Mig langar að velta upp nokkrum hlutum í sambandi við þá ákvörðun Davíðs að leyfa bandaríkjamönnum að setja Ísland á lista yfir þær þjóðir sem studdu árásarstríð þeirra gegn Írak, og kannski tengja það efni við almennar vangaveltur sem snerta samtímann.
Endilega komið með þá fleti og sjónarhorn sem ykkur finnst vanta hjá mér.
Ég segi “ákvörðun Davíðs”, því ég tel það líklegast að ákvörðunin hafi verið hans og þeirra ráðgjafa sem hann hefur í kringum sig.
Þessum lista þeirra bandaríkjamanna var auðvita klambrað saman í miklum flýti, svo þeim félögum Halldóri og Davíð er vorkun yfir að hafa ekki borið þetta undir utanríkismálanefnd eða alsherjarnefnd eða hvað þessir saumaklúbbar allir heita sem mér skilst að lögum samkvæmt hafi átt að bera mál af þessum toga undir.
Persónulega skil ég vel að þeim hafi ekki þótt það skipta neinu máli þó þeir gerðu það ekki, enda vita þeir jafn vel og við að vel upp alinn og dyggur meirihluti þeirra í öllum þessum saumaklúbbum færi aldrei að taka upp á því að vera ósammála foringjum sínum.
Að fara út í einhverja tilgangslausa umræðu á alþingi og í nefndum hefði því verið tímafrekt formsatriði sem skiptir litlu máli að var sleppt.
Allur þessi gauragangur í fjölmiðlum yfir því að ekki hafi verið rétt staðið að afgreiðslu málsins held ég að sé að mestu leiti kominn frá stjórnarandstöðunni, sem tilraun til þess að ýta undir óeiningu innan framsóknarflokksins og stjórnarsamstarfsins.
Án þess þó að ég leggi dóm á það hvort stjórnarandstaðan hafi rétt fyrir sér.
En hvers vegna ákvað Davíð að leyfa þeim að setja Ísland á þennan lista þegar hann vissi sem var að mikill meirihluti Íslendinga væri á móti því? Hversvegna að hella grárri málningu yfir hlutleysis og friðar ímynd Íslands, sem ávallt hefur stært sig af því að eiga engan her og hafa aldrei farið með stríði á hendur annarri þjóð?
Ég tel að það hafi annars vegar verið vegna þess að hann hafi sett mikið vægi á skammtíma hagsmuni samfélagsins(samanber veru herliðsins) og hins vegar vegna þeirrar ógreiddu þakkarskuldar sem þjóðin stóð í við bandaríkjamenn frá tímum seinni heimstyrjaldarinnar og kalda stríðsins.
Báðar þessar ástæður tel ég samt vera misskilning.
Það vægi sem greinilega var sett á þau rök að ef við neituðum að vera á listanum þá væri tómt mál að tala um að fá bandaríkjamenn til að halda eftir hluta af þeim herafla sem þeir hafa hér á landi, var of mikið.
Þó þessi rök séu rétt, í því samhengi að vera okkar á listanum hafi líklega frestað för bandaríska hersins um einhver ár þá er þessi listi mikilvægari en svo fyrir vitund og sögu íslensku þjóðarinnar að nokkrir milljarðar og einhverjar loftvarnir frá bandaríska hernum eigi að skipta einhverju máli við ákvarðanatökuna.
En ef við einblínum á nútímann og hagsmuni Íslands eins og þeir líta út þegar ákvörðunin er tekin, þá var þessi ákvörðun Davíðs að leyfa bandarísku áróðursmeisturunum að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða rétt. Þá er ég að tala um útfrá ákveðnu sjónarhorni sem að mínu mati er mjög þröngt, en virðist hafa orðið ofaná.
Út frá alþjóðlegu pólitísku sjónarhorni skiptir það okkur engu máli þó við settum okkur á þennan lista, samskipti okkar við þær þjóðir sem kusu að vera ekki á listanum hafa ekki beðið neinn skaða, en hefði Davíð ákveðið að láta ísland standa utan við listan hefðu samskipti okkar við bandaríkin án efa versnað á mörgum sviðum.
Þetta eru semsagt brot af þeim vangaveltum sem ég hef verið að ganga með um þetta mál, því miður er klukkan orðin svo margt að ég verð að láta hér staðar numið.
Auðvita getum við sagt að ástæðan fyrir árásarstríðinu hafi verið að fjarlægja kjarnorkuógn eða að frelsa írösku þjóðina eða að koma höndum yfir íllmennið Saddam Hussein eða að stuðla að frelsi og lýðræði í heiminum eða uppræta hryðjuverk, eða einhver önnur slagorða tilefni, en ég ákvað að sleppa því og vona að þið gerið það líka.
Eftir að hafa reynt að meta alla þætti þessarar ákvörðunar Davíðs með opnum hug, þá liggur þunginn í vægi mínu ennþá hjá friðarboðskapnum og þeirri óbilandi trú minni að stríð geti aldrei verið besta lausn á neinu vandamáli, ásamt hættunni á því að menn(ég með talinn) verði svo sannfærðir um réttmæti eigin skoðanna að þeir missi sjónar á sannleikanum, eins og stríðssaga mannskynsins ber svo mörg dæmi um.
Ákvörðunin hjá Davíð var því röng að mínu mati, en það er bara mín skoðun og gaman væri að heyra þína skoðun og ástæðurnar fyrir henni.
kv
n