
Ég hef sjálfur reynt að hafa eins opið hugarfar og ég get þegar kemur að þessari athöfn. Ég tel ekki að umskornir menn séu ógeðslegir eða með eitthvað verri kynfæri en aðrir. En sama hversu opið hugarfar ég reyni að hafa, ég get ekki verið sammála því að það sé allt í lagi að gera þetta við unga drengi. Ég trúi á frelsi einstaklingsins, bæði þegar kemur að líkama og trúarbrögðum. Og að foreldrar og læknar eigi aðeins að hafa rétt til þess að framkvæma aðgerðir á börnum ef það sé talið nauðsynlegt. Það er bæði möguleiki á kostum og göllum við það að láta umskera drengi, og því er það langt frá því að vera nauðsynleg aðgerð. Nema auðvitað það sé ljóst að drengurinn sé með vanskapaða forhúð, sem oftast sést ekki fyrr en drengurinn er orðinn allavega nokkra ára gamall. Þeir einstaklingar og samtök sem að styðja að drengir séu umskornir hafa í gegnum tíðina komið með læknisfræðileg rök fyrir því, en eins og staðan er í dag þá er búið að afsanna flest af þeim ef ekki öll. Algengustu rökin eru að það séu meiri líkur á að fá krabbamein á kynfærin eða að smitast af HIV veirunni, en nýjustu rannsóknir sýna að BÆÐI eru algengari í Bandaríkjunum heldur en t.d. í Evrópulöndum þar sem meirihluti karlmanna eru ekki umskornir. Það er erfitt að finna heilbrigðisstofnanir í dag sem að mæla með að drengir séu umskornir, nema það sé auðvitað góð ástæða fyrir því.
Jafnvel í Bandaríkjunum eru heilbrigðisstofnanir byrjaðar að mæla gegn því að drengir séu umskornir, og eru það þá aðallega læknar og foreldrar sem að vilja halda í þá hefð. Þetta er svo stór hluti af menningunni að það eru dæmi um að umskornir drengir/karlmenn lendi í félagslegum vandræðum fyrir það eitt að hafa forhúð. Það er algengt að lenda í því þar að bólfélögum þyki það ógeðslegt að vera með forhúð, og er ótti um það oft ríkjandi hjá þessum karlmönnum þegar kemur að því að sofa hjá einhverjum í fyrsta skipti. Einnig er algengt að það sé lagt drengi í einelti t.d. í sturtuklefum. Þessi félagslegi þrýstingur fær oft foreldra til þess að vilja láta umskera drengina sína, jafnvel þó þau hafi aflað sér upplýsinga og viti að það sé ónauðsynleg aðgerð.
Einnig þá eru margir í þeirri sjálfsblekkingu að þetta sé bara “tilgangslaust skinn” og því sé allt í lagi að hafa þá hefð að skera það af drengjum. Þetta er auðvitað kolrangt, en það hefur verið vísindalega sannað að forhúðin hafi hlutverk og sé þar ekki af ástæðulausu. Forhúðin á að vernda kónginn á limnum fyrir almennu áreiti og einnig halda honum rökum, en þá finnur karlmaðurinn betur fyrir snertingu á þessu svæði þegar forhúðin er dregin aftur (bæði í kynlífi og sjálfsróun). Einnig þá er mikið af taugum í sjálfri forhúðinni sem að eykur kynferðislega örvun, og sér hún einnig um að nudda kónginn þegar stundað er kynlíf og sjálfsfróun. Talið er að kóngurinn venjist áreiti hjá umskornum karlmönnum og að húðin utan um hann verði jafnvel þykkari og grófari, og því fái hin umskorni karlmaður ekki jafn mikið út úr því að fá snertingu þegar kemur að kynlífi. Eða á mannamáli þá fá karlmenn sem að hafa forhúð að meðaltali betri fullnægingu en þeir sem að eru umskornir.
Núna hef ég tekið eftir því að seinustu árin hefur verið mikið fjallað um umskurð kvenna, og þá nánast alltaf verið talað um það sem mannréttindabrot. En ætti umskurður drengja ekki líka að flokkast sem mannréttindabrot ? Ég veit vel að umskurður kvenna er mikið verra fyrirbæri og alvarlegra mál, og skil vel að það séu fleiri að berjast gegn því. En það eru samt sem áður 10x fleiri karlmenn sem að eru umskornir, og þó að þeir lendi ekki í jafn miklum skaða og konurnar þá er það samt auðvitað líka mikilvægt málefni. Þúsundir karlmanna hafa farið í aðgerðir til þess að reyna að búa til nýja forhúð, og eru líklega milljónir karlmanna sem að eru umskornir sem að hefðu viljað fá að taka þessa ákvörðun sjálfir um sinn líkama. Af hverju er í lagi að afsaka tilgangslegar aðgerðir með menningu og trúarbrögðum í vestrænum ríkjum, en ekki í Afríku ? Hvernig ætli staðan væri í heiminum ef að gyðingar og Bandaríkjamenn væru ekki að umskera drengi ? Þá væru vestræn ríki örugglega að berjast gegn því að “vondu múslimarnir” væru að umskera drengi. Ég vona að alþjóðasamfélagið fræðist betur um þetta málefni á næstu árum, og væri alveg til í að sjá alþjóðleg lög sem að flokki þessar aðgerðir sem mannréttindabrot. Ég vil annars taka það fram í lokin að ég er ekki á móti því almennt að karlmenn séu umskornir, heldur bara að það sé ákveðið fyrir ungt barn sem seinna fylgir kannski annarri menningu eða trúarbrögðum. Fullorðinn karlmaður má mín vegna ákveða að láta umskera sig ef það er hans eigið val.