[Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 11. desember 2004 og er orðrétt þaðan. Höfundur greinarinnar er Kristinn Pétursson fiskverkandi á Bakkafirði.]
Auglýsing í New York Times?
„ÞJÓÐARHREYFINGIN“ safnar nú fjármagni til að geta birt heilsíðuauglýsingu í New York Times – um að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafi ekki haft umboð til að setja Ísland á lista hinna staðföstu þjóða.
Höfðu þeir ekki umboð? Ísland er lýðveldi. Valdið er þrískipt skv. stjórnarskrá. Alþingi hefur löggjafarvald, dómstólar dómsvald og ríkisstjórn framkvæmdavald. Meirihluti Alþingis myndar ríkisstjórn – framkvæmdavald. Um þetta er yfirleitt ekki deilt. Hvað varðar umdeildan lista „hinna staðföstu þjóða“ þá liggur fyrir samþykkt Alþingis á gildandi varnarsamningi okkar við Bandaríkin. Alþingi hefur einnig samþykkt aðild að NATO. Í ljósi þessara staðreynda hafa ráðherrar í ríkisstjórn Íslands fullt umboð Alþingis til framkvæmda um samstarf við vestrænar lýðræðisþjóðir. Framkvæmd og ákvarðanir varðandi umdeildan lista voru í samræmi við stjórnskipun og tilgreindar samþykktir Alþingis. Frakkar voru mest skaðlegir vestrænu samstarfi í Íraksmálinu (eins og oft áður) enda frönsk ríkisfyrirtæki á bólakafi í sukki með Saddam Hussein og fengu í staðinn olíu á dúndrandi „afsláttarkjörum“. Þess vegna voru Frakkar á móti og drógu þýska grænfriðunga með sér á asnaeyrunum! Erfiðleikar í Írak í dag og önnur staða þeirra mála en ætlað var þegar ákvarðanir voru teknar um þennan lista breytir engu um að ákvarðaferlið var faglega hárrétt.
1. gr. laga um ráðherraábyrgð (nr. 4. 19. febr. 1963) hljóðar svo: „Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum eftir því sem fyrir er mælt í stjórnarskrá og lögum þessum.“ Umrædd tilvitnun staðfestir enn frekar, að framkvæmdavald er í höndum ráðherra, – ella bæru þeir ekki ábyrgðina.
Er umboð skipstjóra svona: „Skipstjóri stjórnar skipinu að höfðu samráði við neikvæða áhafnarmeðlimi“?
Umboð til stjórnunar verður að vera hreint og ótvírætt – ekki eitthvert „víðtækt kjaftæði á breiðum grundvelli“. Telji einhver í stjórnmálum að ráðherrar hafi tekið ákvörðun sem ekki stenst stjórnarskrá eða landslög á að meðhöndla málið samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð – en ekki bulla tóma steypu eða vaða með ósannindi sem auglýsingu í New York Times!
Af hverju borga félagar í „Þjóðarhreyfingunni“ ekki sína endaleysu úr eigin vasa, og auglýsa sem einstaklingar (ekki blanda Íslandi í málið!) í stað þess að plata saklaust fólk til að borga fyrir sig – þegar þeir eru að drepast úr löngun til að verða sér til skammar? Þessi Kaffihúsahreyfing“ getur svo sem auglýst eins og hún vill. En ég mótmæli því harðlega að nafni Íslands verði blandað í þessa auglýsingu. Þessi hreyfing hefur ekki umboð til að verða mér til skammar. Það er alla vega 100% öruggt.
Kristinn Pétursson fiskverkandi á Bakkafirði.