Ákvað að birta hér smá grein sem ég gerði um fjölmiðla á Íslandi, með “fjölmiðlafrumvarpsins” sem vendipunkt. Með fyrirvara um engin greinaskil, því að samkvæmt minni reynslu detta þau út og gerðu það einnig núna(að ég held) svo ég hafði línubil í stað greinaskila.
Af vettvangi umræðunnar.
Það eru stjórnarskrárvarin réttindi þegnanna að mega tjá skoðun sína í ræðu og riti án takmarkana annarra en þeirra sem siðgæði og velsæmi leiða af sér(Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands). Á Íslandi ríkir því ritfrelsi og tjáningarfrelsi. Samkvæmt því eru fjölmiðlar frjálsir. Oftar en ekki hefur staðið mikil deila á hinum ýmsu sviðum hér á landi um hvað sé í raun frjáls fjölmiðlun. Hvað er frjáls fjölmiðlun, spyrja margir. Því er ekki auðvelt að svara. Hægt er að segja að í frjálsri fjölmiðlun sé allt leyfilegt. Hugtakið greinir það þannig að minnsta kosti.
Það hefur mikið borið á því í þjóðfélagsumræðu hér á landi hvað sé leyfilegt í fjölmiðlum og hvað ekki. Fjölmiðlar eru eins og nafnið gefur til kynna miðlar sem miðla til fjöldans. Þeir helstu eru samt ljósvakamiðlar, prentmiðlar og svo sá nýjasti sem er veraldarvefurinn. Munurinn á þessum tegundum fjölmiðla felst í aðgengi að þeim sem og birtingarformi. Hér á eftir munu verða rakin nokkur atriði er varða frjálsa fjölmiðlun á Íslandi. Einkum með tilliti til fréttamiðla. Þeir eru að vísu eru af öllum stærðum og gerðum en að margra mati eru þeir sú tegund áhrifavalda og upplýsingagjafa sem hvað mikilvægastir eru í þjóðfélaginu.
Fjölmiðlarnir eru taldir fjórða valdið og þar með settir á bekk með löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómsvaldi. Þegar talað er um fjölmiðla í þessu samhengi er eðlilega verið að tala um fréttamiðlana. Sagt hefur verið að frelsi fjölmiðla sl 60 ár hafi vaxið árlega og sé í raun komið út á sín ystu mörk. Frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar hafi frelsi til að gagnrýna og fjalla neikvætt um viðburði á Vesturlöndum verið næsta takmarkalítið. Hér á Íslandi var þó í gangi önnur stefna og má segja að við Íslendingar hefðum verið lengur að taka við okkur í þessum efnum en flestar nágrannaþjóðir.
Mörg og merkileg meiðyrðamál má nefna til sögunnar. Svokölluð VL mál þar sem hópi vinstri sinnaðra manna var stefnt fyrir ummæli um herstöðvarsinna má nefna. Seinna varð frægt svokallað Spegilsmál þegar grínblaðið Spegillinn var gert upptækt og ritstjórar dæmdir vegna meiðyrða um áhrifamikla einstaklinga í þjóðlífinu.
Þetta er nú allt að breytast og frelsið orðið jafnmikið eða meira hérlendis en víða annars staðar í Evrópu. Því má slá föstu að álit almennings sé í þá veru að fréttamiðill eigi að vera frjáls og óháður öllu í kringum sig, þá sérstaklega eigendum sínum eða þeim sem leggur honum til tekjur og fjármagn. Það síðarnefnda hefur verið mikið rætt í fjölmiðlum
undanfarin misseri. Upp hefur komið umræða um að búta skuli fjölmiðlasamsteypu niður vegna eignarhalds of fárra og of stórra kaupmanna á samstæðunni. Háttvirt ríkisstjórn Íslands lagði fyrir löggjafarþingið að samþykkja frumvarp til laga um þetta efni. Hér er eins og vitað er átt við ,,fjölmiðlafrumvarpið” eða eins og andstæðingar þess kusu að kalla það, ,,Davíðsfrumvarpið”. Hér er um ákaflega áhugavert efni að ræða og þykir því rétt að gera nokkra grein fyrir þessu ágæta frumvarpi. Einnig er ætlunin að beina sjónum að þáttum sem snúa að siðareglum blaðamanna. Hvoru tveggja er áhugavert að skoða með hliðsjón af hagsmunum og velferð almennings.
Þau eru mörg þau stóru skref sem stigin hafa verið í blaðamennsku síðustu ára.
Ef við skoðum náið atburði síðustu ára er vert að geta þess að íslenskur fjölmiðlamarkaður stendur ekki undir jafn mörgum miðlum og markaðurinn í nágrannaríkjunum. Álíta má að fjármagn skorti inn í þessa grein og þennan þátt þjóðlífsins. Er nóg að líta til þess fjölda áforma um fjölmiðlafyrirtæki síðustu ár sem hafa runnið í sandinn. Þar má nefna gjaldþrot DV eða hlutafélagsins Frjálsrar fjölmiðlunar árið 2003. Einnig getum við skoðað gjaldþrot Norðurljósa sem blasti við okkur sama ár. Við þessar aðstæður komst eignarhaldið eilítið í sviðsljósið. Nú er aðstaðan sú að einungis eitt fyrirtæki, Baugur á og fjármagnar rúm 30% af fjölmiðlasamsteypu Norðurljósa. Tilkoma þessa fjármagns inn á markaðinn hefur að ýmissa mati verið góð og haft fjölbreytileg og jákvæð áhrif á fjölmiðlun hér á landi í heild sinni. Í umræðum síðustu mánaða var mikið deilt um réttmæti þessa eignahalds.
Töldu einhverjir að slík samþjöppun fjármagns hefði neikvæð áhrif, m.a. stuðlaði hún að ritskoðun og einokun upplýsingaflæðis.
En athyglisvert er að í umræðunni allri var framhjá því litið að siðareglur Blaðamannafélags Íslands eru mjög ríkur þáttur í tilveru blaðamanna og fréttamanna. Þær kveða á um hlutleysi blaðamanns og lýsa siðleysi þess að flytja hagsmunagæddar fréttir af fyrirtækjum.
Hér skal tilgreind ein af siðareglum blaðamanna á Íslandi:
5. gr. Blaðamaður varast að lenda í hagsmunaágreiningi, til dæmis með því að flytja fréttir eða frásagnir af fyrirtækjum eða hagsmunasamtökum þar sem hann á sjálfur aðild. Hann skal fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns. Blaðamaður hefur í skrifum sínum sannfæringu sína að leiðarljósi. Hann gætir þess að rugla ekki saman ritstjórnarlegu efni, sem hefur augljóst upplýsinga-og fræðslugildi, og auglýsingum í myndum og/eða máli. Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna sem skrifa undir fullu nafni afmarkaða þætti í fjölmiðlum, til dæmis gagnrýni, þar sem persónulegar skoðanir höfundar eru í fyrirrúmi.
(Siðareglur Blaðamannafélags Íslands. 1991)
Þannig hljómar 5.grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands þar sem allir ritstjórar,fréttastjórar, blaðamenn, fréttamenn og ljósmyndarar eru skyldugir að eiga aðild að.
Nokkur mál ber hátt í umræðunni um frjálsa fjölmiðla . Til dæmis skal taka fárið á fréttastofu Stöðvar 2 árið 2003. Þar var kúguðum fréttamönnum stöðvarinnar bannað að senda frétt út vegna hagsmuna fyrirtækisins sem fjalla átti um. Yfirmenn Norðurljósa, sem fréttastofan heyrir undir vildu ekki að fréttin færi í loftið vegna þess að Stöð 2 var á barmi gjaldþrots og var í viðræðum við Búnaðarbankann um lánaviðskipti. Fréttin fjallaði um það að settur fjármálaráðherra, Geir H. Haarde og nokkrir ráðandi menn í Búnaðarbankanum fóru í laxveiðiferð. Þetta þóttu stórtíðindi þar sem ekki er vel séð að ráðandi menn ríkisvaldsins haldi uppi vinskap við einkarekin fyrirtæki í sinni starfstétt, nema á jafnréttisgrundvelli. Yfirmenn Norðurljósa hringdu í fréttastjóra stöðvarinnar á sínum tíma, Karl Garðarsson og báðu um að fréttin yrði ekki send út.
Karl fór að settum fyrirmælum en einstaka fréttamenn stöðvarinnar ekki. Ber þá að nefna Árna Snævarr sem kosinn var Fréttamaður ársins 2002 á Edduverðlaunahátíðinni. Hann ásamt fleirum mótmæltu kúgun sinni. Þessum einstaklingum var stuttu síðar sagt upp. Ástæðan var sögð vera skipulagsbreytingar en sé málið skoðað nánar var uppsögnin til komin vegna mismunandi skoðana ráðandi manna og undirmanna þeirra í þessu máli. Þess ber að geta að fréttastjórinn Karl Garðarsson kom fram í beinni útsendingu með leiðréttingu á þessari frétt og sagt var að hæstvirtur fjármálaráðherra hafi ekki verið með í för þessari. Þarna kom Karl ekki rétt fram vegna þess að hann laug upp í opið geð okkar landsmanna um þetta mál því degi síðar birtu aðrir fjölmiðlar fréttina eins og hún var upphaflega og Geir H. Haarde viðurkenndi að hafa verið með í för, en einungis á þeim forsendum að för þessi hafi verið á persónulegum forsendum, ekki stjórnmálatengdum.
Þetta mál er gott dæmi um áhrif stjórnenda á fréttamiðla og brýtur í bága við settar siðareglur um hagsmuni almennings og ekki er rétt farið með hugtakið um frjálsa fjölmiðlun.
Ef vitnað er í tjáningarfrelsi Stjórnarskrár Íslands og það heimfært upp á svokallað ,,blogg”, sem er einskonar dagbók einstaklinga á veraldarvefnum skal nefnt dæmi um þegar nemanda Fjölbrautarskólans í Breiðholti var gert að fjarlægja skrif sín af sögn sem var í lausu lofti gripin um kynlífsiðnað að Kárahnjúkum, nánar tiltekið í búðum fyrirtækisins Impregilo. Talsmaður þess fyrirtækis krafðist þess að nemandi þessi eyddi skrifum sínum af vefnum til þess að slæmt orðspor kæmi ekki á fyrirtækið.
Hótað var lögreglurannsókn ef ekki yrði gert að óskum talsmannsins. Má augljóslega sjá að þetta gæti heyrt undir brot á tjáningarfrelsi. Vissulega má einnig heimfæra þetta upp á brot á siðarreglum Blaðamannafélags Íslands en vert er að geta þess að tjáningarformið sem notað var túlkar almenningur sem einskonar skoðun höfundar en ekki almenna staðhæfingu. Til er ógrynni af dæmum sem þessum og er mér rétt að bera fram nokkur til viðbótar.
Skoðum bara fjölmiðlafrumvarpið svokallaða.
Í umfjöllun um málið mátti glöggt sjá stefnu hvers og eins málshafandi í pólitískum málum. Fréttaflutningur nánast allra fjölmiðlanna var settur fram með tilliti til stefnu eigenda þeirra, og þá skal ekki einungis nefnd fjölmiðlasamsteypa Norðurljósa heldur einnig Morgunblaðið og RÚV.
Mál þetta vakti vissulega mikla athygli þar sem að fólk taldi skapbræði Davíðs Oddsonar forsætisráðherra hafa ráðið mestu um frumvarpið. Mörg dæmi eru um það að ráðist hafi verið á Davíð beint og óbeint en ástæða þess hlýtur að vera sú að fjölmiðlar sem áttu hlut að máli, fjölmiðlar Norðurljósa eins og fyrirtækið er í dag svöruðu Davíð með skotum á móti hinni meintu skapbræði .
Hér skulu tilgreind nokkur dæmi um mál þessi:
Í upphafi skal minnt að löngu áður en frumvarp hans til fjölmiðlalaga var fram lagt sagðist forsætisráðherra verða fyrir árásum frá blöðum,útvarpi og sjónvarpi.
Davíð Oddsson forsætisráðherra hélt því fram í það minnsta rúmt ár að blaðamenn hjá miðlum sem Baugur ætti hlut í væru að ganga erinda eigenda Baugs í fréttaflutningi með þeim hætti að árásir væru gerðar á ríkisstjórnina og ráðherra hennar. Ef til vill er einhver fótur fyrir þessari fullyrðingu ráðherrans. Eitt sinn í miðju Íraksstríði var eftirfarandi fyrirsögn um þvera forsíðu DV: “Davíð vill láta drepa Saddam”. Þessa fyrirsögn má rekja til þess að skömmu áður hafði Davíð sagt eftirfarandi í viðtali við útvarpsstöðina Bylgjuna: "Ég myndi nú halda miðað við allt og allt að þá þyrfti að taka hann af lífi nokkrum sinnum til þess að það væri hægt að láta sér lynda við það þannig að hann á ekkert gott skilið þessi karl”.
Það er því eðlilegt að spurt sé hver hafi verið aðdragandi þess að ríkisstjórnin ákvað að setja sérstök lög um fjölmiðla. Var ástæðan ekki einmitt gagnrýni forsætisráðherra á efnistök DV og annarra fjölmiðla og hin óvægna umfjöllun sem hann og persóna hans fengu í vissum fjölmiðlum ?
Öll umræða og umfjöllun sem málið fékk bar þessu umhverfi merki. Menn náðu aldrei til lands. Fyrrum æðstu málsvarar peninga- frelsis og óheftrar umræðu voru með takmörkunum en hinir sem sumir voru þó þekktir að öðru en að elska stórkapítalista börðust með slíkum í eignarhaldsumræðunni.
Lögin voru samþykkt á Alþingi.
Allir vita hver örlög fékk hið ágæta plagg sem lögin hafði að geyma um takmörkun á eignarhaldi að fjölmiðlum.
Forseti vor tók sér það ofurvald sem hann hefur og neitaði að staðfesta lögin. Þing var síðan kallað saman í hvelli og málinu öllu eytt, þ.m. undirritunarneituninni sjálfri með pólitískum kerfisklækjum.
Það sem enn stendur eftir og nauðsynlegt er að gerist sem allra fyrst er að upp komi lifandi umræða og umfjöllun um frjálsa fjölmiðla, skyldur blaðamanna, samband fjármagns og frétta sem og annarrar umfjöllunar. Þetta verða menn að gera þegar þeir hafa dregið djúpt andann og talið upp að tíu eftir allt fáránleikafárið á síðasta vori og hausti. Sennilega gæti niðurstaðan orðið sú að neytendurnir, fólkið í landinu hefðu eftir allt saman mestan hag að því að hér verði fjárhagslega sterkir fjölmiðlar en með félagslega, þroskaða og siðvædda blaðamannastétt sem léti ekki að stjórn annarra en þeirra grunvallarreglna sem öll blaðamennska byggir á og má geta þess hér í lok að
Ari Fróði kom í letur á kálfskinnið fyrir 900 árum síðan að missegja ætti hvergi neitt í skrifum en komi fram staðhæfing um að eitthvað annað reynist rétt þá skuli ætíð hafa það sem sannara reynist. Það ætti að teljast grundvallarregla fyrir frjálsri fjölmiðlun á Íslandi, enda tekið úr sjálfri Íslendingabók.
Heimildir:
Jón Trausti Reynisson. 2004. ,,Ráðamenn krefjast ritskoðunar” DV
Jakob Bjarnar Grétarsson. 2004. ,,Upplýsingafulltrúi stöðvar óæskilegt blogg” DV.
Kristján Guy Burgers. 2004. ,,Dræmt tekið í hugmynd um fjölmiðlaráð” DV
Guðmundur Þórir Steinþórsson. 2003. ,,Fjölmiðlafár Norðurljósa”.
Vefritið Heimskringla. ,,Nútíma fjölmiðlun”. Leiðari .
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands. 1991.
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. 73. gr.
Endilega komið með ykkar álit á þessu.