Ég er gáttaður á allri þessari umræðu um olíusamráðið, ekki að það sé umræða um þetta heldur hvert, eða að öllu heldur, að hverjum hún beinist.

Forstjórar olíufélaganna og þeir sem bera margfalt meiri ábyrgð á þessu samráði geta verið ansi ánægðir þessa dagana, allt fjölmiðlafárið vegna þessa beinist frá þeim, þ.e.a.s. að einum manni, Þórólfi Árnasyni borgastjóra.

Þetta er gríðarlega yfirborðskennt, fjölmiðlar eiga að kafa dýpra í þetta mál og upplýsa almenning um hverjir eru höfuðpaurarnir í þessu máli.

Sjálfstæðismenn eru að reyna nýta sér þetta mál til hins ítrasta, og eru að reyna steyta flokkunum í R-listanum saman. Það sjá allir þetta baktjaldamakk.

Þórólfur er sá eini, SÁ EINI, sem hefur komið fram opinberlega og beðist fyrirgefningar á þessu. Hann er ekki alsaklaus, það er víst, hann varð meðvirkur þátttakandi í þessu verðsamráði, en það er EITT VÍST og það er að hann réði sig ekki til starfa hjá þessu olíufélagi á þeirri forsendu til að taka þátt í olíuverðsamráði.

Það er beinlínis ætlast til þess að hann hafi átt að koma strax fram og tilkynna um allt það sem fór fram í olíufélaginu. Bara til að segja okkur í hans spor, segjum sem svo að hann hafi gert það, orðið að “whistleblower” og tilkynnt yfirvöldum þetta.
Hefðu yfirvöld eitthvað aðhafst þá? Hvað hefði orðið um framtíð Þórólfs atvinnulega séð (allir menn verða að sjá fyrir fjölskyldu sinni)? Þórólfur hefði örugglega þurft að uppljóstra um leyndarmál fyrirrtækjanna, og það hefði kostað hann lögsóknir frá olíufyrirtækinu.

Við skulum heldur ekki gleyma öllu því fólki sem starfaði hjá olíufyrirtækjunum á þessum tíma og tilkynnti ekki um þetta. Það hlýtur að bera einhverja ábyrgð líka, en ekki sé ég þetta fólk viðurkenna þátt sinn og biðjast fyrirgefningar.



Þórólfur kom hreint fram við samkeppnisyfirvöld, hjálpaði þeim að upplýsa þetta, og hefur beðist afsökunar á gjörðum sínum. Hvað meira þarf til?

Vissulega hefur maður samúð með honum, eftir alla þessa útreið sem hann er að fá, mjög svo ósanngjarna útreið vegna máls sem er tekið algjörlega úr réttum hlutföllum. Mér finnst að hann sé búinn að taka út sína opinberlegu refsingu, og nú sé í valdi dómastóla (e.t.v.) að dæma um sekt hans.


Ég trúi því að Þórólfur er góður maður sem vill aðeins þjóna borgarbúum, og gera gott betra! Hann hefur staðið sig með prýði eftir að Ingibjörg hraktist þaðan vegna svipaðs ástand, einhverskonar R-lista múgæsingar og uppblásins fjölmiðlafárs.


Ég vil að Þórólfur haldi áfram sem borgarstjóri, og ég bið R-listann að láta ekki hræða sig vegna þessa máls.