Skandall í Úkraínu Forsetakosningar fóru nýlega fram í Úkraínu og þar áttust við tveir Viktorar, annar Janúkóvits og hinn Júsénkó. Janúkóvits vann kosningarnar og eftir það ætlaði allt um koll að keyra í Úkraínu og var jafnvel talað um að borgarastyrjöld þar í landi væri á leiðinni.

Æstur múgurinn, sem studdi Júsénkó taldi að svindlað hafi verið á honum þótt ég hafi aldrei heyrt nein rök fyrir því, rauk út á göturnar og lét ófriðsamlega og krafðist þess ýmist að Júsénkó yrði krýndur forseti eða þá að nýjar forsetakosningar færu fram.

Það má með ólíkindum teljast að það sé talið að um kosningasvik sé að ræða og að menn einfaldlega gefi sér það án þess að almennileg rök liggi á bakvið það enda tel ég að sanna hefði þurft það mun betur áður en ákveðið var nú nýlega að boða til nýrra kosninga í landinu.

Það virðist vera raunin í fyrrverandi Sovíetríkjunum að þótt þau séu frekar nýlega laus undan kommúnisma að þá hafi kommúnisminn í raun aldrei liðið undir lok í Austur-Evrópu, enda eiga kommúnistar mikið fylgi í t.d. Rússlandi og Póllandi.

Það versta er þó að kommúnisminn er þegar búinn að ná gífurlegri kjölfestu í Evrópu undir formerkjum Evrópusambandsins sem líkt og kommúnistaflokkurinn sálugi vill sameina Evrópu undir jafnaðarstefnuna, hefta málfrelsi og hagræða úrslitum kosninga.

Stuðningsmaður þessa sambands er einmitt Viktor Júsénkó sem nú nýlega tapaði kosningunum, þegar ljóst var að hann tapaði kosningunum leitaði hann strax á náðir ESB og krafðist aðgerða.

ESB sem hefur áður á ólýðræðislegan hátt blandað sér inn í kosningar í Austurríki og stuðlað þar að því að dregið var stórlega úr áhrifum flokks sem rúmlega fjórðungur kjósenda kaus, ákvað að gera mikið veður úr úrslitum þessara kosninga í Úkraínu og barðist fyrir því að boðað yrði til nýrra kosninga einfaldlega vegna þess að þeir vilja koma manni að sem styður Evrópusambandið en Viktor Janúkóvits sem sigraði kosningarnar gerir það ekki.

Þeim tókst hreinlega að gera allt brjálað um vesturlöndin sem olli slíkum þrýstingi að hæstiréttur Úkraínu var í raun neyddur til að taka upp mál þetta og ógilti hin fyrri úrslit kosninganna.

Það er verulega slæm staða í Evrópu að bandalag sem hefur það að markmiði sínu að semja sameiginlega stjórnarskrá fyrir Evrópu og draga þar með úr sjálfstæði allra þjóða, skuli vera að vaxa og verða verra skrímsli en kommúnisminn var á sínum tíma, þar sem kommúnisminn náði aldrei að festa fótum í jafn mörg lönd og Evrópusambandið er að gera í dag.

Það verður að stöðva þetta bandalag áður en verr fer og hver þjóð verður að geta stjórnað sér sjálf og við verðum einfaldlega að passa upp á að Evrópusambandið geti ekki breytt vilja fólksins í Evrópu um hvaða flokk eða hvaða forseta það velur.

Lönd okkar voru byggð upp með sjálfstæði landsmanna í huga og öll óþjóðleg öfl verður að stöðva ef ekki á illa að fara en þetta kosningahneyksli í Úkraínu er gott dæmi um það hvernig hlutirnir geta farið úr böndunum.

Því það sést t.d. í Úkraínu hversu ólýðræðislegt Evrópusambandið er þrátt fyrir predikanir þeirra um lýðræði. Þeim er sama um vilja fólksins og vilja bara koma sínu fólki að og beita hvaða aðferðum sem er til þess.

Við getum ekki látið þetta lýðast. Evrópusambandið þarf að stöðva sem fyrst.

Upprunalega birt á www.egoisti.tk endurbirt á huga vegna beiðni greinahöfundar, Big John.
Mortal men doomed to die!