Þú skrifar með stórum stöfum, Löglega ríkið Ísrael – þetta er alrangt hjá þér. Ísrael er ekki löglegt ríki! Sameinuðu þjóðirnar samþykktu að skipta Palestínu í tvennt árið 1947, eitt ríki fyrir Gyðinga og annað fyrir þá Araba sem bjuggu fyrir í landinu (um aldamótin 1900 voru 85% íbúar landsins Palestínu-Arabar (bæði kristnir og múslimar) en gyðingar voru um 10% af íbúum. Tillagan var gyðingum í hag hvað varðar stærð landsins og gæði. Palestínumenn voru alfarið á móti því að þurfa að láta af hendi eigið land til að gjalda fyrir hvað Gyðingar höfðu þurft að ganga í gegnum í helförinni. Palestínu-arabar höfðu búið á þessu svæði í þúsund ár, ef ekki þúsundir ára. En Ísrael er ekki á því svæði sem þeim var úthlutað upphaflega. Þeir hafa sölsað undir sig landsvæði, með hervaldi = þeir hafa hernumið land Palestínumanna = Palestínumenn eru að berjast gegn hernámi.
Samkvæmt skýrslu ísraelsku mannréttindasamtakanna BTselem frá árinu 2002 hefur Ísrael tekið leynilega um 42% af landi Palestínumanna á Vesturbakkanum (Guardian, 20. maí 2002). Landtakan brýtur í bága við alþjóðleg mannúðarlög og sjálft landnámið er ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum (Tekið af www.murinn.is, 20. maí 2002).
Arafat sagði í sinni fyrstu ræðu hjá Sameinuðu Þjóðunum árið 1974: „Ég stend hér vopnaður byssu frelsisbaráttumanns í annarri hendi og ólívugrein í hinni. Ég segi við ykkur kæru meðbræður hvora viljið þið hjálpa mér að velja”. Það þarf varla að taka það fram að ólívugrein er táknræn fyrir frið.
Árið 1988 lýsti Arafat yfir sjálfstæði Palestínu, það er Gaza og Vesturbakkanum að meðtalinni Austur-Jerúsalem. Yfirlýsing Arafats fól í sér stórkostlega eftirgjöf. Viðurkenningu á Ísraelsríki og eftirgjöf á það landsvæði sem Ísrael hertók á árunum 1948-1949. Landamærin skildu miðast við grænu línuna frá 1949.
Leynilegar friðarviðræður sem Arafat átti við Ísraelsstjórn leiddu svo til Oslóar-samkomulagsins árið 1993. Samkomulagið fól í sér að Ísraelar skyldu skila herteknu landi í samræmi við ályktanir Öryggisráðsins. En Ísraelar hafa ekki skilað landinu, þeir hafa aukið landnemabyggðir á svæðinu, dregið úr ferðafrelsi fólks, jafnað heilu íbúðarhverfin til jörðu og lengi mætti áfram telja. Á tímabilinu mars2001 til júlí 2003 voru rúmlega 60 gyðingabyggðir reistar á landsvæðum sem tekin voru af Palestínumönnum. Á þessum tíma er ekkert dæmi um að Palestínumenn hafi tekið sér ísraelskt land og reist sér byggð þar. Frá 29. september árið 2000 hefur eitt heimili Ísraelsmanna verið eyðilagt. Á sama tímabili hafa 2202 heimili Palestínumanna verið lögð algjörlega í rúst (14436 eyðilögð að hluta).
Palestínumenn hafa sýnt friðarvilja. Þeir hafa samþykkt samkomulög sem er þeim mjög í óhag, þeir hafa samþykkt að afsala sér mikinn hluta af landi sem með réttu er þeirra, þeir hafa viðurkennt tilvist Ísraelsríki. En það sem þeir neita að gefa eftir, er réttur flóttamanna til að snúa heim, réttur sem öllum er tryggður af (að mig minnir) Sameinuðu Þjóðunum. En það er það sem Ísraelsmenn harðneita að samþykkja.
Smá tölfræði í lokin:
Frá 29. september árið 2000 hafa 6.709 Ísraelar og 28.135 Palestínumenn særst í átökunum. Á þessum tíma hafa 989 Ísraelar látið lífið í átökunum en 2.438 Palestínumenn. 117 Ísraelsk börn hafa látið lífi fyrir hendi Palestínumanna. Á sama tíma hafa 647 Palestínsk börn falli fyrir hendi Ísraelsmanna.
Heimildir:
Allar tölfræðiupplýsingar eru fengnar af vefsíðunni
http://www.ifamericanknew.org.http://www.murinn.is