Sæll veri pöpullinn.

Nú er svo komið að áramót nálgast óðfluga með öllu sínu fylleríi og bombideringum sem munu skekja flesta kofa þessa lands.
Hef ég hugsað mér gott til glóðarinnar með að freta upp nógu miklu af púðri og drekka öl og vín og vera glaður.

En það er víst hörmungarástand í heiminum.

Núna á annan dag jóla fórust t.d. tugir þúsunda íbúa og ferðamenn í flóðunum í Suður-Asíu og hundruðir sjómanna í Afríkuríkinu Sómalíu.
Rauðikrossinn, Kirkjan og fleiri stofnanir hlaupa nú um með söfnunarbauka og bíða þess að tíkall eða svo hrökkvi upp úr vösum almennings.

Ég veit það ekki en fjandinn hafi það að maður geti séð af fleiri fleiri þúsundköllum í eitthvert púðurfrat en ekki í sárkvalið fólk. Hvað er að manni?
Jújú, maður hefur svo sem hringt einu sinni í 907-2020 og látið draga einn þúsara af símreikningnum til að friða samviskuna en vá, þúsund krónur… en það örlæti!

Auðvitað þurfa okkar innlendu björgunarsveitir á stuðning að halda og er flugeldasalan stærsta fjáröflunarleið þeirra.
Bið ég því fólk ef það ætla sér á annað borð að kaupa sér fratkettur (sem ég ætla að gera) að versla við Landssamband Björgunarsveita en ekki þessa grafræningja sem vilja sneið af tertunni og koma með einhverja “ódýra flugelda”. Einhverjir sveittir kallar sem selja óþekkt drasl og eru aðeins að þessu til að belgja út pyngjur sínar.


Gleðilegt ár og megi gæfan fylgja ykkur á nýja árinu!