“Fjölskyldur fórnarlamba skotárásarinnar í Kólumbía-gagnfræðaskólanum hafa höfðað mál á hendur fjölda afþreyingarfyrirtækja sem þau segja að búi til ofbeldisfulla tölvuleiki og klámfengnar vefsíður. Þær telja að framleiðsla þessara fyrirtækja hafi haft áhrif á unglingana sem stóðu fyrir skotárásinni í skólanum 20. apríl árið 1999, en þá létust 13 manns. 25 fyrirtæki eiga yfir höfði sér málshöfðun, meðal annars deild Nintetndo í Bandaríkjunum, ID Software, Bandaríkjadeild Sega, Sony Computer Entertainment, AOL Time Warner og GT Interactive, sem framleiddi tölvuleikinn Doom, að því er fram kemur í netútgáfu breska dagblaðsins Guardian. Fjölskyldurnar fara fram á um 465 milljarða ísl. króna í skaðabætur.”
Þetta er hlutur sem ég hef aldrei skilið. Fólk er endalaust að reyna að kenna bíómyndum, tölvuleikjum, internetinu og öllu öðru þar sem hægt er að komast í klám eða ofbeldi um glæpi sem það sjálft eða annað fólk fremur. Auðvitað hefur svona afþreyingarefni áhrif á fólk en mér finnst það frekar virka letjandi en hvetjandi til þess að fremja sjálfur glæpi.
Við verðum að sætta okkur við það að það eru félagslegar aðstæður og andlegt heilbrigði (Eða skortur þar á) sem býr til ofbeldisglæpamenn og brjálæðinga, ekki bíómyndir og tölvuleikir.
Einu áhrifin sem ég get séð er hvað varðar stíl. Ef einhver geðsjúklingur drepur einhvern í sama stíl og gert var í “Natural Born Killers” þýðir það ekki að hann hefði ekki drepið hefði hann ekki séð “NBK”. Það þýðir að þá hefði hann drepið í öðrum stíl.
Ég hef spilað Doom, Quake og fullt af öðrum mjög ofbeldisfullum leikjum. Ég horfi mikið á bíómyndir og fæ þar fullt af ofbeldi og ósiðlegheitum beint í æð. Ég er mikið á netinu og þar sér maður allan fjandann. En mér hefur aldrei svo mikið sem dottið í hug að ganga inn í næsta skóla með byssu og fara að skjóta fólk.
Félagslegar aðstæður mínar eru þannig að ég veit að það er rangt að drepa fólk. Því miður vita það ekki allir og það er bara tímaspursmál hvenær þeir fremja morð. Ofbeldisfullt afþreyingarefni gæti þó flýtt aðeins fyrir því ef þessir einstaklingar taka því mikið inn á sig. Það þýðir þó alls ekki að afþreyingarefnið eigi sök á morðinum.
Eins og Wes Craven lagði einhvern tíma einum character sínum í munn “Horror movies do not create psychopaths. They simply make psychopaths more creative”
kv.