adams sjálfs. Síðar voru gerðir feikivinsælir sjónvarpsþættir eftir bókunum, og síðustu mánuði ævi sinnar vann Adams meðal annars að gerð kvikmyndahandrits eftir handbók puttaferðalangsins um alheiminn.
Árið 1999 stofnaði hann margmiðlunarfyrirtækið The Digital Village, og vísaði nafnið í hugsjón hans um alheimsþorpið, sem hann hugsaði sér talsvert öðruvísi en höfundur frasans sjálfs, Marshall MacLuhan, þegar sá ágæti maður setti hann fyrst fram. Adams flutti þá til Kaliforníu, ásamt eiginkonu sinni, Jane Belson, og dóttur þeirra, Polly, og hugðist starfa þar í framtíðinni að hinum ýmsu málum tengdum Netinu. Hann titlaði sjálfan sig sem “yfirrugludall” fyrirtækisins, sem meðal annars þróaði hinn geysivinsæla tölvuleik Starship Titanic, sem leikinn er á Netinu. Annað verkefni sem einnig var í miklu uppáhaldi hjá Adams var Netsíðan h2g2 (h2= 2xH = Hitch Hikers, g2= 2xG = Guide (to the) Galaxy) þar sem aðalefnisflokkarnir eru - jú, mikið rétt, Lífið, Alheimurinn, og Allt, og var hugsuð sem einhverslags jarðnesk útgáfa af handbók puttalingsins um alheiminn, og sótti upplýsingar sínar til allra þeirra, sem vildu leggja sitt af mörkum til að upplýsa meðbræður sína um allt sem þarf að vita um þær slóðir sem þeir dvelja á eða ferðast um.
The Digital Village var formlega lagt niður sem fyrirtæki á sunnudag, en samstarfsmenn hans hafa lýst því yfir á sérstakri heimasíðu, sem tileinkuð er minningu Adams, að þeir muni sem hópur halda minningu hans og starfi að Netmálum hátt á lofti um langa framtíð.
Á þessari sömu heimasíðu er einnig hægt að skoða og skrifa kveðjur og eftirmæli hundraða aðdáenda Adams, og það verður að segjast eins og er, að það er óvenjulegt að sjá jafn mikið af jafn tilfinningaþrungnum og einlægum textum á opinni spjallþráðarsíðu í Netheimum og einmitt þarna.
Við hér á Vísi.is þökkum Douglas Adams kærlega fyrir allt sem hann hefur gert fyrir okkur og alla þá aðra, sem lesið hafa bækur hans og kynnst öðrum verkum hans, sem og fyrir ótaldar þúsundir manna, sem hafa ekki hugmynd um að hann hafi nokkru sinni verið til, en njóta góðs af verkum hans engu að síður. Við segjum bless, og takk fyrir allan fiskinn…