Fyrir um það bili ári síðan voru nokkrir framtakssamir ungir piltar sem tóku sig til og réðust á mig og vin minn á Laugaveginum. Þetta var um Airwaves helgina og því fullt af fólki í bænum. Ekki veit ég hverjir það voru sem þarna voru að verki. Vitni, sem hringdi á lögreglu og gaf skýrslu á staðnum, náði númerinu á bílnum sem þessir ungu menn ferðust í. Ég var fluttur á sjúkrahús með brotið nef, ýmis eymsli og fótspor á bakinu. Vinur minn fór daginn eftir á slysavarðsstofuna og kom þá í ljós brákað kinnbein en auk þess þjáðist hann af minnistruflunum í nokkurn tíma. Þetta var á aðfaranótt sunnudags og þegar lögreglan mætti aftur í vinnuna á mánudeginum fórum við og kærðum. Fengum við í þeirri viku lögfræðiaðstoð frá S. á lögmannsstofunni L.
Engar upplýsingar fengum við um málið að svo stöddu. Rétt fyrir jól þurfti að skila inn skaðabótakröfu sem S. sá um fyrir hönd okkar. Kom svo í ljós, að mig minnir í janúar, að lögreglan hafði stöðvað bíl árásarmannana síðar sömu nótt og árásin átti sér stað. Þá voru þeir ekki þar en ökumaðurinn gaf upp nöfn þeirra sem höfðu verið með henni í bílnum fyrr um kvöldið og játti hún því að hafa stöðvað á Laugaveginum þar sem farþegarnir hafi stokkið út (en hún sá auðvitað ekki hvað gerðist þar sem hún var upptekinn í samtali við vinkonu sína). Ekki hafði lögreglan haft samband við þessa menn þegar hér er komið við sögu. Fer nú sól að hækka á lofti og komið er vor í loftið. Hringir þá lögreglan í mig (þar sem ég er við það að beygja inn á Bústaðaveg) og spyr mig hvor sé stóri og hver sé litli. Ég hvái og fæ það smá saman út að nú sé verið að fara yfir málið, yfirheyra og þess háttar og að vitni og gerendur tali um litla og stóra (við vorum enda ekki með nafnspjöld og þessir menn virtust ekki þekkja okkur - heilsuðu amk ekki). Ég reyni að halda virðingu minni og segi að vinur minn sé hávaxnari en ég - neita að segja að ég sé lítill enda um 185 ef ég rétti úr mér. Svo legg ég á og brosi út í vorið, betra er seint en aldrei og gott að vita að málsskjöl hafi ekki verið notuð sem skeinipappír hjá Lögregluembætti Reykjavíkur.
Næst þegar til tíðinda kveður er komið hásumar, ég er úti að vinna í frábæru veðri - öskra á krakkana að halda áfram að vinna og að tuða ekki í mér í smá stund. S. er í símanum og tjáir hann mér að lögreglan hafi tekið ákvörðun um það að ég eigi ekki rétt á réttargæslumanni (ókeypis lögfræðiaðstoð) vegna þess að brotið sé ekki nógu alvarlegt. Great. Eftir að ég er búinn að hafa lögmann í hálft ár að ýta á eftir máli mínu, reka á eftir lögreglunni, semja kröfugerðir og fleira er mér sagt að ekki sé grundvöllur fyrir þeirri aðstoð. Gott hafði verið að vita þetta örlítið fyrr, til dæmis þegar lögreglan mælti með að ég fengi mér réttargæslumann við upphaf málsins. Jæja, finna þarf lausn á þessu! Fullt af ekki-alveg-ókeypis lögmannstímum af safnast saman. (Með hjálp góðra manna fannst góð lausn á þessu)
Jæja ég er þá tekinn við mínu máli sjálfur og set mig í samband við lögregluna. Þar er málið komið inn á borð saksóknara í lok ágúst/byrjun september og er mér sagt að málið verði komið til Héraðsdóms Reykjavíkur í lok mánaðarins. Þegar þangað er komið ákveður rétturinn dagsetningu og kallar ákærða fyrir réttinn á þeim degi. Þar er þeim gefið tækifæri á að lýsa sig seka og klára málið. Ólíklegt verður að teljast að það gerist og er þá ákveðin önnur dagsetning þar sem málsmeðferð hefst af alvöru. Þar mun saksóknari sækja málið, ákærðir og vitni verða yfirheyrð og sennilega fórnarlömbin, þ.e. ég og vinur minn, líka. Fyrir 10 dögum hafði ég aftur samband við saksóknara til að spyrjast fyrir um mál mitt, hvort það sé komið til dómstóla og hverjir það séu sem séu ákærðir. Eftir að hafa ekkert svar fengið í viku sendi ég ítrekunarpóst og fékk ég svar í dag. Þar stendur
Málið sem þú spyrð um er í ákærumeðferð. Sendu mér nýja fyrirspurn eftir viku eða hálfan mánuð þá get ég gefið þér skýrari svör. Ef þú vilt spyrjast fyrir um málið áttu að beina þeirri fyrirspurn til þessa embættis. Héraðsdómur svarar ekki fyrir mál jafnvel þótt þau séu til meðferðar þar.
Með von um að fyrrgreindar upplýsingar dugi þér að sinni.
Biðst velvirðingar á hversu dregist hefur að svara fyrirspurn þinni.
Er þetta allt og sumt sem þar stendur. Þar sem ég hef verið með þetta mál á huganum í heilt ár hef ég velt ýmsu fyrir mér varðandi þetta allt saman.
Hvers vegna líða margir mánuðir frá atburði til yfirheyrslu grunaðra?
Hvers vegna líða margir mánuðir þangað “í ljós kemur” að ekki er grundvöllur fyrir réttargæslumanni?
Hvers vegna hef ég engar upplýsingar fengið um það hverjir ákærðir eru (þeir fá á fyrsta degi fullt nafn mitt)?
Hvernig á nokkur að muna hvað gerðist þegar liðið er rúmt ár frá atburðinum?
Hvers vegna fékk ég engar upplýsingar um að bíllin hafði verið stöðvaður síðar um nóttina fyrr en löngu síðar – ég spurði bæði þegar ég lagði frá kæru og oft eftir það hvort eitthvað væri vitað um þessa menn án þess að fá svar.
Í umræðu sem hefur komið upp um fjársvelti lögreglunnar hafa sumir frjálshyggjupollar haldið því fram að ekki eigi að setja svona mikinn pening í lögregluna, því engin vilja lifa í lögregluríki. Ég er ekki að biðja um lögregluríki en finnst óneitanlega að hentugt væri að hafa lögregluna þannig mannaða að hún gæti sinnt þeim málum sem á borð hennar berast. Ágætt væri líka að dómstólar gætu tekið fyrir mál fyrir innan skynsamlegra tímamarka.
Síðastliðið ár hefur verið mér lærdómsríkt, ég hef komist að alls konar hlutum um starf lögreglunnar og réttarkerfisins sem ég hafði ekki hugmynd um. Mæli ekki með þessari lærdómsaðferð. Oft hef ég ásakað lögregluna fyrir seinagang, leti, afskiptaleysi og þess háttar í sambandi við þetta mál. Lögregluþjónar sem komu á vettvang gerðu til dæmis grín að vini mínum fyrir að tala undarlega (hann er búsettur erlendis og talar ekki fullkomna íslensku), tóku í framhaldinu ekki niður nafn hans eða vitnisburð þótt hann hafi orðið fyrir sömu árás og ég, honum var svo stjakað burt þegar ég var settur í sjúkrabíl og vissum við hvorugur hvar hinn var. Vekur slíkt ekki mikla trú á hjálpsemi lögreglunnar eða að hún taki líkamsárásir og beinbrot alvarlega. Vona að ekki séu allir lögregluþjónar með samskonar viðhorf og stæla.
Mest reiðin, undrunin og vonbrigðin hafa hinsvegar ekki verið með einstaka lagana verði heldur það kerfi sem þeir vinna innan. Það er einstaklega hægvirkt, óskilvirkt og fjandsamlegt kærendum (segi ekki hliðhollt kærðum). Finnst einhverjum þetta kerfi vera eðlilegt og til eftirbreytni? Ættum við ekki að geta betur?