Klukkan 19:36 þann 20. september var eftirfarandi efnisgrein birt á mbl.is.
“Meirihluti hæstaréttar telur prófessorana Eirík Tómasson og Stefán Má Stefánsson standa öðrum umsækjendum um embætti hæstaréttardómara töluvert framar að hæfni til að hljóta embættið, að því er kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins. Ólafur Börkur Þorvaldsson, hæstaréttardómari, skilaði séráliti og telur Jón Steinar Gunnlaugsson vera afburðamann á sviði lögfræði og því sé honum ómögulegt að raða Jóni Steinari jafn aftarlega og meirihlutinn geri.”
Ég veit ekki hvort hlægja eigi eða gráta.
Rifjum fyrst upp síðustu ráðningu til hæstaréttar. Þá réði Björn Bjarnason Ólaf Börk sem hæstaréttardómara þrátt fyrir að meirihluti hæstaréttar hafi mælt með öðrum mönnum (Eiríki Tómassyni og Ragnari H. Hall). Ástæðan er sú að þeir eru í sama flokki auk þess sem þetta var frændi Davíðs.
Núna er það sama að gerast. Hæstiréttur mælir með tveimur mönnum og meira að segja öðrum þeirra í annað skiptið. Aftur á móti skilar Ólafur Börkur, sá sem var ráðinn á vafasömum forsendum, inn séráliti og mælir með öðrum manni sem vel þekkt er að er góður vinur Davíðs.
Þetta vekur spurningar um hæfni Börks til starfsins og á hvaða forsendum hann sé hæstaréttardómari. Hvort það sé til að dæma réttvíslega samkvæmt lögum Lýðveldisins Íslands eða dæma eins og hæfir Sjálfstæðisflokknum hverju sinni. Hvað varð um skilin milli dómsvaldsins og framkvæmdavaldsins og hvað gerist ef svo fer sem horfir og framkvæmdavaldið kemur enn öðrum fulltrúa inn í dómsvaldið?
Mér býður við þessu.