„Fyrr í vikunni voru sjö bíræfnir glæpamenn allsstaðar af landinu handteknir fyrir ólöglegan rekstur á neðanjarðarbókasöfn sem staðsett voru í öllum helstu byggðarkjörnum landsins og fáeinum hverfum Reykjavíkur.

Eru þetta, samkvæmt fréttatilkynningu embættis ríkislögreglustjóra, umfangsmestu aðgerðir lögreglunar gegn slíkri starfsemi síðan útgáfa prentverks hóft í fyrsta skipti hér á landi í upphafi árs 1997.

Í sérstakri úttekt sem Síðdegisblaðið birtir varðandi málið í dag kemur m.a. fram hversu stórtæk og skipuleg samtök voru þarna á ferðinni. Til að fá aðgang að hinum svokölluðu „bókasöfnum“ þurftu safngestir að reiða fram bók til viðbótar safnkosti sérhvers safns ellegar greiða ígildi bókar með ákveðinni upphæð. Einnig bar safngestum skylda til að skerða ekki aðgengi annarra gesta að efni og áttu allir meðlimir þess kost að fara í sérstaka röð til þess að fá hendur á efnið.
Útlánaeintök íslenskra sem erlenda rita voru að öðru leiti öllum aðgengileg í hversu langa tíma sem þurfa þótti. Ennfremur mátti nálgast rit í gegnum einhverskonar millilánaskiptum úr öðrum útibúum eða geymslu og voru þau síðarnefndu sótt eftir þörfum. Ritunum var raðað ´afar skilvirkt kerfi sem vægast sagt auðvelduðu aðgengi að þeim um of.

Þykir þetta fyrirkomulag með eindæmum ósiðsamlegt og í meira lagi glæpsamlegt athæfi.

Haft er eftir Arngrími Jóhannessyni, framkvæmdastjóra bókaforlagsins Bjarts, að þessi undirheimastarfsemi hafi skaðað alla bókaútgáfu í landinu umtalsvert og valdið óbætanlegu fjárhagstjóni.

„Þenna óvænta lestraráhuga landsmanna hefði mátt láta björtum augum ef á bókaútgefendur hefðu á einhvern hátt geta fengið beinan eða óbeinan arð að þessu. T.d. hefði verið hægt að koma fyrir einhverslags auglýsingum fyrir á veggjum þessara „bókasafna“ og á bókakápunum eða fundin einhver önnur leið til þess að forlögin fái fjárhagslegan ávinning út úr þessu en því var ekki að skipta. Svo við vorum tilneyddir til þess eggja lögregluna til aðgerða gegn þessari dreifingu bóka. Það erum við sem framleiðum bækurnar og því hlýtur það að vera við sem ráðum því hverjir lesa þær!“ sagði talsmaður Bjarts í viðtali við fréttamann Síðdegisblaðsins fyrr í dag.

Hinum grunuðu er gefið að sök að hafa brotið 3. gr. höfundalaga nr. 73/1972, sem m.a. mælir fyrir um einkarétt höfunda til að gera eintök af verki sínu og til að birta það.

Þar sem umrædd starfsemi brýtur í bága við ofannefnd ákvæði og enga stoð er hægt að finna í réttarkerfinu henni til varna má búast við þungum viðurlögum yfir forsprökkum bókasafnshreyfingarinnar.“


Þetta væri það sem við værum að fást við í dag ef upplýsingabyltingin á síðasta áratug hefði komið í kjölfar tilkomu bókarinnar en ekki veraldarvefsins. Þetta tvennt er á allan hátt sambærilegt.
Á miðöldum var trúin heilög og menn brenndir fyrir að veitast að henni. Nú er öldin önnur. Í dag er það eignarrétturinn sem er heilagur og fólk brennt fyrir að veitast að honum.
Til allrar hamingju komst í milltíðinni fordæmi fyrir bókasöfnum sem eiga sér því hefðarrétt og verndarákvæði í lögum og greiða í staðinn höfundum ákveðna prósentur í samræmi við fjölda útlána. Á því græðir höfundurinn líka beint, en ekki einhver subbulegur myndréttarhafi.
Nútímabókasöfnin á netinu eru ekki jafn heppin. Það að kalla það sem þar fer fram fjölföldun held ég að orsakist af úreltri skilgreiningu á fjölföldun sem miðast við áþreifanlega fjöldaframleiðslu á einhverjum hlut. En það að skoða upplýsingar á netinu er ekki sambærilegt við það að prenta út milljón eintök af þessum upplýsingum og dreifa heldur frekar eins og ef tveir speglar væru setti upp við bók svo tveir aðilar geti lesið hana í einu. Er það fjölföldun. Tæpast. Þar þarfnast nýrra skilgreininga.
Það er kannski kominn tími til þess að setja lög. Þar sem starfsemi, eins og sú sem fyrirfinnst á DC, verði sett skilyrði og skapað svigrúm í lögum, gegn því að höfundur fá ákveðna prósentu í samræmi við „download“. Þá gæti fólk valið hvort það styrkti safnkost „sörveranna“ með því að koma með eigið framlag og deila því með öðrum eins og tíðkast í dag eða á hinn bóginn stytta sér leið og greiða smávegins upphæð gegn því að komast inn á „sörveranna“ án annars framlag, ekki ólíkt bókasafni. Sú upphæð mætti síðan notast til þess að greiða höfundi laun eins og bókasöfn gera. Vafalaust yrðu báðir valkostir vinsælir.
Og þó. Kannski ekki. Kannski ætti ríkið ekki að koma nálægt þessu. Kannski ætti ekki að setja nein lög. Það er alveg augljóst að íslenska ríkið á enga lögsögu í hafsjó vefsins, og það væri skandall ef það dirfðist að reyna að sækja sér hana. Því miður fyrir landamæraelskendur þessa heims þá er internetið ekki af þessum heimi.
Fyrirbæri og framtak eins og Deilir eru göfug og eiga rætur að rekja til þess upplýsingabyltingin síðasta afhjúpaði ákveðna hugsunarvillu eignarhaldsins sem gegnsýrir þjóðfélag nútímans.

Þetta er ekki búið!