Mikið var ég vitlaus. Ég held að Ísland væri land sem væri að mestu leyti laust við racisma. Svo sé ég í fjölmiðlum nýlega, þrjár mismundandi greinar, í þremur mismunandi miðlum um þrjár manneskjur sem allar voru beittar kynþáttamisrétti. Þá á ég ekki við einhverja götustráka sem öskra “Farið heim, aumingjar” eða einhvað álíka, því það gerist í öllum löndum.

Fyrst sá ég grein í tímariti um konu frá Tælandi sem hafði mjög góða háskólamenntun og fína starfsreynslu í lögfræði í heimalandi sínu. Hún kom til Íslands og vonaðist til að fá vinnu við lögfræði hér. Henni var neitað um margar lausar stöður og neyðist til að vinna í fiski í dag.

Skömmu seinna sá ég grein á mbl.is um svartan kennara á Íslandi (Háskólakennara ef ég man rétt.) sem er mikill Íslandsvinur og stuðlar meðal annars að verndun íslenskrar tungu, eftir því sem sagt er. Þessi maður lét þau ummæli falla einhverntíma að það væri ákveðinn racismi í gangi á Íslandi, sama hvort fólk gerði sér grein fyrir því eða ekki.
Þessi maður fékk tíu alvarlegar hótanir í gegnum símann á næstu vikum. Honum var hótað öllu illu ef hann drægi ekki ummæli sín til baka opinberlega. Sögur herma að sá sem hótaði manninum hafi gert það á vegum Félags Íslenskra Þjóðernissinna.

Og seinast í fyrradag las ég í Fréttablaðinu um mann frá Afríku (Namibíu eða Kongó minnir mig) sem var menntaður í viðskiptafræði, með reynslu í eignastýringu, endurtalningu og mörgu fleira. Hann var með mjög góða og fjölþætta reynslu á sínu sviði. Hann gerði hrinu í því að sækja um vinnu, þar á meðal nokkur störf sem voru eins og sniðinn fyrir hann og hans hæfileika, en allt kom fyrir ekki og í dag er þessi maður að vinna í ræstingum.

Hvert eitt af þessum dæmum hefði getað verið óheppni, leti, tilviljun eða eitthvað annað en racismi sem olli þessu. En þegar maður sér þrjár umfjallanir á undir mánuði, í ótengdum miðlum, um þrjár manneskjur sem ekki þekkjast, verður maður að sætta sig við það að þetta er engin tilviljun. Íslendingar eru racistar, þeir fela það bara betur en aðrar þjóðir.
kv.