Rapprímur Móra, fíkniefnalögreglan, forvarnir og staðan í vímuefnamálum á Íslandi

Þegar geislaplatan Móri kom út árið 2002 fannst mörgum að þar væri á ferðinni skýrmæltasti rappari landsins. Móri veitti mönnum sjaldgæfa innsýn í heim íslenskra fíkniefnasala og tók afdráttarlausa afstöðu með lögleiðingu kannabisefna. Textasmíð hans olli þáttaskilum að þessu leyti. Þótt ýmsir tónlistarmenn hafi fjallað um kannabisneyslu í textum sínum, eins og t.d. hljómsveitin Trúbrot í verkinu Lifun (,,My friend and I“), Stuðmenn á hljómplötunni Sumar á Sýrlandi og Megas (,,Vertu mér samferða inn í blómalandið amma”) var boðskapurinn jafnan undir rós og fæstum skiljanlegur nema helst þeim sem höfðu kynnst kannabisneyslu af eigin raun. Hér verður greint frá ýmsu sem kemur upp í hugann við það að hlusta á rapprímur Móra um vímuefnamál. Að sjálfsögðu eru þetta mínar eigin hugleiðingar sem þurfa ekki að endurspegla á neinn hátt viðhorf Móra til viðfangsefnisins.

Tónlistarmaðurinn Móri sagði í viðtali við DV 14. mars 2003: ,,Fíkniefnalaust Ísland árið 2002 … Þegar ég heyrði þetta slagorð stjórnvalda í fyrsta sinn var mér hlátur efst í huga. Hvernig í ósköpunum datt þeim í hug að þeir gætu stöðvað útbreiðslu fíkniefna hér á landi, og það fyrir árið 2002? Refsistefna stjórnvalda hefur, einsog í mörgum okkar nágrannalöndum, aðeins gert illt verra. Lengri fíkniefnadómar gera það að verkum að verð á efnunum hækkar út af aukinni áhættu sala og smyglara. Harka verður meiri og menn leggja meira á sig við að forðast handtöku. Gróði salanna eykst, glæpatíðni eykst og vopnum fjölgar. Þetta er raunveruleiki sem margar Vesturlandaþjóðir búa við og eru yfirvöld þeirra landa stöðugt að leita leiða út úr þeim vítahring sem refsistefnan er. Lítið nú í eigin barm, Íslendingar, er ástandið að skána … eða er það að versna? Það er kominn tími til að taka aðra stefnu þegar kemur að því að leysa þennan vanda, það er augljóst. Af hverju reynið þið alltaf að notast við lausnir sem þegar hafa brugðist öðrum?“

Bubbi Morthens er líklega með fyrstu íslensku tónskáldunum sem fjallaði skýrt og skorinort um neyslu ólöglegra vímugjafa. Hann gerði gott betur. Í viðtölum sínum við blaðamenn gagnrýndi hann tvískinnungsháttinn og hræsnina sem hefur jafnan einkennt afstöðu landans til bannfærðra vímuefna. Bubbi reif kjaft við yfirvaldið og varð þannig nauðsynlegur farvegur fyrir óánægju andófsafla sem engan málsvara höfðu. Þegar Ísbjarnarblús Bubba kom út árið 1980 og hljómplatan The Boys from Chicago eftir Tolla þremur árum síðar var gífurleg undiralda í þjóðfélaginu. Það er til marks um þrúgandi bannhelgina sem einkennir umfjöllun um vímuefni að lagið ,,Afgan”, sem er á plötunni Fingraför (1983), hét upphaflega ,,Svartur afgan“. Steinar Berg, útgefandi Bubba á þeim tíma, hafnaði hins vegar heiti lagsins því ,,það kæmi hreint ekki til greina að gefa út lag sem bæri nafn eiturlyfs”.

Í andrúmslofti ótta og launungar - þar sem hver og einn reyndi eftir fremsta megni að hylja slóð sína og fela fyrir öðrum neysluna - söng Bubbi Morthens óhræddur um að hann ætli með ,,kíló af hassi út í náttúruna og fíla grasið þar sem það grær". Árið 1980 var yfirlýsing af þessu tagi ekki bara byltingarkennd heldur virðingaverð. Bubbi gekk undan með góðu fordæmi. Hann sá enga ástæðu til að skammast sín fyrir að neyta annarra vímuefna en þeirra sem ríkið leyfir og selur dýrum dómi í sérverslunum sínum. Það voru ekki margir sem voru tilbúnir að ræða fordómalaust um ólögleg vímuefni eða verja neytendur þeirra gegn ranglátum dómi almenningsálitsins á þessum árum. Sigurður Guðjónsson var einn fárra rithöfunda sem gagnrýndi meðferð yfirvalda á þeim sem teknir voru fyrir neyslu eða sölu hass og LSD (Í leit að sjálfum sér, 1976). Hann beindi kastljósinu að fíkniefnadómstólnum og fullyrti að með stofnun hans væri ,,engu líkara en að [menn] hafi villzt í réttarsögunni tvö hundruð ár aftur í tímann“.

Rannsóknarréttarfar fíkniefnadómstólsins

Það má til sanns vegar færa. Þegar sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum var stofnaður árið 1973 var til dæmis vikið frá þeirri meginreglu íslensks refsiréttarfars frá árinu 1951 að skilja að rannsókn og dómsmeðferð. Fyrir utan það að vera sérsdómstóll, stofnaður gagngert til að dæma í einni tegund brotamála og með allt landið sem lögsögu, var tekið upp rannsóknarréttarfar þegar kom að fíkniefnamálum í líkingu við það sem tíðkaðist hjá spænska rannsóknarréttinum á miðöldum. Fíkniefnadómarinn skyldi hafa frumkvæði og yfirumsjón með rannsókn mála, auk þess að dæma svo í þeim að rannsókn lokinni. Þetta þýddi að sakborningur í fíkniefnamáli hérlendis mátti eiga von á því að einn og sami maðurinn léti handtaka hann, dæmdi hann í gæsluvarðhald, yfirheyrði hann á meðan á því stæði, framlengdi það ef þurfa þætti og dæmdi hann svo á endanum til þeirrar refsingar sem honum þótti hæfa brotinu. Í stað þess að mótmæla þessari lögleysu, sem einkenndi reyndar réttarfar á landsbyggðinni almennt, kusu fjölmiðlar að þegja þunnu hljóði. Hvorki þingmenn né lögspekingar sáu almennt ástæðu til að gagnrýna þetta fyrirkomulag sem var ekki í neinu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til réttarfars í lýðræðisríki. Þessi skipan hélt allt fram til ársins 1992 er gerðar voru umfangsmiklar réttarfarsbreytingar í kjölfar málareksturs gegn íslenska ríkinu fyrir Mannréttindanefnd Evrópu.

”Það eru ekki margir sem eru tilbúnir að ræða fordómalaust um ólögleg vímuefni eða verja neytendur þeirra gegn ranglátum dómi almenningsálitsins.“

ég var
tekinn fyrir utan / heimilið mitt
þeir leituðu á mér í leyfisleysi og tóku allt mitt shit
allir út í glugga að fylgjast með
ég / verð að búa hérna / please ekki bösta mig hér
bara út af því / að ég reyki /
halda allir grannarnir / að hér sé / djöfullinn á kreiki
hvað með það / þótt ég hausinn á mér steiki
það er / löggunni líkt / að / leika svona leiki
þeir tóku af mér lyklana og óðu bara inn
höfðu enga heimild / og ég beint í steininn
þeir fóru inn á skónum / rústuðu öllu inni
stálu meira að segja nektarmyndum af konunni minni
gæludýrin fengu / ekki í / sólarhring að éta
/ spilltar löggur / kunna ekki líf að meta
skjaldbökumorðingjar / allir upp til hópa
og Ingi lögga / það vita allir að þú ert að kóka.

- Spilltar löggur


Hneykslismálin hrúgast upp

Utangarðsmenn og aðrir uppreisnarmenn í tónlist veittu innibyrgðri og uppsafnaðri reiði útrás. Þetta átti ekki síst við um neytendur kannabisefna sem þurftu þá - ekki síður en nú - að þola stöðugar og lítt dulbúnar ofsóknir af hendi ríkisvaldsins. Heimildarlaust var ruðst inn á heimili þeirra og þar öllu snúið á hvolf í leit að vímuefnum eða þeir stöðvaðir á götum úti og farið fram á að þeir tæmdu vasa sína. Stundum vöktu þessar aðfarir mikla athygli á þéttsetnum kaffihúsum þegar hópur galvaskra fíkniefnalögreglumanna umkringdu skyndilega ,,dópistann” þar sem hann sat í mestu makindum að drekka kaffið sitt. Ef vel bar í veiði og eitthvað fannst á hinum grunaða var hann jafnvel handjárnaður og leiddur út eins og um lífshættulegan morðingja væri að ræða. Mörg dæmi eru um að símar meintra vímuefnaneytenda hafi verið hleraðir og bögglar þeirra og sendibréf opnuð í þeirri trú að þar kynni kannski að leynast hassmoli, spítt eða sýra.

Í viðtali við DV, sem áður hefur verið vitnað til, segir Móri um afnám banns á sölu kannabisefna: ,,Til að nálgast kannabisefni eins og ástandið er í dag þarf neytandinn að leita til svokallaðra dópsala, sem hafa margir hverjir upp á ýmislegt fleira að bjóða en bara kannabisefni og finnst mér það ekki skrýtið að reykingafólk leiðist út í harðari neyslu undir slíkum kringumstæðum. Ef sala kannabis færi hins vegar fram, t.d. í apótekum, myndi það í mesta lagi hvetja grashausa Íslands til þess að kaupa sér vítamín og hreinlætisvörur og hefðu þeir sjúklingar sem gagn hafa af lækningaeiginleikum jurtarinnar þannig greiðan aðgang að henni. Svo ekki sé minnst á það að ef kannabis væri tekið af svörtum markaði og selt fyrir opnum dyrum væri hægt að nota peningana sem nú renna í vasa dópsalanna til að efla forvarnir gegn notkun harðari efna.“

menn sem vilja / leika mig grátt
sækja að mér úr hverri einustu átt
ég sef / með annað augað opið upp á gátt
þú einfaldlega verður bara að taka nojuna í sátt
…………….

-Atvinnukrimmi

Fíkniefnalögreglunni voru gefnar frjálsar hendur áratugum saman án þess að skýrar vinnureglur lægju fyrir um það hvað teldust réttmætar starfsaðferðir. Fyrir vikið skorti fíkniefnalögregluna aga sem átti eftir að leiða til hneykslismála er dró verulega úr trausti og virðingu lögreglunnar almennt. Þar er helst að nefna byssuleyfismálið svonefnda, þ.e. náið samstarf fíkniefnadeildarinnar við Franklín Steiner sem fullyrt er að hafi starfað sem uppljóstrari fyrir lögregluna gegn því að fá að stunda fíkniefnasölu óáreittur. Nokkru síðar kom í ljós að tæplega 3 og ½ kíló af vímuefnum hafði horfið úr geymslum lögreglunnar - þar af um 56 grömm af kókaíni, rúmlega hálft kíló af amfetamíni og nálega þrjú kíló af hassi. Ragnari Hall lögmanni var falið að finna skýringu á vöntun umræddra fíkniefna og var litlu nær.

Atli Gíslason lögmaður var skipaður sérstakur ríkissaksóknari til að fara í saumana á samstarfi fíkniefnalögreglunnar við Franklín Steiner. Hann tók starf sitt alvarlega og vann það með slíkum ágætum að skýrsla hans um málið hefur aldrei verið birt almenningi. Þingmenn sem fóru fram á rannsóknina fengu ekki einu sinni að lesa skýrsluna. Dómsmálaráðherra var í hugum margra ábyrgur fyrir ófremdarástandinu. Hann lét hjá líða að setja skýrar reglur um óhefðbundnar löggæsluaðferðir þrátt fyrir að yfirmenn fíkniefnadeildarinnar hafi ítrekað farið fram á slíkt.

”Í ljós kom að tæplega 3 og ½ kíló af vímuefnum hafði horfið úr geymslum lögreglunnar - þar af um 56 grömm af kókaíni, rúmlega hálft kíló af amfetamíni og nálega þrjú kíló af hassi.“
löggan hún lýgur / og svíkur
þú veist ekki sannleikann / fyrr en / um / yfir líkur
þú veist þú hefur rétt til þess að þegja
það er ekki betra að tala / ekki trúa / orði sem þeir
segja
þeir geta bara haldið þér í tuttugu og fjóra
en það er lífstíðardómur / að segja frá honum Móra
þeir geta ekkert gert ef þú neitar bara öllu
ha. ég. nei. ég kannast ekkert við þessa möllu
ef þú segir ekkert þá er ekkert hægt að sanna
og að klína þessu á annan / það er alveg bannað
það er vissara að láta / það / vera ókannað
hvernig er að vera skotmark harðnaðra glæpamanna.
……………..

- Spilltar löggur

Leyniaðgerðir fíkniefnadeildarinnar

Hugtakið ,,óhefðbundnar löggæsluaðferðir” felur meðal annars í sér að lögreglan starfi á laun, kaupi sem dæmi fíkniefni og handtaki síðan seljandann, beiti tálbeitum í því skyni að framkalla afbrot, greiði uppljóstrurum fyrir upplýsingar, hleri síma og vistarverur, veiti einstaklingum eftirför o.s.frv. Þegar Atli Gíslason hafði skilað skýrslu sinni var skipuð nefnd sem mótaði loks tillögur um hvernig leynilegum aðferðum fíkniefnalögreglunnar skyldi háttað. Sumum þótti ámælisvert að yfirmenn dómsmála skuli hafa látið reka á reiðanum í jafn mikilvægum málaflokki og þeim er varðar grundavallar réttaröryggi borgaranna. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar lét sér þó þetta í léttu rúmi liggja. Almenningur hefur ekki trú á því að leyniþjónustustarfsemi af þessu tagi beinist gegn sér persónulega. Það væri ekki sanngjarnt. Öðru máli gegnir hins vegar um fíkniefnasala og fíkniefnaneytendur. Þeir eru, að sumra mati, annars flokks borgarar sem eiga ekki að njóta sama réttaröryggis og aðrir þjóðfélagsþegnar.

Dómarar og þingmenn virðast vera á sama máli. Fíkniefnalögreglan framkvæmir árlega húsleitir svo hundruðum skiptir, ýmist með eða án heimildar dómara. Slík vinnubrögð þykja ekki viðeigandi í siðmenntuðum ríkjum en löggjafarvaldið gerir engar athugasemdir. Dómarar eru einnig fúsir að koma til móts við kröfur lögreglunnar um símahleranir. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur skýrir til dæmis frá því í bók sinni Afbrot og Íslendingar að á árunum 1992-1995 hafi íslenskir dómstólar heimilað símahlerun í 29 tilvikum sem tengdust öll fíkniefnabrotum. Á þessu tímabili var beiðni lögreglunnar til hlerunar aldrei hafnað. Nýlega mátti litlu muna að samþykkt yrðu lög sem veittu lögreglunni heimild til að hlera síma í tæpan sólarhring án dómsúrskurðar! Af þessu sést að ráðamenn eru tilbúnir að skerða borgaraleg réttindi undir því yfirskini að með því séu þeir, eins Hjálmar Árnason, þingflokksmaður Framsóknaflokksins, orðaði það, að ,,bjarga fólki frá því að ánetjast fíkniefnum“.

Hjálmar Árnason formaður þingflokks Framsóknarflokksins er eindreginn stuðningsmaður þess að fyrirtæki landsins stundi vímuefnaprófanir á starfsmönnum sínum. Sjálfsagt gengur hann út frá því sem vísu, að fyrst að slíkar lyfjaprófanir tíðkast á annað borð í Bandaríkjunum, hljóti þær málinu samkvæmt að skila þeim árangri að draga úr vímuefnanotkun og gera vinnustaði öruggari. Rannsóknir opinberra aðila sýna hins vegar allt aðra niðurstöðu. Sjá t.d. Drug Testing and Labor Productivity: Estimates Applying a Production Function Model og Making Sense of Student Drug Testing - Why Educators are Saying No. Vísindalegar rannsóknir á lyfjaprófunum síðustu tvo áratugi sýna ítrekað að þær draga ekki úr vímuefnanotkun, tryggja ekki aukin vinnuafköst né veita þær neinar marktækar upplýsingar um getu starfsmanna. Auk þess sem ekki er hægt að útiloka rangar niðurstöður úr prófunum sjálfum. Það væri óskandi að menn sem vilja hafa vit fyrir öðrum, eins og Hjálmar Árnason þingmaður, væru aflögufærir um vit eða gæfu sér að minnsta kosti tíma til að kynna sér málavöxtu áður en þeir beruðu vanþekkingu sína úr ræðustól á Alþingi.

,,Mannréttindabarátta” þingmanna fyrir vímuefnaprófunum

Í umræðu á Alþingi fullyrti sami þingmaður að það væri ,,mannréttindi“ að fá að taka lífsýni úr fólki til að leita að neytendum ólöglegra vímuefna. ,,Við skulum minnast þess,” sagði hann ,,að þeir sem ekki eru í dópi óttast ekkert og hafa ekkert að óttast. Þeir munu þvert á móti fagna. Það eru dópistar og ekki síst fíkniefnasalar sem verða hræddir við hertar aðgerðir. Það eru mannréttindi að losa umhverfið undan fíkniefnum og … styrkja [þarf] slíkt ferli með upplýstu samþykki og viðurkenndu eftirliti.“4 Kannski ætti Hjálmar Árnason, eins og aðrir þingmenn, borgarfulltrúar og æðstu embættismenn ríkisins, að ganga undan með góðu fordæmi og láta lyfjaprófa í sér hlandið með reglulegu millibili. Eiga þeir ekki rétt á því, eins og aðrir starfsmenn, að mannréttindi þeirra séu virt í hvívetna?

Skömmu áður en sumir þingmanna hófu baráttu fyrir því að fá að taka lífsýni úr fólki sendi Ólafur Skorrdal ljóðskáld og talsmaður afnám banns gegn kannabisefnum fyrirspurn til Ríkislögreglustjóra þar sem hann spurði hvort lögreglumenn gengust undir sýnatöku eða vímuefnapróf. Í svari dómsmálaráðuneytisins kom fram að svo væri ekki, þar sem slíkt bryti í bága við lög. Þar segir m.a.: ,,Til að lögreglan framkvæmi slíka rannsókn þarf að vera fyrir hendi rökstuddur grunur um lögbrot og gildir þá einu hvort sá einstaklingur er lögreglumaður eða ekki. Heimild til líkamsrannsóknar (líkamsskoðunar) grundvallast á 92., 93. og 96. gr. laga um meðferð opinbera mála nr. 19/1991. Ekki er tilefni til að leggja þær kvaðir á lögreglumenn sem þú nefnir í fyrirspurn þinni.”

“Að meðaltali 25 prósent lífsýnistaka sýna ranga niðurstöðu. Þetta þýðir að ef eitt hundrað launþegar eru látnir ganga undir vímuefnapróf má að meðaltali fjórðungur þeirra eiga von á því að missa vinnuna að ósekju.”
Þetta svar barst hins vegar áður en Alcan fór fram á það við íslensk stjórnvöld að starfsmenn álversins í Straumsvík yrðu látnir gangast undir slík próf. Fyrirtækið vildi ,,áskilja sér rétt til að kalla menn í rannsókn hvenær sem er“. Sú krafa er í samræmi við þróunina í Norður-Ameríku þar sem lyfjaprófanir starfsfólks og nemenda eru orðin stór og arðbær iðngrein sem veltir árlega milljarða Bandaríkjadala. Bandarísk stjórnvöld lyfjaprófa um 20 milljónir Bandaríkjamanna á ári hverju og greiða fyrir það einn milljarð dollara. Hver er síðan árangurinn af þessu kostnaðarsama eftirliti? Samkvæmt rannsóknum sömu stjórnvalda hafa lyfjaprófanir ekki dregið úr vímuefnanotkun, þær örva hvorki vinnuafköst né veita neinar upplýsingar um starfsgetu starfsmanna. Kannanir hafa reyndar sýnt fram á að fyrirtæki sem stunda lífsýnistöku á eigin starfsfólki skila minni framleiðni en fyrirtæki sem fara ekki fram á slíkt!5 Það sem er jafnvel ennþá alvarlegra í þessu sambandi, eins og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á í þingumræðu um málið, þá eiga iðulega sér stað mistök við slíkar sýnatökur. Að meðaltali 25 prósent (stundum allt að 66 prósent) slíkra rannsókna sýna ranga niðurstöðu. Þetta þýðir með öðrum orðum að ef eitt hundrað launþegar eru látnir ganga undir vímuefnapróf má að meðaltali fjórðungur þeirra eiga von á því að missa vinnuna að ósekju.

Í laginu ,,Kaupmaðurinn á horninu” sungu tónlistarmennirnir Bubbi Morthens og Rúnar Júlíusson um samstarf Franklín Steiners og fíkniefnalögreglunnar. Þetta samstarf komst þó ekki í hámæli fyrr en nokkrum árum síðar þegar Hrafn Jökulsson, þáverandi ritstjóri tímaritsins Mannlífs, fletti ofan af hneykslinu. Textinn og lagið eru með því besta í íslenskri rokksögu:

Það var einu sinni díler,
sem dreymdi að eignast allt
dóp sem var í landinu,
og allt á sama stað.


Hörðum höndum vann hann
og lævís lagði net.
Í lausamennsku vann hjá fíknó
og átti Íslandsmet.


Hann hafði aldrei setið inni,
nei ekki einu sinn.
Á laugadögum mætti ‘ann,
menn þeir gátu hrætt hann,
hann talaði og talaði,
og malaði og malaði.
Framtíð fíknó skóp.
Hann átti bæjarins versta dóp.


Hann átti fína nál og skeið
og skratti fína dælu.
Skríða þurftu menn til hans
ef ekta vildu sælu.
Samkeppnin var engin
í undirheimum þá.
Alltaf varð hann fyrstur,
kjafta menn á bak við slá.


Hann blandaði með sykri
á svaka fína vigt.
Með svaka nef á feisinu
sem fann ei neina lykt.
Var hataður af fíklum
sem finna það á sér
þeir fá ekkert dóp
í bænum betra eins og er.

skil ekki / af hverju / þið viljið banna
hið eina sanna / marijuanna
annar hver maður / á landinu tókar
alls staðar stíga upp reykjarstrókar
ég þarf að smóka til að róa / mig niður
annars er enginn friður / því miður
ef að ég drekk / þá verð ég bara sikk
og geri / sjálfum mér ljótan grikk
kannabis er greinilega meðalið
hvar get ég fengið / lyfseðil
ég ætti að geta keypt það / út í búð
þá fengi líka ríkið eitthvað fyrir sinn snúð
ekki fordæma okkur …
það eina sem ég vil er bara lögleiðing
búum til frumvarp / og sendum það á þing
ég vil hvetja / alla til að rækta
það er ekkert mál / ég hef oft gert það
menn segja að ég sé / nokkuð lúnkinn
við það að rækta / feitasta skúnkinn
sensimilla það þarf meira en bara segja það
grænir fingur / og plantan þín springur
böddar til vinstri / böddar til hægri
böddarnir verða bara stærri og stærri …

- Grænir fingur


Vörusvik og handrukkarar

Í skjóli núverandi fíkniefnalöggjafar hefur vaxið upp blómlegur undirheimamarkaður á Íslandi þar sem fíkniefnasalar versla með eftirsóttan varning sem þeir greiða hvorki skatt né önnur opinber gjöld af. Handrukkarar ganga í skrokk á þeim sem standa ekki í skilum og koma í stað lögmanna við innheimtuaðgerðir enda þurfa fíkniefnasalar að gæta hagsmuna sinna engu síður en lögmætir kaupsýslumenn. Neytendavernd er engin á ólöglega fíkniefnamarkaðinum. Kaupandinn veit sjaldnast hvað hann er að fá í hendurnar. Þetta á einkum við um þá sem versla sér amfetamín, kókaín eða e-töflur. Stundum er um svikna vöru að ræða. Hvítu efnin eru þá drýgð með mjólkursykri eða öðrum óvirkum íblöndunarefnum.

Vörusvik af þessu tagi, sem tíðkast nær undantekningarlaust hér á landi, ásamt háu innkaupaverði efnanna, geta í sumum tilvikum leitt til þess að neytendur taka að dæla þeim í æð en þannig fæst hámarksnýting á hverju grammi. Þótt flestir neytendur ólöglegra vímuefna hafi stjórn á neyslunni og neyti þeirra í hófi, svipað og þegar um áfengi er að ræða, virðist ákveðinn hópur neytenda - á bilinu 0,8% til 7% - misnota þau. Ljóst er að fíkniefnabannið bætir engan veginn aðstæður þeirra né batahorfur. Eðlilegra er að líta á vímuefnamisnotkun - rétt eins og áfengissýki eða spilafíkn - sem heilbrigðisvandamál en ekki refsimál sem ætlast er til þess að lögreglan leysi.

ég er Móri / atvinnukrimmi
ég á tvo bíla / og annar þeirra er bimmi
löggan reynir allt til að loka mig inni
og þeim tókst það meira að segja einu sinni
……….
aftur er ég byrjaður / að selja eitur
því ég er ekki einu sinni lengur heitur
löggan hefur löngu mér gleymt
á meðan hafa peningar um hendur mínar streymt
ég þarf að fara / á rúntinn / að selja
fuckings gemsinn er farinn mig að kvelja
hitti kúnna / mjólka vel
það eru allir vitlausir í skítinn sem ég sel
nú er helgi / og mikið að gera
ég þarf að vita / hvað um er að vera
hvar eru litlu / lömbin á leik ?
úlfurinn er kominn á kreik

ég er maðurinn sem feður ykkar vöruðu ykkur við
dóp og glæpir eru mín sérsvið
ef þú fokkar í mér þá munt þú aldrei fá frið
því ég gef aldrei grið …

-Atvinnukrimmi

Stríðið gegn útbreiðslu ólöglegra fíkniefna virðist engan enda ætla að taka né hefur það skilað þeim árangri sem stefnt var að.

mér þykir það miður / en þið getið engu breytt
af hverju að reyna / það yfirleitt …

Forvarnarstarf og fáfræði

“Kannski myndu unglingar bera meira traust til þeirra sem starfa að forvörnum og jafnvel taka mark á því sem þeir segja ef þeir hættu að ljúga að þeim um áhrif og afleiðingar kannabisneyslu.”
Framleiðsla og neysla kannabisefna eykst ár frá ári út um allan heim. Sömu sögu er að segja um fjölda þeirra sem eru handteknir og dæmdir í fangelsi vegna neyslu eða sölu vímuefna. Á árunum 1972 - 2000 hafa Bandaríkjamenn til dæmis handtekið 13,265,105 manns fyrir brot á lögum gegn maríúana! Stærsti hluti hópsins, eða um 80 prósent, eru ákærðir fyrir einkaeign eða vörslu á maríúana en hvorki fyrir sölu eða innflutning á kannabisefnum. Þrátt fyrir þung viðurlög og ýmsar þvingunaraðgerðir yfirvalda hafa um 80 milljónir Bandaríkjamanna prófað maríúana.7

Undanfarinn áratug hefur sama þróun átt sér stað í vímuefnamálum hér á landi. Fangelsisdómar hafa lengst, sektargreiðslum fjölgað og lögreglan fengið auknar heimildir til að hafa eftirlit með borgurunum. Þrátt fyrir það hefur hvorki framboð né eftirspurn eftir ólöglegum vímuefnum minnkað. Ef marka má Sigurð Guðmundsson landlækni hefur fíkniefnaneysla vaxið hér á landi hröðum skrefum undanfarið. Að hans mati ,,líkist hún faraldri“ og ,,breiðist út rétt eins og um smitsjúkdóm væri að ræða.” Ef þetta er rétt hjá honum verður varla sagt að forvarnarstarf stjórnvalda, sveitarfélaga og hina ýmsu félagasamtaka sé að skila ásættanlegum árangri. Kannski myndu unglingar bera meira traust til þeirra sem starfa að forvörnum og jafnvel taka mark á því sem þeir segja ef þeir hættu að ljúga að þeim um áhrif og afleiðingar kannabisneyslu.


Meistari Megas hefur samið mörg lög þar sem vikið er að neyslu vímugjafa, löglegra sem ólöglegra. Í laginu ,,Vertu mér samferða inn í blómalandið amma“ er vísað í kvenjurt hampplöntunnar (meyjarblómið). Þar segir m.a.:

Á síðkvöldum þegar Kristur kaupir
sér kúmenbrennivín á leyndum stað
og drekkur uns hann dettur útaf blindur
og deyr og rís upp þunnur og fer í bað.


En guð býr í girðingunni amma,
æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.


Í handbókinni Fíkniefni og forvarnir sem Fræðslumiðstöð í fíknivörnum gaf út árið 2001 er t.d. fullyrt að langvarandi neysla kannabisefna geti leitt til heilaskemmda! Allir sem hafa lágmarks þekkingu á kannabisefnum vita að þetta er ekki rétt. Engar marktækar rannsóknir hafa sýnt fram á að þannig sé málum háttað. Hvers vegna menn eru að bera annað eins á torg og hvaða tilgangi það þjónar er hulin ráðgáta. Þessi rangfærsla er bagalega, ekki síst í ljósi þess að ritið er að öðru leyti mjög vandað og þar skrifa margir af færustu fræðimönnum Íslands. Markleysan er þó í samræmi við lágkúruna sem sumir gerast sekir um þegar talið berst að ólöglegum vímuefnum. Í þeim efnum virðast menn geta leyft sér að segja hvað sem er og hirða ekki um að geta heimilda fyrir ólíklegustu fullyrðingum sínum.

Landlæknir hefur hvatt yfirvöld til að slaka hvergi á í baráttunni gegn vímuefnum. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að stríðið gegn fíkniefnum er stríð gegn fólki. Á Íslandi beinast stríðsaðgerðirnar einkum gegn ungu fólki á aldrinum 16 til 22 ára. Í flestum tilvikum eru um að ræða ungmenni sem eru að gera tilraunir með neyslu kannabis og hætta eða draga úr henni á eigin spýtur á fullorðinsárum. Hér eru aðallega á ferðinni afþreyingarneytendur sem valda hvorki sjálfum sér né öðrum tjóni með neyslunni. Sennilegt er að harkalega viðbrögð stjórnvalda í garð þessa hóps, handtaka og líkamsleit sem fylgir oft svonefndu ,,venjubundnu eftirliti” lögreglunnar, valdi þeim meiri skaða en sjálft fíkniefnafiktið.

Handrukkarar gera sumum vímuefnaneytendum lífið leitt eins og Móri lýsir vel í laginu mc Panic:

þú skuldar mér pening mc Manic
gast ekki borgað / og flúðir land í panic
/ hvar ertu núna / Himmi rapp
ég hætti ekki fyrr en ég hef leitað út um allt
þú skalt fokkings borgar / allt sem þú skuldar
og nú verða engar / sorgar-sögur þuldar
því ég vil ekki hlusta á / kjaftæðið í þér
borgaða bara það / sem þú skuldar mér ….
……..


þér er vissara / að hætta / að glotta
því hann Móri kallinn þekkir nokkra hrotta
sem geta þurrkað / þetta glott / af þínu smetti
og þú veist / að ég er vel / í mínum rétti ….


Vandi sprautuneytenda

Eitthvað er um það að sprautuneytendur fremji auðgunarbrot, t.d. innbrot og vopnuð rán, til að fjármagna neyslu sína. Þó tengsl hafi myndast milli glæpa og sprautuneyslu hér á landi eru þau ekki vegna áhrifa lyfjanna sem notuð eru heldur vegna þeirra fjárupphæða sem þau kosta á svarta markaðinum. Á fyrri hluta síðustu aldar þegar vímuefni eins og kókaín og heróín voru lögleg og aðgengileg hjá læknum eða lyfsölum þurfti enginn að afla þeirra á saknæman hátt. Væri ekki nær að gefa sprautuneytendum einfaldlega kost á því að kaupa sér amfetamín eða annað sambærilegt lyf hjá lyfsölum í stað þess að vera að níðast á þeim í veikindum sínum? Það myndi draga verulega úr afbrotum þessa hóps, bæta heilsu og réttarstöðu þeirra og minnka það tjón sem þeir baka öðrum. Vitað er þúsundir Íslendingar fá nú þegar örvandi lyf hjá læknum - og hafa sumir þeirra fengið þau árum og jafnvel áratugum saman - án þess að ástæða sé til að fjargviðrast yfir því enda plumar þetta fólk sig ágætlega. Að sjálfsögðu ber að sporna gegn sprautunotkun og daglegri neyslu vímuefna en það verður best gert með forvarnarstarfi og fræðslu en ekki með boðum og bönnum.

Móri lýsir næturstarfi sprautuneytandans vel í einu laganna:

“Lög um ávana- og fíkniefni svipta fólk yfirráðum yfir eigin líkama. Athafna- og ákvörðunarfrelsi einstaklingsins er skert vegna þess að hann er talinn ófær um að meta hvað honum er fyrir bestu þegar að neyslu vímuefna kemur.”
………
einn ég reika um niðdimma nótt
skjótt læt til skarar skríða meðan fólk sefur rótt
ótt og títt hjartað slær á ógnarhraða
í svita ég baðast. brátt mun ég valda skaða
ég nem staðar og sperri bæði eyrun
og hlusta grannt eftir mannaferðum og fleiru
sem gæti truflað minn illa ásetning
sem snýst um það að þýfi í pokann minn sting
þingmannsheimili og ég er sá eini sem er heima
til að komast inn um gluggann ég þurfti ekki lengi að reyna
þessi innbrotaleikur hann er mitt fag
í mannlausu húsi ég syng mitt ljúfasta lag
inn í þessu húsi ég stel öllu steini léttara
bara frá þeim ríku ég er ógnvaldur yfirstéttanna
þetta nýríka hefur ekkert við þennan lúxus að gera
hef ekki samviskubit þegar ég byrja þýfið út að færa
tölvur og græjur með nýjasta stílinn
hringi svo í Móra því hann er með bílinn
brunum svo í burtu með bílinn drekkhlaðinn
og hverfum inni myrkrið er við yfirgefum staðinn
…….

- Sírenur væla

Ranghugmyndir um vímuefnaneytendur

Árlega eru hundruð milljóna króna notuð hér á landi til að koma í veg fyrir að fólk neyti eða stundi viðskipti með kannabisefni, e-töflur, amfetamín og kókaín. Ákveðinn hópur manna kýs að neyta þessara efna og það er alveg fráleitt að stjórnvöld skuli yfirleitt vera að skipta sér af því. Lög um ávana- og fíkniefni sviptir fólki yfirráðum yfir eigin líkama. Athafna- og ákvörðunarfrelsi einstaklingsins er skert vegna þess að hann er talinn ófær um að meta hvað honum er fyrir bestu þegar að vímuefnaneyslu kemur. Í þeim efnum vilja ráðamenn einatt hafa vit fyrir öðrum. Þessi forræðishyggja er svo ágeng að fólki er refsað fyrir að setja inn fyrir varir sínar neysluvöru sem engum öðrum er skaði af og í flestum tilvikum ekki einu sinni því sjálfu.


Tónlistardiskurinn Móri er ekki aðeins sneisafullur af glimrandi góðum textum og vel sömdum lögum heldur er textablaðið, þaðan sem þessi mynd er tekin, listilega vel gert. Hönnun: sic!

Þeir sem verða uppvísir að því að útvega viðskiptavinum sínum umrædd vímuefni, sem nota bene enginn er þvingaður til að kaupa, geta síðan átt von á því að dvelja tíu sinnum lengur í fangelsi en þeir sem gerast sekir um sifjaspell, nauðgun eða alvarlegar líkamsárásir! Þessi mótsögn og stríðið gegn ólöglegum vímuefnum er réttlætt með því að um sé að ræða svo háskaleg efni að þau valdi neytendum og samfélaginu óbætanlegu tjóni. Nánari eftirgrennslan leiðir hins vegar í ljós að í fæstum tilvikum er um slíkt að ræða. Skaðsemi ólöglegra vímuefna má fyrst og fremst rekja til fíkniefnabannsins sjálfs og þeirrar baráttu sem stunduð er gegn útbreiðslu þeirra.

Guðmundur Sigurður Jóhannsson ættfræðingur gagnrýnir þá mynd sem dregin er upp af vímuefnaneytendum. Hann kemst svo að orði:

,,Á undanförnum árum er búið að fremja slíkan mannorðsþjófnað á fíkniefnaneytendum, að engu tali tekur. Búið er að innræta almenningi, að útilokað sé að neyta hass og amfetamíns í hófi, að allri neyslu vímuefna hljóti alltaf að fylgja misnotkun og vandamál, og að vímuefnaneytendur séu allir með tölu eða að minnsta kosti upp til hópa veiklundaðir og óábyrgir einstaklingar, trassar, ónytjungar, sjúklingar, ofbeldismenn og yfir höfuð niðurrifsmenn í mannlegu samfélagi. Þessu er sannarlega á hinn veginn farið. Það er aðeins örlítil prósenta af kannabis- og amfetamínneytendum, sem þessi lýsing gæti átt við, eða hlutfallslega jafnlítil prósenta sú, sem sama lýsing gæti að einhverju leyti átt við í tilvikum áfengisneytenda. Meirihluti amfetamín- og kannabisneytenda, sem og áfengisneytenda, hefur góða heildarstjórn á neyslu sinni, sem hann viðhefur með góðri tempran á góðri stundu, stundar lýtalaust atvinnu sína, er efnahagslega sjálfsbjarga, lifir meinlauslega við samborgara sína og rækir vel uppeldi barna sinna." 8

Móri kemur inn á sömu hugsun í laginu Grænir fingur:

ekki koma svona fram við mig / nei takk
come on maður / þótt að ég sé haus
er ekki þar með sagt / að ég sé vitlaus
ég þekki mín mörk / dreg mínar línur
við erum ekki öll / bara heilalausar gínur
ég fer ekki á botninn / ég er ekki að sökkva
þó ætli ekki að drekka og vilji heldur mökka
á svifnökkva / ég svíf / í gegnum mitt líf
held mínum metnað og á toppinn ég klíf


ekki fordæma okkur
bara út af því við notum lón
og kýlum bokkur
…………………

Sjá nánar: http://www.sigurfreyr.com/mori.html