- Hryðjuverkaárás var gerð í Írak í morgun, 20 manns féllu.
- Danir gáfu út viðvörun til þegna sinna í Indónesíu um væntanlega hryðjuverkaárás.
- Ariel Sharon hefur fyrirskipað öllum embættismönnum sínum að hætta samskiptum við Palestínustjórn.
- Halldór Ásgrímsson fyrrverandi utanríkisráðherra, og núverandi forsætisráðherra, gefur frá sér leiðinlega tilkynningu.
- Ekkert hefur enn fréttst af franskri fréttakonu sem rænt var í Írak.
- Davið Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og núverandi utanríkisráðherra segir eitthvað merkilegt og hnyttið.
- Tala látinna í náttúruhamförunum komin yfir 168 þúsund. Ástandið á Sri Lanka og Ache héraði í Indónesíu er hræðilegt, fullt af líkum um allt.
- Ný rannsókn hefur leitt í ljós að mengun getur aukið líkurnar á því að barn fái krabbamein. Svo virðist sem börn sem eru í mengandi umhverfi á meðan þau eru í móðurkviði séu líklegri til að látast úr krabbameini fyrir sextán ára aldur.
- Eitthvað geimfar lenti á Titan.


Jahérna, svona finnst mér fréttirnar vera dag eftir dag. Einsleitar og uppfullar af sama efninu, hryðjuverkum, ofboðslegum náttúruhamförum og mannskaða, íslensk stjórnmál sem virðast skipta öllu heimsins máli og eitthvað nýtt til að hafa áhyggjur af sem getur drepið mann.

Eru fjölmiðlar landsins orðnir komnir í svona rútínu að flytja fréttir sem geta gert fólk gráhært um aldur fram?

Reyndar ef eitthvað stórmerkilegt gerist, eitthvað jákvætt og það sem getur upplífgað og gefið fólki innlifun og von er gefin lítið vægi og oftar en ekki haft neðarlega í forgangsröð, síðasta fréttin vanalega.
T.d. geimfarið sem lenti á Títan, það eru fjölmargir sem hafa áhuga á þessu sem finnst þetta vægast sagt heillandi og spennandi. Reyndar spyr ég sjálfan mig hvor fréttin myndi fá meira vægi, “Hryðjuverkaárás í Írak” eða “Líf finnst á tunglinu Títan”.

Fréttir einsog þær eru í íslenskum fjölmiðlum í dag eru vægast sagt, og í bókstaflegri merkingu, DAUÐLEIÐINLEGAR.
Engin furða að íslendingar eiga heimsmet í neyslu þunglyndislyfja, það er nefnilega ekkert upplifgandi og hvetjandi í fréttum. Ég bara neita að trúa því að ekkert annað er að gerast í heiminum en hryðjuverk, náttúruhamfarir, niðurstöður rannsókna sem sýna nýja leiðir hvernig hægt er að drepast fyrr og Davið og Halldór aðalumræðuefnið í innlendri pólitík.


Ég er byrjaður að hlusta bara á tónlistarstöðvar þegar fréttirnar byrja, hef engan áhuga á að hlusta á svona niðurdrepandi hluti lengur.