Á tímum hörmunganna í Asíu megum við ekki gleyma því sem jákvætt og gott er. Flestir taka bara eftir því sem miður er og gleyma að halda því sem gott og vel er á lofti… Eftirfarandi er grein úr morgunblaðinu um unga stúlku sem bjargaði mannslífum og mættu fleiri svona bjartar fréttir berast inn til okkar en ekki alltaf það neikvæða.

*********************************************
Tilvitnun af Mbl.is byrjar:
“10 ára stúlka bjargaði fjölda mannslífa með landafræðiþekkingu sinni
Tíu ára stúlka bresk stúlka, Tilly Smith, bjargaði lífi fjölskyldu sinnar og um 100 ferðamanna til viðbótar á Maikhao-strönd á Phuketeyju á Tælandi á annan dag jóla er hún áttaði sig út frá því sem hún hafði nýverið lært í landafræðitíma að flóðbylgja væri í aðsigi.

Smith var í leyfi í Tælandi með foreldrum sínum og 7 ára systur er flóðbylgjan nálgaðist. Nýttist henni þá vel sem hún hafði lært um flóðbylgjur í landafræðitíma í heimabæ sínum Oxshott í Surrey skömmu fyrir jól.

Skyndilega fjaraði mjög hratt, sjórinn byrjaði að krauma og bátar virtust í kröppum sjó við sjóndeildarhring. Allt bar þetta merki þess sem ungfrú Tilly hafði lært um aðdraganda flóðbylgju í landafræðinni hálfum mánuði fyrr. Hún var fljót að átta sig á hættunni og hrópaði hvert stefndi.

Sagði hún móður sinni að fjölskyldan yrði að hypja sig strax af ströndinni því flóðbylgja gæti verið í aðsigi. Útskýrði í skyndingu að hún hafi unnið verkefni í skólanum um slík fyrirbæri og vísbendingar um að einungis nokkrar mínútur væru í risaöldur blöstu við.

Foreldrarnir létu aðra baðstrandargesti vita svo og starfsfólk hótelsins og hröðuðu allir sér á brott. Nokkrum mínútum seinna æddi flóðbylgjan á land og enginn fórst eða slasaðist alvarlega á Maikhaoströndinni.

Í viðtali við útbreiddasta blað Bretlands, The Sun þakkar ungfrú Tilly landafræðikennara sínum, Andrew Kearney, í Danes Hill-grunnskólanum í at Oxshott að fjölskylduna sakaði ekki.”
Tilvitnun af Mbl.is endar.
*********************************************

Endilega ef þið vitið um fleiri “góðar” sögur eða fréttir frá hörmungarsvæðunum .. látið þær endilega fljúga hingað inn…