“Það eru allir alltaf með svo mikla fordóma fyrir unglingum.” “Fólk treystir unglingum aldrei.”

Hver hefur ekki lesið svona fullyrðingar á huga? Það er að segja: Hver hefur ekki lesið svona fullyrðingar á huga OFT OG MÖRGUM SINNUM?

Ég var kominn með nóg af þessu rugli strax fyrst þegar ég las þetta. Þeir sem semja þetta vilja yfirleitt setja sig á háan hest og fullyrða að þeir séu alls ekki eins og allir hinir, og séu orðnir þreyttir á því að hinir komi óorði á sjálfa sig. Aðrir hafa enn verri eða engin rök. Kannski að þeir vilji bara skemmta sér og skilji ekki í foreldrum sínum að treysta sér ekki til að vera úti til 3 á nóttunni, þeir séu næstum fullorðnir, 14 ára karlmenn.

Hvers vegna gjóa t.d. afgreiðslumennirnir ásakandi augum að unglingum í Select? Það skyldi þó ekki hafa eitthvað með það að gera að unglingar hnupli oftar en eldra fólk?

Unglingar eru það sem þeir eru og oftar en ekki eru þeir heldur skemmtanaglaðir. Kannski nauðsynlegt að halda aðeins aftur af þeim, þó að smátt og smátt sé kannski hægt að sleppa beislinu.

Persónulega þætti mér t.d. frekar undarlegt ef foreldrar mínir gerðu engar athugasemdir ef þeir vissu til þess að ég væri að drekka eða eitthvað. Þá er það bara mitt djobb að leyna því frá foreldrum mínum sem ég get. Tilgangurinn með því að banna unglingum svona lagað er kannski frekar að halda aðeins aftur af þeim en að halda þeim algerlega frá áfengi eða hverju sem vera vill.

Vantraust? Nei. En unglingar eru ekki fullorðið fólk og geta ekki alltaf haft vit fyrir sjálfum sér, þótt þeir vilji endilega líta svo á. Reyndar hef ég með hverju árinu sem líður af unglingsárunum séð betur og betur hve langt ég er frá því að vera fullorðinn.

Reyndar skrifa ég þessa grein í samhengi við vissa grein þessa efnis, sem nýlega hefur skotið upp kollinum á huga. Það er nákvæmlega svona hroki sem fer í taugarnar á mér við þessa grein. Þarna gefur greinarhöfundur í skyn að hún sé ekki jafn skyni skroppin og jafnaldrar og í raun sé hún ekki sínum aldri samboðin. Hún sé í þeim fámenna hópi unglinga sem eru ekki öllu skyni skroppnir.

Unglingar eru alltaf unglingar. Það er fólk sem er að þroskast hratt og vantar talsverðan þroska upp á að vera jafn þroskað og það verður ári síðar. Þið komist að því seinna að ef þið eruð 14 ára eruð þið smábörn á miðað við hvernig þið lítið á ykkur ári síðar. Og það er satt. Það eru vissar víddir sem strax 15-16 ára unglingar hafa sem t.d 14 ára unglingar hafa alls ekki. Sjálfur er ég 16 og efast ekki um að ég á eftir að þroskast heilmikið næsta árið, og svo næstu 10 árin eftir það. Bróðir minn, 26 ára, lítur enn svo á að hann sé ekki sambærilegur í þroska við það sem hann var ári áður.

Ef það er verið að bögga fólk út á aldur á t.d. huga er lítið annað að gera en að gera sitt besta til að hífa sig upp úr meðalmennskunni, þ.e. með góðum og vönduðum skrifum, og láta það líða hjá, því það mun líða hjá fyrr en síðar.

Tilgangurinn með þessari grein er alls ekki að gera lítið úr unglingum. Bara ábending um að líta ekki of stórt á sig.
(\_/)