Kæru vinir
Í gær horfði ég á Ómar Ragnarsson dásama það land sem á að fara undir Hálslón við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og hafði gaman af. Það er náttúrlega ótrúleg óskammfeilni í ráðamönnum þjóðarinnar og ekki síður Landsvirkjunar að halda því fram að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að virkja Jökulsá á Dal. Lónið sem á að stjórna rennsli í virkjunina verður ónýtt á 400 árum og eftir verðu 70 metra þykkt lag af rokgjörnum jökulleir, öðru nafni eyðimörk. Landsvirkjunarmenn sögðu meira að segja að það væri ekki rétt að hugsa svona virkjanir til lengir tíma en 100 ára! Það getur hreinlega ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt að stofna til gríðarlegra erlendra skulda (ekki síst þegar krónan er nú eins og hún er), binda alla orkuna í stopulli álframleiðslu fyrir erlend stórfyrirtæki og segja svo eftir 100 ár. Jæja, þá er þetta búið. Næsta virkjun takk!
Nú verður allt að verða vitlaust. Ríkisstjórnin veður áfram með hroka og svívirðingum í garð þjóðarinnar og reynir að halda því fram að annað tveggja séum við of heimsk til að skilja fyrirætlanir hennar eða þá að málin komi okkur ekki við. Þjóðin þarf að standa aðeins upp á afturlappirnar og minna þessa fínu kalla á það hver það er sem veitir þeim umboð til þess að stjórna. Ég vaknaði með þá snilldarhugmynd í morgun að taka skúringafötuna mína, fara út í sandkassa og fylla hana til hálfs með sandi, bæta svo vatni út í, ryðjast inn á skrifstofu umhverfisráðherra og hella öllu saman yfir skrifborðið hennar. Síðan útfærði ég hugmyndina á stærri skala og er að spá hvort ekki sé betra að fá steypubíl, fullan af jökulleir og vatni og láta hann dæla drullunni á tröppur alþingishússins. Allavegana þarf að loka umhverfisráðuneyti Framsóknarflokks vegna þess að það er með öllu óþarft.