JÓLA HVAÐ?
Jólahugvekja með öðruvísi bragði


,,Því það var um þessar mundir…“ byrjar saga sem við þekkjum öll. ,,Legðu öndina varlega frá þér og svo getum við talað saman eins og menn…” byrjar önnur saga, sem ekki eins margir þekkja, en er engu að síður mjög áhugaverð fyrir margra hluta sakir.
Í október síðastliðnum var ég að keyra í Mosfellsbæ þegar ég heyrði allt í einu jólalag í útvarpinu. Að sjálfsögðu var mér svo um og ó við þetta að ég keyrði næstum því útaf, en einhvern veginn var mér alveg sama, því það eina sem komst að var ,,Skipta um stöð! Skipta um stöð!“. Þið megið samt ekki misskilja mig og halda að ég þoli ekki jólalög. Þvert á móti. Ég hef mjög gaman af jólalögum á Jólunum. Í október hinsvegar virka þau frekar óhuggulega á mig. Eftir að hafa róað mig niður og skipt um stöð rann það upp fyrir mér að þetta gæti bara þýtt eitt; Jólin væru að koma. Mig hafði reyndar farið að gruna það strax þegar Hagkaup og aðrar verslanir sem tengjast því að maður missir sig úr kæti þegar maður stundar viðskipti þar voru farin að skreyta í ágústlok, en þetta var endanleg staðfesting. ,,Jólin eru að koma…” tautaði ég við sjálfan mig og kveikti aftur á útvarpinu. Svo gaf ég í en keyrði strax útaf, enda risastór kú á miðjum veginum.

Já, jólin jólin alls staðar, með jólahjól, jólastrumpa, jólasveina og jólasnjó (nema, að sjálfsögðu, á aðfangadagskvöld) eru á næsta leiti og fátt sem maður getur gert til þess að stöðva þau.
Hver ætti svo sem líka að vilja það? Sá eini sem ég hef heyrt um að hafi í raun og veru reynt að stöðva jólin var Trölli, en fyrir vikið varð hann heimsfrægur og svo var gerð bíómynd um hann, sem velti milljörðum. Þegar maður spáir í því er það kannski ágætis bissness að ætla að reyna að stela jólunum, þ.e.a.s. ef maður nær að tryggja sér kvikmyndaréttinn fyrst. En að sjálfsögðu á Trölli einkaréttinn á öllu sem tengist Jólastuldi, þannig að ég verð líklega bara að reyna að stela Páskunum. Fæ vafalaust magapínu í besta falli…

Þegar ég var lítill langaði mig í allt. Hreinlega allt. Það var eiginlega ekkert sem mig langaði ekki í (nema kannski Barbie-dúkkur, en það á sér auðvitað náttúrulegar skýringar). Á hverju ári var gerður óskalisti sem var þykkari en Nælon-bókin (sumir vilja meina áhugaverðari líka), enda undirbúningsvinnan gífurleg, en hún fól meðal annars í sér bæklingasöfnun, endalaust búðarráp og sjónvarpsauglýsingagláp í miklum mæli (enda er ég með gleraugu í dag).
En eftir því sem maður eldist virðist manni langa í minna, maður spáir minna í öllu því sem viðkemur jólagjöfum og þegar maður er beðinn um að gera óskalista rekur mann í rogastans, því maður kann eiginlega ekki við að sóa heilu blaði í svo lélegan lista. Og á sama tíma eru nýjar hugsanir farnar að læðast inní kollinn á manni; Kannski þurfum við ekki gjafir. Kannski er betra að gefa en að þiggja. Kannski er mikilvægara að þeir sem eiga ekki neitt fái eitthvað, en að þeir sem eigi helling fái ennþá meira. Ég vil hins vegar meina að það sé bara ein ástæða fyrir þessum lélegu óskalistum; dótið í gamla daga var einfaldlega miklu betra en dótið sem er verið að reyna að pranga inná saklaus börn í dag!

En svona án gríns, þá er allt í lagi að stoppa endrum og sinnum og hugsa aðeins um það sem maður er að gera. Við eigum öll alltof mikið og það er enginn leið að þræta fyrir það. ,,Ég þarf að fá nýjar gallabuxur," dæsir lítil stelpa súr á svip og heldur áfram að borða ísinn sinn. En málið er að hún þarf ekki nýjar gallabuxur. Hana langar í nýjar gallabuxur. Börn í stríðshrjáðum löndum þurfa, okkur langar. Þarna liggur hundurinn grafinn. Svo þegar kemur að því að deila út gjöfunum erum það við sem fáum allt, en þau fá ekki neitt.
Við skulum hafa þetta í huga í allri gjafageðveikinni næstu dagana.

Með vinsemd, virðingu og vonum um gleðileg jól

Ævar Þór Benediktsson
"