Vegna greina hérna í nágrenninu fann ég mig knúinn til að skrifa nokkur orð til varnar gamla bákninu “þjóð”kirkjan.
Einu sinni var hún kirkja þjóðarinnar en þá var líka Jónas frá Hriflu ráðherra og Halldór Laxness uppreisnarmaðurinn. Í dag þegar sögulaus þjóð er vaxin úr grasi á Íslandi er þjóðkirkjan eins og gamall frændi í fjölskyldusamkvæmi. Eitthvað sem enginn áræðir að skipta sér af, e-ð sem fylgir og hefur tengsl við fortíðina. Enginn vogar sér að standa upp og vísa henni á rétt heimilisfang fortíðarinnar, það væri til merkis um ókurteisi.
En þar sem illa hefur verið að henni vegið hér á huga vildi ég taka upp hanskan fyrir hana en hún hefur þegar öllu er á botninn hvolft nokkuð til síns ágætis. Eins og glöggir sjá af skrifum mínum er ég ekki heittrúarmaður en ég vil samt sterkari rök fyrir afnámi þjóðkirkju en hér hafa sést ef þau eru þá til.
Hér koma mótrök við ýmsum fullyrðingum sem sést hafa á huga gegn þjóðkirkjunni. Þau eiga betur við sem heild heldur en sem molar á víð og dreif um Huga.
1. Einhver spekingurinn sá tengsl milli trúar og greindar. Þau eru ekki til! Einstein og Newton voru t.d. trúaðir en þeir glímdu við eðli náttúrunnar og hlutu frægð fyrir. Þetta segir samt ekki neitt en margur hefur notað þetta til varnar fyrir trúarbrögðin, þ.e. hversu mörg stórmenni hafa aðhyllst þau - kristni í þessu samhengi. Myndi þetta sóma sér vel í rökfræðilegum grunnskóla þeim sem margir í trúarumræðunni hér eru greinilega nýbyrjaðir í.
2. Um fjárveitingar til kirkjunnar. Eins og biskupinn hefur bent á var velta þjóðkirkjunnar 1999-2000 um 2 milljarðar á ári. Það var svipað og velta pizzustaða. Íslendingar skjóta upp flugeldum fyrir hundruði milljóna um hver áramót og svo mætti lengi telja. Fjárveitingar eru því ekki svo gríðarlegar. Ríkið fær nær alla upphæðina til baka í formi þjóðhagslegrar veltu svo að þetta segir ekki neitt.
3. Menningarlegur ávinningur af því að hafa virka þjóðkirkju er umtalsverður. Ég nenni ekki að telja upp rök fyrir því, þau eru alls staðar.
Þegjandi samkomulag er meðal allra siðaðra þjóða um að veita beri ákveðnum upphæðum til menningarmála. Þessar fjárfestingar eru um leið óarðbærar í veraldlegum skilningi. Þessi málaflokkur er gjarnan fyrst skorinn niður í harðindum en þau eru varla um þessar mundir.
4. Trúin leiðir fleira gott af sér á Íslandi en slæmt. Passíusálmarnir réttlæta lélegt og leiðinlegt messuhald frá ómunatíð en að grunni til skil ég ekki þá sem að hatast út í þjóðkirkjuna um þessar mundir.
Vil ég gjarnan fá dæmi um hvað það er sem fer svona í taugarnar á fólki við þessa blessuðu saklausu kirkju.
5. Öll hrökkvum við uppaf e-n tímann og þá er ágætt að hafa holur og klerk. Glæsileiki kirkna er viðeigandi vettvangur fyrir jarðarfarir. Þjónustan sem kirkjan veitir er yfir höfuð allt í lagi. Þótt messuhald og fleira sé út úr korti eru mikilvægustu liðir þjónustunnar framkvæmdir af metnaði.
Eigum við ekki bara að leyfa frændanum að borða hálfmánakökurnar sem enginn annar borðar. Hann er meinlaus og skapar hlýlega stemningu og getur
þegar á þarf að halda rifjað upp ættartréð. Svo hafa börnin líka gaman af honum.
Hægt er að búa til trúfrelsi með því að kasta þjóðkirkjunni fyrir hundana og stofna til trúfrelsis í trúfrelsinu en væri það ekki bara gamalt vín á nýjum belgjum?