Mikið hefur veriði rætt um launamál æðstu manna ríkisins.
Margir vilja hækka launin umtalsvert til þess að fá þá hæfustu til að stjórna landinu.

Háværastur er líklega Xavier en þegar málin beinast að launum kennara þá er hljóðið annað.

“Hvað leikskóla-, grunnskóla og framhaldsskólakennara varðar þá er til nóg af kennurum og leiðbeinendum sem að sætta sig við þau laun sem að þeim er boðið og því óþarfi að vera að borga þeim hærra kaup.”

Hérna er ekki verið að leita að hæfasta fólkinu heldur þeim sem sætta sig við lagstu launin.
Svo vil ég benda Xavier að fylgjast með fréttum næsta haust þegar þeir verða uppfullir af fréttum um leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennaraskorti.

Áfram hélt Xavier:
“Afhverju að vera að borga fólki meira en það minnsta sem að það sættir sig við?”

Þetta er réttmæt spurning. Ég er t.d. tilbúinn að vera forsætisráðherra fyrir helmingi lægri upphæð en Dabbi. Eða varstu bara að tala um láglaunastéttina?


Á öðrum stað er sagt að laun eigi að fara eftir ábyrgð.
Hver á að hafa hærri laun. Forstjóri Landsvirkjunnar eða sjúkraflutningamaður sem er að bjarga mannslífum á hverjum degi?

Annars get ég ekki séð að ráðherrar hafi mikla ábyrgð. Hér ríður hvert hneykslið á fætur öðru yfir. Og taka blessaðir ráðherrarnir ábyrgð á því sem þeir hafa gert. Nei þeir sitja sem fastast og beita sér fyrir lögleiðingu hneykslisins.
Þegar láglaunamaður stendur sig ekki þá er hann rekinn.

Hækkun launa kemur ekki í veg fyrir mútur. Múturnar fara nefnilega ekki nema að litlum hluta til einstaklingana heldur í kosningaherferðirnar. Það kostar nefnilega pening fyrir flokk að komast til valda og sá peningur kemur frá fyrirtækjunum.

Ég hef aðallega verið að ræða um laun ráðherra en málið snýst líka um laun þingmanna.
Þau eru þegar allt of há.
Þingmenn eru ekkert annað en skrifstofufólk. Þeir hafa ekki aðstoðarmenn því þeir eru sjálfir aðstoðarmenn.
Þeir semja lög eftir pöntun og þeir greiða atkvæði eftir pöntun.
Og þeir fá víst borgað fyrir setu í nefndum (þingnefndum).
Svo eru endalaus fríðindi með þessum störfum. S.s. styrkir, dagpeningar, utanlandsferðir. Og svo bílar fyrir ráðherrana.

Mér finnst það samt ekki óhugsandi að hækka þessi laun. Þ.e. þegar þetta fólk fer að vinna alla vega fyrir núverandi kaupi sínu. Mér finnst þó forgangsmál að hækka laun annara. Einu sinni voru þingmenn ánægðir að vera með kennaralaun.

Svo var einhver að segja fólki að muna eftir ýmsum atriðum í næstu kosningum.
Þið getið treyst því að það verður gleymt þá.
Meðal Íslendingurinn er reiður út í stjórnina í viku eftir hvert hneyksli. Þessa viku talar hann um að nú þurfi að gera eitthvað en hann er of upptekinn við að meika það til þess að gera eitthvað sjálfur. Svo eftir vikuna þá er búið að kjafta um málið fram og til baka og allir komnir með leið á því.

Svo á Sjálfstæðisflokkurinn alltaf dyggan stuðningshóp meðal þeirra sem hafa ekki hundsvit á pólitík.

Velkomin í aðra öld kapítalismans.

Kveðja,
Ingólfur Harri