(þessi pistill var upphaflega hugsaður sem óbeint svar við grein tengdri “rasisma” en vegna áskorunnar ákvað ég að gera úr þessu grein, lesendur verða að dæma um hvort það hafi verið réttlætanlegt)


yfirlýsing

Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að ég er ekki fylgismaður aðskilnaðar kynþátta né heldur boðberi þeirrar heimsku að Íslendingar hafi erfðafræðilega yfirburði gagnvart öðrum þjóðum.

er íslenskan 16 milljarða virði?

Erindi mitt hér á huga í þetta sinn er að setja fram smá hugleiðingu um íslenskuna og þá hversu viðkvæmt mál umræða henni tengd ávallt er.
Persónulega tel ég íslenskuna óendanlega dýrmæta og er ég mjög andsnúin þeim sem vilja taka upp ensku sem móðurmál af því að það sparar 16 milljarða árlega, en það eru sterkustu rökin fyrir því að hana eigi að afnema hana sem ég hef heyrt. (Iðulega sett fram af tækifærissinnum í viðskiptalífi sem hafa of lengi hugsað um peninga)

íslenskan er dýrmæt

Hvers vegna er íslenskan svona heilög? Ástæðan er fjölþætt. Til að byrja með eru öll okkar þjóðlegu verðmæti fram á seinni hluta nítjándu aldar nær eingöngu í formi texta. Ótrúlega lítið hefur varðveist af safnmunum. Skemmtilega útskýringu á því má finna í Kristnihaldi HKL en það er önnur saga. Myndlist var ekki til í landinu, engin leikhúshefð, engar poppstjörnur o.s.frv.. Þar af leiðandi er sjálfsmynd þjóðarinnar að nær öllu leiti byggð á textahefð og raunar er langstærsta framlag Íslands til mannkynssögunnar í formi fornbókmennta. Þá hefur sjálfsstæðisbarátta tengst órjúfanlega baráttu fyrir verndun móðurmálsins s.b.r. deilur á nítjándu öld og því er ekki að undra að fólk setji sig í þjóðernisstellingar þegar Ísland er sett í alþjóðlegt samhengi. Ég tel nokkuð víst að fáar þjóðir státi af jafnmikilli móðurmálsást. Hafiði velt því fyrir ykkur hversu mörg dagblöð voru til í byrjun síðustu aldar hér á landi og hversu mjög íslenskuást tengist öllum menningarlegum athöfnum allt fram á okkar daga? Þetta er ekki tilgerð smáþjóðar eða sjálfsblekking. Móðurmálið er okkur dýrmætara en flestum öðrum þjóðum og því eðlilega viðkvæmt. Hægt hefði verið að fylla margar símaskrár af íslenskum rímnakveðskap ef út í það hefði verið farið og er það til marks um sagna og kveðskaparhefð okkar. Á sínum tíma þegar fólk hrundi niður vegna sjúkdóma og hors hafði það fátt til huggunar á vetrarkvöldum og voru þá húslestrar vel þegnir. Með þjóðinni hafa vaxið stórmenni á sviði tungumála almennt og er nærtækt að nefna Hallgrím og Megas. Passíusálmarnir eru þannig eitt af mestu menningarverðmætum heimsins frá seinni hluta sautjándu aldar! Það er býsna gott frá þjóð sem þá taldi að mig minnir um 50000 manns.
Tungumálið hefur haldið þjóðinni saman vel á tólftu öld og því eðlilegt að háir og lágir mæli henni til varnar.

Eiga útlendinar að læra íslensku?

Persónulega finnst mér sjálfssagt að fólk af erlendu bergi sem sest hér að læri íslensku þegar fram í sækir af augljósum ástæðum. Hins vegar er ókurteisi í garð útlendinga vegna lítillar tungumálakunnáttu óafsakanleg. Það að flytja til Íslands af öllum löndum á sér iðulega mjög sérstaka skýringu hjá útlendingum sem gjarnan eru að freista gæfunnar hér vegna þeirrar afspurnar sem af landinu fer. Það er mikið áhyggjuefni þegar vel menntað fólk fær ekki tækifæri hér. Ríkasta og voldugasta ríki heims varð það sem það er vegna þess að landfræðilegur heppileiki fléttaðist saman við hæfileikaríka og duglega innflytjendur. Þeir voru ótrúlega fljótir að stinga Evrópu af í iðnaðarþróun svo dæmi sé tekið. Hér á landi starfar fólk frá Indlandi við forritun hjá OZ og er þjóð og landsmönnum til hags. Þetta fólk veit að frammistaða þess skiptir máli í miklu stærra samhengi en einungis fyrirtækisins. Þetta fólk myndar andlit þjóðar sinnar og er yfirleitt til sóma.
Margir eru hallir undir þá skoðun að heimurinn sé orðinn lítill og alþjóðavæddur, það er að mörgu leiti rétt og þess vegna er mikilvægt að þjóðir varðveiti sérkenni og sögu mitt í steypiflóði kapítalismans og fylgifiska hans. Það verður þó að gera innan skynsamlegra marka.

með þökk fyrir lesturinn og góða helgi

arnarson